Umhverfisáhrif fiskeldis í sjó
Fiskeldi líkt og annar matvælaiðnaður hefur áhrif á umhverfi sitt, bæði bein og óbein.
Löggjöf um laxeldi hefur það m.a. að markmiði að vernda umhverfið og stuðla að velferð dýra. Löggjöfin kveður meðal annars á um mat á umhverfisáhrifum framleiðsluáætlana og eldissvæða, innra eftirlit og aðgerðaráætlunum til að draga úr áhrifum laxalúsar, sjúkdóma og stroks fiska úr kvíum. (Skýrsla BCG, bls. 119)
Áður en unnt er að veita leyfi til fiskeldis fer fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Mat á umhverfisáhrifum er formbundið ferli sem notað er við að meta og upplýsa um hugsanleg umhverfisáhrif framkvæmda á kerfisbundin hátt í opnu samráðs- og umsagnarferli. Áhrifin eru greind, vægi þeirra metin og lagt til hvernig bregðast skuli við þeim. Byggt er á niðurstöðu umhverfismats þegar ákveðið er hvort veita skuli leyfi til viðkomandi framkvæmdar. Ef niðurstaðan er að veita leyfi til framkvæmdarinnar eru niðurstöður umhverfismatsins lagðar til grundvallar við leyfisveitingu, t.d. með því að takmarka eða skilyrða eldið, þannig að dregið verði eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum hennar á umhverfið.
Kolefnisspor
Kolefnisspor laxeldis lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis og er svipað og við veiðar á villtum fiski. Aðeins skordýraframleiðsla hefur lægra kolefnisspor þegar kemur að framleiðslu dýrapróteins. (Skýrsla Environice, bls. 6) Þá má nefna að kolefnisspor íslenska lambakjötsins er um 28,6 CO2-ígilda á hvert framleitt kg lambakjöt á meðan það er 3,76 fyrir laxinn. (Skýrsla Environice, bls. 23)
Af þessari töflu má einnig sjá hve lágt hlutfall af fóðri þarf til laxeldis í samanburði við aðra matvælaframleiðslu á Íslandi. Góða fóðurnýtingu má m.a. rekja til þess að lax brennir afar takmarkaðri orku í að vinna gegn þyngdaraflinu og til að viðhalda líkamshita þar sem lax er með kalt blóð. Annar mælikvarði sem er hagkvæmur hjá atlantshaflaxinum er hlutfall ræktaðs lífmassa sem nýttur er til manneldis, þ.e. um 73%. Samanlagt gerir þetta fóðurnýtingu í laxeldi betri en í flestum öðrum greinum landbúnaðar. (Skýrsla BCG)
Þrátt fyrir að fóðurnýting sé hlutfallslega góð í laxeldi er áætlað að langstærsti hluti af kolefnisspori laxeldis á Íslandi (um 93%) megi rekja til framleiðslu og flutninga á fóðri. Um 3% stafa af framleiðslu og flutningi umbúða og um 2% af flutningi afurða til dreifingarstöðvar. Aðrir þætti hafa minna vægi. Af þessu er ljóst að áhrif greinarinnar á loftslagið liggja fyrst og fremst í starfsemi sem fram fer utan laxeldisstöðvanna sjálfra. (Skýrsla Environice, bls. 6) Áhugi fjárfesta hefur þó vaxið með auknu umfangi fiskeldis á Íslandi og hafa t.d. Síldarvinnslan og BioMar Group kynnt áform um að reisa fóðurverksmiðju á Íslandi. (Skýrsla BCG, bls. 60)
Þá má einnig draga úr losun í greininni með því að tengja fóðurpramma við landstraum, þar sem því verður komið við og notast við rafhlöðulausnir á svæðum sem ekki er hægt að tengja landstraum. (Skýrsla Bláma)
Umhverfisvottanir
Á sama hátt og fyrir veiðar úr villtum stofnum hefur verið komið á fót ýmsum gæðavottunum fyrir fiskeldi. Íslensk fiskeldisfyrirtæki hafa frá upphafi lagt áherslu á að framleiða vottaðar afurðir. Sum þeirra hafa fengið Aquaculture Stewardship Council (ASC) vottun á framleiðslu sína, sem stofnað er af World Wide Fund for Nature (WWF). (ASC vefsíða) ASC vottunin staðfestir að fyrirtækið vinni með umhverfið og velferð starfsmanna sinna í huga. Staðallinn í daglegum verkefnum snýr að heilbrigði fisksins, velferð rándýra, ástand búnaðar, öruggum starfsaðstæðum fyrir starfsmenn. Forsenda vottunarinnar er að umhverfið sé vaktað undir og í kringum eldisstaðsetningar fyrirtækisins áður en fiskur er settur út í sjó og við hámarkslífmassa.
Önnur eru með ECOCERT vottun fyrir verslunarkeðjuna Whole Foods Market í Bandaríkjunum eða hafa fengið lífræna vottun samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins sem er svipuð og þær kröfur sem Whole Foods Market gerir. Enda þótt vottun leiði ekki ætíð til þess að fyrirtæki geti fengið hærra verð fyrir vöru sína, auðveldar hún fyrirtækjum aðgengi að mörkuðum. Þá hafa sum fiskeldisfyrirtæki hlotið BRCGS vottun (Brand Reputation Compliance Global Standards), sem vottar að verkferlar og vinnsluhúsnæði sé á pari við alþjóðlega staðla er snúa að öryggi matvæla. BRCGS fylgir eftir ferlinu frá því að fiskurinn kemur inn í vinnsluhúsnæðið og þar til honum er pakkað í innsiglaðar umbúðir og tilbúinn til flutnings.