Notkun sýklalyfja
Lögð er áhersla á lyfjalausar forvarnir í víðu samhengi í íslensku fiskeldi og allt gert til þess að lágmarka notkun lyfja. Staðan hefur verið góð hér á landi, ekki síst þegar horft er til notkunar sýklalyfja. (Ársskýrsla dýralæknis fiskisjúkdóma 2022, bls. 35)
Í nýjustu skýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma frá 2022 segir: „Eftir rétt tæpan áratug þar sem engin sýklalyf voru notuð í íslensku fiskeldi brá svo við að grípa þurfti til lyfjagjafar í landeldi á bleikju haustið 2021 og þeirri meðhöndlun þurfti svo að fylgja eftir á liðnu ári. Þess má geta að sýklalyf hafa aldrei verið notuð hjá þeim fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum og Austfjörðum.“
Þá getur hann þess að í nokkrum tilfellum hafi þurft að beita sýklalyfjum til að ráða niðurlögum rauðmunnaveiki í villtum laxaseiðum í eigu íslenskra veiðifélaga sem alin voru til fiskræktar, og síðar sleppt í laxveiðiár. (Ársskýrsla dýralæknis fiskisjúkdóma 2022, bls. 35)
Eftirlit dýralæknis fiskisjúkdóma
Dýralæknir fiskisjúkdóma tekur einnig fram í skýrslu sinni að skipulegt og árlegt eftirlit með leifum sýklalyfja og annarra aðskotaefna í eldisfiski hófst árið 1999 í samræmi við tilskipun ESB nr. 96/23/EEC um eftirlit með sýklalyfjum, hormónum og öðrum aðskotaefnum í afurðum dýra og eldisfisks. Um niðurstöður sýnatöku segir: (Ársskýrsla dýralæknis fiskisjúkdóma 2022, bls. 35)
„Árið 2022 voru tekin alls 540 sýni úr seiðum og sláturfiski í fjölda fiskeldisstöðva og fiskvinnslna hringinn í kringum landið og voru sýnin notuð til lyfja- og aðskotaefnagreininga. Úrvinnsla sýna fer fram hjá viðurkenndri rannsóknarstofu í Danmörku og reyndust öll sýni laus við lyfjaleifar og án aðskotaefna, líkt og öll árin þar á undan.“