Hreinleiki lands og sjávar skiptir höfuðmáli við nýtingu verðmæta sem hafið hefur að geyma. Góð umgengni um hafið og fiskveiðar í sátt og samlyndi við náttúruna eru forsenda þess að fiskistofnar við Ísland verði nýttir um alla framtíð.

Íslenskur sjávarútvegur í fararbroddi

umhverfisskýrsla SFS kom út í apríl 2024 og af því tilefni var haldinn opinn fundur um umhverfis- og orkumál í sjávarútvegi þar sem hlýða mátti á fróðleg erindi - hér má nálgast samantekt og upptöku af fundinum.

Það er engum vafa undirorpið að sjávarútvegur dregur vagninn í íslensku atvinnulífi þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Íslenskur sjávarútvegur hefur dregið úr olíunotkun á hafi um tæp 40% frá árinu 1990. Samdrátturinn væri nær 50% ef ekki hefði komið til verulegrar skerðingar á raforku til fiskimjölsverksmiðja á liðnum tveimur árum. Nær allar fiskimjölsverksmiðjur eru rafvæddar og þær fáu sem eftir standa sæta færis. Fiskiskipaflotinn er jafnframt langt kominn með að skipta út kælimiðlum fyrir aðra sem ekki menga. Þá hafa fyrirtæki í sjávarútvegi fjárfest svo um munar í nýrri og umhverfisvænni tækni á öllum sviðum starfsemi sinnar, sem flýtir frekari árangri í loftslagsmálum.

Það stendur ekki á íslenskum sjávarútvegi þegar kemur að orkuskiptum og árangri í loftslagsmálum til framtíðar. Boltinn er að miklu leyti hjá stjórnvöldum — tryggja þarf framboð grænnar orku, sterka innviði, stöðugt starfsumhverfi og fjárhagslegt svigrúm í formi hóflegrar gjaldtöku.

Samfélagsstefna sjávarútvegs

Íslenskur sjávarútvegur tekur hlutverk sitt alvarlega sem framleiðandi matvæla og ein af burðarstoðum efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Samfélagsstefnuna og nánari upplýsingar um ófjárhagslegar upplýsingar sjávarútvegs má nálgast á samfelag.sfs.is

Grunngildin í samfélagsstefnu sjávarútvegs eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 14 (Líf í hafi) og 9 (Nýsköpun og uppbygging). Í stefnunni er einnig fjallað um önnur mikilvæg undirmarkmið.

Loftslagsvegvísir sjávarútvegs og fiskeldis

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gáfu út loftslagsvegvísa fyrir sjávarútveg og fiskeldi árið 2023 en vegvísarnir kveða á um fjölmargar tillögur til úrbóta þegar kemur að auknum samdrætti í losun gróðuhúsalofttegunda.

Hér má nálgast loftslagvegvísa sjávarútvegs og fiskeldis.

Það dylst engum sem á horfir að sjávarútvegurinn hefur dregið vagninn þegar kemur að samdrætti í kolefnislosun og mun halda því áfram, fái hann svigrúm til þess. Frekari gjaldheimta, hvort sem er í formi hækkunar veiðigjalds eða kolefnisgjalds, dregur úr því svigrúmi og minnkar möguleikann á því að sjávarútvegurinn dragi vagninn í mark þegar kemur að háleitum lofstlagsmarkmiðum stjórnvalda fyrir næstu árin.

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins er lifandi skjal og verður uppfært eftir því sem fram líða stundir og ástæða er til.

Þá fékk SFS norska ráðgjafafyrirtækið DNV til að greina hvernig markmiðum í samdrætti olíunotkunar verði náð hjá fiskiskipum á Íslandi fyrir árið 2030. Greininguna má lesa hér.

Enduvinnsla veiðarfæra

SFS og veiðarfæragerðir hafa tekið á sig framleiðendaábyrgð vegna veiðarfæra og sinna móttöku á veiðarfæraúrgangi á íslandi. Upplýsingar um endurvinnslukerfi fyrir veiðarfæraúrgang má finna hér.

Samtal í sjávarútvegi

Til þess að grafast fyrir um hvað má gera betur í sjávarútvegi og auka skilning og traust héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fjóra fundi um málefni sjávarútvegs síðari hluta vetrar. Efni fundanna var: gagnsæi, umhverfismál, samfélagslegur ábati og nýsköpun. Sjá nánar um fundina hér.