Spurt og svarað í sjávarútvegi
Árið 2020 greiddu 934 einstakir lögaðilar veiðigjald. Allar tegundir fiskiskipa eru hér undir, allt frá smæstu bátum til stærstu togara og uppsjávarskipa.
Já, kolefnissporið í íslenskum sjávarútvegi hefur minnkað mikið. Olíunotkun í sjávarútvegi hefur dregist saman um 40% frá árinu 2005 og stefnt er að því að samdrátturinn verði orðinn 50% árið 2030. Margir samverkandi þættir leggjast á eitt og skýra þessa þróun, eins og bætt fiskveiðistjórnun, tækniframfarir sem auka afla á sóknareiningu, samþjöppun í greininni og breytt orkunotkun. Því hefur dregið úr notkun á jarðefnaeldsneyti, bæði til sjós og í fiskimjölsverksmiðjum á landi. Með áframhaldandi fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja mun draga enn frekar úr olíunotkun.
Þorskurinn ber höfuð og herðar yfir aðrar fisktegundir hér við land hvað útflutningsverðmæti varðar. Undanfarin ár hefur hlutdeild þorsksins í heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða að jafnaði verið um 41% til 49%, eða sem nemur um 105 til 132 milljörðum króna á föstu gengi ársins 2020.
Um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á alþjóðlegum markaði. Það kann að koma einhverjum á óvart, miðað við það hversu vinsæll fiskur er á Íslandi. Almennileg fótfesta á erlendum mörkuðum og alþjóðleg samkeppnishæfni í framleiðslu skiptir höfuðmáli um hag greinarinnar. Ísland er árlega á topp 25 lista yfir aflahæstu þjóðir heims. Það er afar sjaldgæft að Ísland komist á einhvern topp heimslista þegar samanburðurinn snýr að magntölum. Þegar litið er hins vegar á afla á hvern íbúa, gnæfir Ísland yfir aflahæstu þjóðir heims
Mikilvægustu markaðirnir eru í Evrópu. Þangað fer langmest af botnfiski, til dæmis þorski, ýsu, ufsa og karfa. Bandaríkin kaupa einnig mikið af botnfiski. Uppsjávarfiskur, loðna, kolmunni, síld og makríll fer mest til landa í Austur-Evrópu og Noregs. Franski markaðurinn hefur vaxið hraðast á undanförnum árum, en þangað fer mikið af ferskum botnfiskafurðum.
Mismunandi er frá einum stað til annars hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er. Sum staðar er sjósókn grunnundirstaða mannlífs, annars staðar skiptir hann litlu máli. Víðast hvar hefur sjávarútvegur verið um 10-20% af framleiðslu einstakra landshluta, en vægi hans er langminnst á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann hefur staðið undir rétt rúmlega 1% framleiðslunnar. Af einstaka landshlutum hefur vægi hans verið einna mest á Vestfjörðum og á Austurlandi.
Á undanförnum árum hafa um 8 til 10 þúsund manns starfað í sjávarútvegi, sem er rúmlega 4-5% af heildarfjölda starfandi hér á landi. Hér er einungis átt við hefðbundin störf í sjávarútvegi, í veiðum og vinnslu, en ekki störf sem tengjast starfsemi sjávarútvegs beint eða óbeint eða störf hjá tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum sem er oft á tíðum samofin starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Þessar tölur vanmeta því mikilvægi sjávarútvegs fyrir vinnumarkaðinn í heild.
Á árunum 2011-2019 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki samanlagt um 36-65% af hagnaði hvers árs í tekjuskatt og veiðigjald. Á þessu tímabili var þetta hlutfall að jafnaði 46%, sem jafngildir ríflega tvöföldum tekjuskatti sem fyrirtæki þurfa almennt að greiða.
Frá árinu 2015 hefur íslenskur sjávarútvegur greitt að meðaltali um 22 milljarða á ári að jafnaði í bein opinber gjöld. Eða samtals hátt í 110 milljarða króna. Inni í þessari tölu er veiðigjald, tekjuskattur, tryggingagjald og aflagjald.
Á árunum frá 2015-2019 námu fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja, að frádregnum seldum eignum, að jafnaði um 23 milljörðum króna á ári. Fjárfesting í sjávarútvegi hefur ekki verið meiri á 5 ára tímabili frá því að upphafleg lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi. Fjárfestingar hafa bæði verið í nýjum sparneytnari skipum og vinnslum sem eru útbúnar með hátæknivélum, sem oftar en ekki eru íslenskt hugvit og smíð. Þessi mikla fjárfesting hefur leitt til aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi og er lykillinn að bættri samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Árangur fyrirtækjanna við að draga úr kolefnisspori er þó einn veigamesti ábatinn sem fengist hefur með aukinni fjárfestingu.
Á árunum 2011-2019 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi að meðaltali 29% af hagnaði. Á sama tímabili voru arðgreiðslur í viðskiptahagkerfinu án sjávarútvegs 39%. Í þessu samhengi ber að nefna að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið að skila sér í stóraukinni fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja, sem hefur ekki verið meiri í rúm 30 ár, eða allt frá því upphafleg lög um stjórn fiskveiða tóku gildi. Þessar fjárfestingar hafa verið ráðandi þáttur í því að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar, treysta áframhaldandi atvinnu hér á landi og minnka notkun á olíu.