Efnahagsmál
Tilgangur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi og í fiskeldi. Það er því veigamikill þáttur í starfsemi samtakanna að efla skilning á atvinnugreinunum í efnahagslegu tilliti og stuðla að upplýstri umræðu í því sambandi.
Mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslegu gangverki þjóða er afar mismunandi. Íslendingar eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem treysta hvað mest á sjávarútveg. Hann er einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og gegnir einu af lykilhlutverkum í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Fiskeldi er grein sem er í miklum vexti um þessar mundir og er farin að hafa teljandi áhrif á atvinnulífið hér á landi og gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Það er nokkuð ljóst að það er ekki einungis hagur sjávarútvegs og fiskeldis að umræðan um atvinnugreinarnar sé málefnaleg og á staðreyndum byggð, heldur hagur allra.
Í þessari vinnu birta samtökin fjölda greina um sjávarútveg og fiskeldi í efnahagslegu gangverki þjóðarbúsins. Þær eru ýmist birtar hér á vefsíðu samtakanna sem og á Radarnum. Þær greinar sem eru birtar á Radarnum eru oftar í styttri kantinum og varpa ljósi á stöðuna í sjávarútvegi og fiskeldi á hverjum tíma. Á Radarnum er einnig að finna ýmsar tölfræðiupplýsingar um sjávarútveg og fiskeldi, svokallað mælaborð. Á heimasíðunni er einnig að finna ýmsar staðreyndir um sjávarútveg og fiskeldi undir flokknum spurt og svarað.