12. ágúst 2023
Unnið í andstöðu við stjórnarsáttmála
Við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr þegar þetta er ritað, var gerður sáttmáli líkt og hefðbundið er, þar sem meðal annars var fjallað um áherslur tengdar sjávarútvegsmálum. Var þar um samið á meðal ríkisstjórnarflokanna þriggja, að meta skyldi þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Sérstök nefnd skyldi í þessum tilgangi skipuð og henni meðal annars falið að bera saman stöðuna hér á landi og erlendis. Að svo búnu ætti að leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar.
Verkefnið var sannanlega þarft, enda nauðsynlegt þjóðarhag að samkeppnishæfni grunnatvinnuvegs og einnar stærstu stoðar útflutnings okkar Íslendinga sé treyst enn frekar. Það þarf að tryggja að atvinnugreinin skapi meiri verðmæti í dag en í gær, þannig að lífskjör hér á landi haldist áfram góð.
Þrátt fyrir nokkuð skýr fyrirmæli um verkefnið í stjórnarsáttmála, þá hefur því miður ekki verið eftir þeim unnið. Hvergi má finna því stað að þjóðhagslegur ávinningur hafi verið metinn og enginn samanburður hefur verið gerður á stöðunni hér á landi og erlendis. Þessi atriði hafa aldrei komið til umræðu á vettvangi þeirrar samráðsnefndar sem ráðherra skipaði í tengslum við vinnuna og hvergi er um þetta fjallað á umfangsmikilli upplýsingasíðu verkefnisins.
Þrátt fyrir skort á þessum grundvallaratriðum í vinnu sem ætlað er leiða okkur fram veginn, þá hafa 60 bráðabirðgatillögur litið dagsins ljós. Velta má fyrir sér, hvernig unnt er að gera tillögur á hinum ýmsu sviðum tengdum sjávarútvegi þegar enn hefur ekki verð metið hver ávinningur núverandi kerfis er og hvar við stöndum í samanburði við aðra? Hvernig vitum við hvað þarf að bæta ef engin er úttektin á stöðunni í dag og enginn er samanburðurinn við það sem aðrar þjóðir eru að gera?
Þegar rýnt er í þessar 60 bráðabirgðatillögur má hins vegar átta sig á hvernig þær yfir höfuð komust á blað. Þarna er einfaldlega búið að taka saman sarp hugmynda úr ýmsum áttum. Tillögurnar allar eru síðan ýmist til frekari umræðu eða útfærslu – hvað svosem það kann að þýða. Og því miður virðist þetta flest án nokkurs samhengis við hið skýra markmið sem sett var fram í stjórnarsáttmála.
Af þessum sökum er ekki unnt að hafa nokkra hugmynd um eða vissu fyrir að umræddar bráðabirgðatillögur, verði þær að veruleika, muni auka hinn þjóðhagslega ávinning af nýtingu auðlindarinnar eða auka möguleika til frekari árangurs í samkeppni við aðrar fiskveiðiþjóðir, sem flestar líta þó á Ísland sem fyrirmynd í sjávarútvegi. Kannski var þá betur heima setið en af stað farið.
Í þessu samhengi er líka merkilegt að lesa nýlega grein matvælaráðherra, sem virðist líta svo á að það mikilvægasta sé að „upplifun“ almennings af grunnatvinnuvegi þjóðarinnar sé betri. Í heilli grein um þessar bráðabirgðatillögur er hvergi talað um miklar tekjur sem sjávarútvegur hefur skapað íslensku þjóðinni og íslenskum stjórnvöldum í formi skatttekna, sem hafa lagt grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við. Það er eins og það skipti engu máli í hinni pólitísku mynd. Óljós upplifun virðist einfaldlega skipta meira máli en verðmætasköpun og sá hagur sem vel rekinn sjávarútvegur færir þjóðinni.
Því miður læðist sá grunur að manni, að bráðabirðgatillögunum hafi verið ætlað að sneiða framhjá skýru markmiði stjórnarsáttmála og auðvelda ábyrgðaraðila verkefnisins, matvælaráðherra, að velja þær hugmyndir sem best falla að hans eigin pólitísku markmiðum. Það væri þá ekki í fyrsta skipti.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS
Birtist í Morgunblaðinu 12. ágúst