12. apríl 2023
Munaðarlaus net í endurvinnslu
SFS hefur staðið fyrir verkefni sem miðast að því að safna saman veiðarfærum og koma þeim í endurvinnslu. Fimmtán móttökustöðvar eru komnar, allt í kringum landið og viðtökurnar hafa verið frábærar. Magn þess sem sent er út til endurvinnslu hefur tæplega þrefaldast á nokkkrum árum og er nú svo að meira er flutt út en inn.
Fyrir utan betri umgengni, skýrara kerfi og fleiri móttökustöðvar skiptir miklu átak SFS og veiðifæraframleiðenda að finna munaðarlaus veiðarfæri víða um land. Þeim hefur verið komið í gáma og þaðan til endurvinnslu. Og þau leynast víða.
Á dögunum var bjargað gamalli síldarnót rétt utan athafnalóðar Ísfells, vestan við Hvaleyrarbakka í Hafnarfirði. Þessi 10 tonna nót á sér reyndar mikla sögu.
Veiðarfærameistarar telja að hún sé frá síldarárunum, framleidd 1960-1970 - gömul og margviðgerð. Talið er líklegt að hún hafi komið í land fyrir um 15 árum og beðið örlaga sinna á hafnarbakka í Hafnarfirði. Þar til í síðustu viku. Þá var hún hífð upp í gám og hélt í nýtt ferðalag.
Í þessum haug var síldarnót sem innihélt nylon, blý, nótaflot og kaðla. Töluvert af gúmmí var á svæðinu líka. Allt verður þetta sent til endurvinnslu til Litháen strax eftir helgi þar sem allt sem hæft er til endurvinnslu og endurnýtingar verður tekið frá og annað til orkunýtingar. Allt gúmmí hefur þegar verið sent til Hollands til endurvinnslu.
Hreinsun á munaðarlausum veiðarfærum er samstarf SFS, veiðarfæragerða (í þessu tilviki Ísfell) og Eimskip og hefur verið í gangi síðustu 2 ár. Þessi endurskipulagning snýr að því að koma öllum úreltum veiðarfærum og fiskeldisnetum á Íslandi til endurvinnslu. Árið 2022 var fyrsta heila árið í þessu nýja kerfi og niðurstaðan var met í útflutning á veiðarfærum til endurvinnslu.
Eimskip sér um svo að koma þessu til aðila sem tryggja ábyrga meðhöndlun efnisins þar sem forgangur er á endurnotkun og endurvinnslu.
Það er greinilegt að þetta nýja kerfi virkar og það sést best á tölum um útflutning á veiðarfærum til endurvinnslu:
2019 - 758.382 kg
2020 - 526.489 kg
2021 - 729.852 kg
2022 - 1.685.832 kg
Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þetta hafði litið út vel á annan áratug. Núna eru þessi net komin til endurivnnslu.