Áhrif fiskeldis á raforku- eða fjarskiptastrengi í sjó
Raforku- og fjarskiptastrengir liggja víða í sjó við Ísland. Strandsvæðisskipulag á hverju svæði tekur mið af því að öryggi slíkra strengja sé tryggt og komið sé í veg fyrir röskun á virkni þeirra.
Í lögum um fjarskipti er kveðið á um aðgæslu sjófarenda þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó og að bannað sé að veiða með veiðafærum sem fest eru í botn eða dregin eftir honum á belti sem nær 463 metra hvoru megin við strenginn. Ræður þessi viðmiðun mestu við mörkun svæða undir raforku- og fjarskiptastrengi. Lögin ná þannig ekki til annars en veiðarfæra sem fest eru við botn eða dregin eftir botni og skipa sem leggjast við akkeri. Engu að síður er afar mikilvægt að fara að gát við festingu eldiskvía. Áður en eldiskvíar eru staðsettar í sjó fer fram ítarleg greining á umhverfisaðstæðum, s.s. veðurlagi, botngerð og straumum á eldisstað. Frá mælingu og endanlegri staðsetningu botnfestinga skeikar alla jafna ekki meira en 10 m sem má fyrst og fremst rekja til skekkjumarka GPS-kerfa í sjó. Útsetningarskýrsla er gerð eftir að eldiskvíar hafa verið staðsettar í sjó og frá útsetningu hreyfast bontfestingar lítið sem ekkert, og þá fremur í átt að miðju sjókvíar.