Burðarþolsmat
Burðarþolsmati er ætlað að meta hversu mikið af lífmassa fiskeldis er óhætt að ala í firði eða hafsvæði án þess að óæskileg áhrif á umhverfið hljótist af. Markmið burðarþolsmats er að nýting auðlinda sé sjálfbær og að lífrænt álag frá fiskeldi verði aldrei það mikið að viðkomandi hafsvæði nái ekki umhverfismarkmiðum skv. lögum um stjórn vatnamála.
Í mati á burðarþoli eru áhrif þess álags sem fiskeldisstarfsemi veldur metin með tilliti til líffræðilegra og eðlisefnafræðilegra gæðaþátta. Við matið er stuðst við umhverfisviðmið sem byggja á náttúrulegum aðstæðum á hverjum stað og er í því sambandi litið til margra þátta, s.s. mælinga á hafstraumum, súrefnisstyrks, lífríkis á botni og uppsöfnun lífrænna efna og næringarefna.
Rekstrarleyfi til að ala fisk í sjó eru veitt með tilgreindum leyfilegum hámarkslífmassa til framleiðslu á öllum tegundum í tilteknum firði. Samanlagður lífmassi í firði skal vera innan marka burðarþols fjarðar sem tilgreinir þann lífmassa sem tiltekið hafsvæði getur borið. (Skýrsla BCG, bls. 90)
Samkvæmt lögum ákveður ráðherra hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær það skuli gert. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun hefur metið burðarþol níu fjarða og eins hafssvæðis. Á Vestfjörðum hafa fimm svæði verið metin með samtals burðarþol 82.500 tonn. Fimm firðir á Austfjörðum hafa verið metnir með samtals burðarþol 62.000 tonn.
Nánar er fjallað er um burðarþolsmat og framkvæmd þess í lögum um fiskeldi nr. 71/2008 aðallega í 4. gr. a. og 6. gr. b. en einnig 3.gr., 9. gr., 10. gr., 15. gr., 20. gr. a. og nokkurra ákvæða til bráðabirgða.
Vöktun og eftirlit
Hafrannsóknastofnun vaktar lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og ber að endurskoða matið svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar. Öll leyfi til fiskeldis verða að rúmast innan gildandi burðarþolsmats hverju sinni.
Hvíld eldissvæða
Mikilvægt er að hvíla eldissvæði með reglulegu millibili. Almennt er eldistími 16-24 mánuðir frá því að seiði eru sett í sjókvíar, sem er þó háður ýmsum þáttum. Að eldistíma loknum er skylt að hvíla viðkomandi eldissvæði til að gefa umhverfinu og botndýralífi tækifæri á að endurheimta fyrri fjölbreytileika.
Á hvíldartímanum brotna lífrænar leifar niður og í framhaldi af því má búast við að botndýr sem lifa í nágrenninu, og þola ekki uppsöfnun lífrænna leifa, geti fært sig á svæðið aftur. Af þessu leiðir að áhrif fiskeldis á botndýralíf eru ekki talin varanleg ef svæði eru hvíld með reglulegu millibili og í þann tíma sem það tekur botndýralífið að jafna sig. Lengd hvíldar ræðst af niðurstöðu úttektar á raunástandi viðkomandi eldissvæðis, en getur styst orðið 3 mánuðir.
Eftirlit með áhrifum á eldissvæði er í höndum Umhverfisstofnunar sem hefur einhliða heimildir til að fresta, takmarka eða stöðva útsetningu seiða ef uppsöfnun næringarefna eða aðrar óhagstæðar umhverfisaðstæður krefja. Þriðji aðili skal einnig rannsaka lífríki og umhverfi eldissvæða áður en eldi hefst, á þeim tíma sem eldi er starfrækt og að eldistíma loknum. Fyrirtæki fá ekki heimild til að setja seiði aftur í kví og hefja nýjan eldisferil fyrr en búið er að kanna ástand sjávarbotns og staðfesta að hann sé tilbúinn. Hægt er að sjá úttektir eftirlitsaðila og niðurstöður grunnsýnatöku fyrir hvert eldissvæði á heimasíðu Umhverfisstofnunar. (Skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra)