Afföll í eldi

Afföll í eldi

Afföll

Afföll eða dauði er eðlilegur þáttur í lífi allra dýra. Á árunum 2020-2022 hafa árleg afföll laxa í sjókvíum verið á bilinu 12%-20%. Nánari upplýsingar um afföll má nálgast á Mælaborði Fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar. (Mælaborð fiskeldis, MAST)

Lax í sjókvíum lifir að hluta til við stýrðar aðstæður en þrátt fyrir það verður ekki hjá því komist að náttúrulegar orsakir, bakteríur eða annað valdi dauða hluta fiska á ári. Þá er unnið að því að styrkja seiðabússkap hér á landi til að auka lífvænleika útsettra seiða.

Til samanburðar eru afföll af villtum laxi í sjó um 3% á mánuði eða um 31% á ári. Við þær aðstæður er alla jafna um að ræða náttúrulegan dauða sem skýrist þá af þáttum eins og afráni, sjúkdómum, lélegri hæfni í umhverfi og umhverfisaðstæðum. (ICES Scientific Reports 2021)

Hvað eru vetrarsár?

Svokölluð vetrarsár koma oftast til vegna bakteríu að nafni Moritella viscosa. Auknar líkur eru á vetrarsárum þegar sjávarkuldi er mikill og samhliða geta afföll aukist. Bakterían greindist sem nýsmit í átta tilfellum í eldislaxi árið 2022. (Ársskýrsla dýralæknis fiskisjúkdóma 2022)

Hægt er að notast við sérstakt kuldafóður sem minnkar líkur á vetrarsárum. Jafnframt er mikilvægt að halda allri meðhöndlun á fiskinum í lágmarki á þeim tíma sem sjávarhiti er lágur. Eftirlit er haft með sjávarhita og gripið til viðeigandi ráðstafana ef sjávarhiti fer of lágt niður.

Á undanförnum árum hafa staðið yfir alþjóðlegar rannsóknir sem munu varpa betur ljósi á samspil baktería í roðsárum í sjóeldi þegar fram líða stundir. Allur lax er bólusettur gegn vetrarsárum með góðri virkni áður en hann fer í sjóeldi og tilraunir hafa staðið yfir á liðnum árum með bólusetningu með nokkuð góðum árangri.

Sveimarar

Svokallaðir sveimarar eru lítill hluti þeirra fiska sem eru í sjókví á hverjum tíma. Þeir eru þróttlitlir og hafa því ekki burði til að synda neðarlega í kvínni meðal heilbrigðra eldisfiska og færast því efst í hana. Afmyndun þeirra getur skýrst af náttúrulegum orsökum eins og því að þeir rekast í kvína sem veldur sáramyndum sem gróa illa. Þá eru flestir þessara fiska með vetrarsár sem skýrast af bakteríu.

Sveimarar eru veiddir úr kvínni við fyrsta tækifæri, a.m.k. daglega ef aðstæður leyfa, og enda því aldrei sem hluti af matvælaframleiðslunni að loknu eldistímabili. Sveimarar og dauðfiskar eru almennt unnir í mjöl og notaður til prótíngerðar en í undantekningartilvikum er þeim fargað.