7. febrúar 2022

Orkuskipti í sjávarútvegi eru verðugt viðfangsefni

Sú umræða hefur færst í aukana, hvort unnt sé að knýja íslenska fiskiskipaflotann með metanóli, sem framleiða má á Íslandi. Miðað við núverandi aðstæður, þá er það ekki hægt. Umræðan er hins vegar bæði mikilvæg og spennandi. Metanól er vissulega einn þeirra orkugjafa sem miklar vonir eru bundnar við, en hann er ekki sá eini. Það er sannarlega óskandi að framtíðar orkugjafi fyrir skip verði framleiddur með umhverfisvænu íslensku rafmagni. Það er draumastaða, sem ekki er útilokuð. Að mörgu þarf hins vegar að huga við svo viðamikil orkuskipti.

Íslenskur sjávarútvegur hefur mikinn áhuga á orkuskiptum og á undanförnum árum hafa komið nýrri og sparneytnari skip til landsins. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fylgjast vel með því sem er að gerast í orkuskiptum í heiminum og vonandi fer að hilla undir samkeppnishæfar og raunhæfar lausnir. Þótt orðið orkuskipti sé ekki stórt í munni, þá er innihald þess verulegt að umfangi þegar það er nefnt í samhengi sjávarútvegs.

Hentar metanól í skip?

Orkuinnihald metanóls er um það bil helmingi minna en í jarðefnaeldsneyti. Á mannamáli þýðir það að það þarf tvöfalt meira af metanóli en olíu til að fá sömu orku. Það þarf með öðrum orðum tvær einingar af metanóli á móti einni af olíu. Því er einboðið að skip þurfa að vera mun stærri en þau eru núna, eigi þau að nýta metanól sem orkugjafa. Við bætist að smíði á slíku skipi er mun dýrari en smíði á hefðbundnu, en sá munur mun vonandi minnka á komandi árum. Þá er ekki síður nauðsynlegt að tryggja öryggi skipverja við meðhöndlun á nýjum orkugjafa. Það er vandasamt úrlausnarefni.

Af þessum sökum verður að teljast líklegt að þegar orkuskipti til sjós munu eiga sér stað, verði það fyrst um sinn í minni bátum og skipum. En á móti kemur að það vinnst miklu meira með því að knýja stór skip með umhverfisvænni orku. Og þangað ber að sjálfsögðu að stefna.

Tækni er stutt á veg komin

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samorka, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Faxaflóahafnir fengu norska ráðgjafafyrirtækið DNV til þess að meta orkuþörf flotans og möguleika á orkuskiptum til sjós. Í stuttu máli má segja að tækni til þess að skipta út jarðefnaeldsneyti á fiskiskipum er ekki ennþá nógu „þroskuð“. Samkvæmt nýlegri frétt frá einum umsvifamesta framleiðanda skipavéla í heiminum, Wartsilla, hefur fyrirtækið fengið sína fyrstu pöntun á vél sem bæði getur brennt hefðbundinni skipaolíu og metanóli. Gangi áætlanir eftir er ráðgert að afhenda hana á næsta ári og fyrirtækið telur að tæknin geti orðið söluvara á næstu árum. Það bendir því klárlega margt til þess að metanól verði einn af valkostunum í skipum framtíðarinnar. Þó ber að hafa í huga að samkvæmt áðurnefndri skýrslu DNV er kostnaður við nýtt skip, knúið metanóli, allt að 50-100% hærri en vegna hefðbundins skips og að auki er framleiðsla á metanóli miklu dýrari en framleiðsla á jarðefnaeldsneyti.

Innviðir eru ekki til staðar

Þegar nýir valkostir í orku á fiskiskip verða komnir til sögunnar þarf að hyggja að innviðum. Það þarf að vera til næg raforka til þess að framleiða eldsneytið. Þá þarf að huga að geymslu á eldsneytinu, flutningum og öryggismálum vegna meðferðar þess. Og ekki bara á einum stað, heldur víða um land þar sem skip hafa viðkomu, bæði íslensk og erlend. Því má búast við að í fyrstu verði kerfið tvöfalt;  það verður ekki skipt um eldsneyti í öllum skipum í einu, frá einum degi til annars. Það mun taka allnokkur ár.

Það má einnig geta þess að nú um stundir er ekki til næg raforka til þess að knýja fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi. Fyrir því eru að sjálfsögðu nokkrar ástæður, en engu að síður er það óásættanlegt að brenna þúsundum tonna af olíu til þess að knýja verksmiðjurnar. Stjórnvöld þurfa að tryggja að hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti þar sem nú þegar er búið að fara í orkuskipti. Flestar fiskimjölsverksmiðjur geta notað raforku í stað olíu, en eins og staðan er núna, er sú raforka einfaldlega ekki í boði!

Tryggja þarf samkeppnishæfni

Það er nauðsynlegt að halda því kyrfilega til haga að íslenskur sjávarútvegur er algerlega háður stöðu sinni á alþjóðlegum markaði, því um 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt út. Til þess að hann sé samkeppnishæfur verður hann að búa við sambærilegar álögur og erlendir keppinautar. Samtal um þetta þarf að eiga sér stað á milli allra hlutaðeigandi hér á landi, ekki síst um það hvernig greitt verður fyrir fjárfestingar og framkvæmdir sem þarf að ráðast í vegna orkuskipta.

Það er sannarlega eftirsóknarvert að framleiða sjávarafurðir með takmörkuðum áhrifum á umhverfið. Ef það yrði hins vegar kostnaðarsamt úr hófi fram vegna sértækra aðgerða hér á landi, myndi það skaða samkeppnishæfni þessarar mikilvægu útflutningsatvinnugreinar. Uppskeran yrði af þeim sökum ekki eins og væntingar stóðu til. Þess þarf að gæta að svo verði ekki og vegferðina fram undan þarf því að vanda vel.

Öll púsl þurfa að falla saman

Vélar sem brenna metanóli eru til og því er ekki óeðlilegt að spyrja einfaldlega, hvers vegna eru þær þá ekki notaðar í sjávarútvegi? Hér hefur verið reynt að benda á ýmsa þá þætti sem þarf að hyggja að áður en ráðist eru í slíka aðgerð. En þrátt fyrir áskoranir sem þarf að yfirvinna áður en til orkuskipta kemur í sjávarútvegi, er það engan veginn svo að þau séu fjarlægur draumur, sem óvíst er hvort rætist. Orkuskipti munu þurfa að eiga sér stað, en þau munu gerast í skrefum og fjölmörg púsl þurfa að falla saman.  

Höfundur

Hildur Hauksdóttir

sérfræðingur í umhverfismálum