13. desember 2021
Skútunni snúið á versta tíma
Íslenskur sjávarútvegur hefur náð markverðum árangri í að draga úr kolefnisfótspori sínu á undanförnum áratugum. Sá árangur blasir við þegar litið er á olíunotkun greinarinnar. Á undanförnum árum hefur olíunotkun greinarinnar verið um 40% minni en hún var á fyrsta áratug þessarar aldar og helmingi minni en hún var á tíunda áratug síðustu aldar. Það eru vissulega margir samverkandi þættir sem skýra þennan árangur, en einn af þeim stærri er raforkuvæðing fiskimjölsverksmiðja. Áhrif hennar blasa við á eftirfarandi mynd.
Áhrif raforkuvæðingar augljós
Betra er að horfa á olíunotkun fiskimjölsverkssmiðja án veiða til þess að átta sig betur á þróuninni, eins og á myndinni hér fyrir neðan. Á myndinni má jafnframt sjá útflutning á fiskimjöli og lýsi flokkað niður á tegundir. Þar má sjá að mikilvægasta hráefnið sem fer í vinnslu í fiskimjölsverksmiðjum hefur verið loðna, síld og kolmunni. Myndin fangar vel þau jákvæðu áhrif sem raforkuvæðing verksmiðjanna hefur haft á olíunotkun þeirra. Það er að með árunum hefur hlutfall rafmagns í orkukaupum verksmiðjanna farið sívaxandi og þar með hafa þær þurft að reiða sig í stöðugt minna mæli á olíu, með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Stefnir í óefni
Á undanförnum áratugum hefur loðna verið mikilvægasta hráefni Íslendinga í vinnslu á mjöli og lýsi, eins og blasir við á myndinni á hér á undan. Loðnan er þó nokkuð sérstök, en hvernig aflanum er ráðstafað ræðst að mestu leyti af heildarloðnukvóta ársins. Á síðustu vertíð var nánast allur aflinn unnin til manneldis, enda var kvótinn lítill eða rétt tæp 71 þúsund tonn. Fór því afar lítið í bræðslu. Á yfirstandi fiskveiðiári hafa íslensk fiskiskip heimild til þess að veiða 662 þúsund tonn af loðnu, en svo stór hefur loðnukvótinn ekki verið í tvo áratugi. Er því von á verulegu magni til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjum á næstu mánuðum, enda er það almennt svo að eftir því sem loðnukvótinn er stærri því hlutfallslega meira af honum fer í bræðslu. Það er því óhætt að segja að sú skerðing Landsvirkjunar á afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja hefði ekki getað komið á óheppilegri tíma. Áætlað er að skerðingin jafngildi að brenna þurfi á milli 20 til 30 þúsund tonnum af olíu til viðbótar.