Hlutverk fisksins í heiminum
Sjálfbær matvælaframleiðsla
Heimurinn stendur frammi fyrir þeirri áskorun í dag að brauðfæða yfir átta milljarða jarðarbúa á sama tíma og loftslagsbreytingar eiga sér stað. Gert er ráð fyrir því að jarðarbúum fjölgi í yfir tíu milljarða árið 2060, samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna 2022. Því þarf nýjar og sjálfbærari leiðir í matvælaframleiðslu til að takast á við áskorunina um aukið fæðuframboð. Lagareldi, þ.m.t. fiskeldi í sjó, getur gegnt mikilvægu hlutverki í þessu tilliti. (Skýrsla BCG, bls. 40)
Til samanburðar við aðrar framleiðsluaðferðir prótíns til manneldis, er losun gróðurhúsalofttegunda og fóðurþörf hagstæð í fiskeldi. Á Íslandi er gott aðgengi að sjálfbærri orku sem skapar kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu. (Skýrsla BCG, bls. 12)
Eftirspurn eftir fiskprótíni
Spár gera ráð fyrir að dagleg prótínneysla á mann aukist úr 81 g árið 2020 í 87 g árið 2030. Fiskprótínneysla er nú um 7% af því prótíni sem neytt er í heiminum. Dýraprótínneysla þjóða er nátengd tekjustigi þeirra, þar sem hærri tekjur leiða jafnan til hærri dýraprótínneyslu. Sama gildir um magn fiskneyslu en hlutfall fisks í dýraprótínneyslu eykst einnig eftir tekjustigi.
Framleiðsla í sjávarútvegi takmarkast við sjálfbærar veiðar á villtum fiskistofnum. Núverandi umfang heimsframleiðslu í sjávarútvegi er að mati matvæla- og landbúnaðarstofnuar Sameinuðu þjóðanna (FAO) ekki sjálfbært til lengri tíma litið og því þurfi fiskeldi að mæta aukinni eftirspurn eftir fiski.
Eldislaxinn
Lax sem alinn er í sjókví er hollur og eftirsótt fæða. Laxinn er afar prótínríkur og inniheldur allar níu lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, þ.e. amínósýrur sem líkaminn getur ekki búið til sjálfur og þarf að fá úr fæðunni. Í 100 g af eldislaxi eru um 20,5 g af prótíni sem er 41% af ráðlögðum dagsskammti. Þá inniheldur laxinn líka hollar Omega 3 fitusýrur. Nauðsynleg steinefni er líka að finna í eldislaxi eins og kalíum og seleníum, B12, B6,B2 vítamín og D vítamínum.
Hvert fer eldislaxinn?
Yfir 90% af framleiðslu á eldislaxi er flutt úr landi. Útflutningur eldislax er mestur til Bandaríkjanna en Holland og Danmörk fylgja í kjölfarið. Nánari upplýsingar um stærstu viðskiptalönd með íslenskar eldisafurðir undanfarin 5 ár má finna á Radarnum – Mælaborði sjávarútvegs.