Skýrsla Boston Consulting Group
Matvælaráðuneytið óskaði eftir því við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group að unnin yrði skýrsla um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Hér má kynna sér skýrsluna í heild.
Í skýrslunni eru núverandi staða og horfur í lagareldi skoðuð bæði á Íslandi og á heimsvísu með áherslu á að greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar. Einnig er gerður samanburður við önnur lönd t.a.m. varðandi stjórnsýslu, regluverk, umhverfisáhrif og gjaldtöku. Lagareldi flokkast í fjórar undirgreinar, sjókvíaeldi, landeldi, úthafseldi og þörungaeldi. (Skýrsla BCG, bls. 9)
Þá segir í skýrslunni meðal annars að lagareldi sé hlutfallslega sjálfbært í samanburði við aðrar framleiðsluaðferðir dýraprótíns. Það hefur lágt kolefnisspors og fóðurnýting er há borið saman við t.d. stórgriparæktun. Með réttri umgjörð og tækniþróun á lagareldi að geta mæta aukinni eftirspurn eftir prótínum úr dýraríkinu með hlutfallslega lágum áhrifum á loftslag og vistkerfi jarðar. (Skýrsla BCG, bls. 42)
Auk losunar gróðurhúsalofttegunda hefur matvælaframleiðsla einnig margvísleg áhrif á náttúruauðlindir. Hún leggur undir sig um 43% af byggilegu land og nýtir yfir 70% af ferskvatnsauðlindum heimsins. Fiskeldi notar umtalsvert minna land en önnur framleiðsla dýraprótíns s.s. lambakjöts- og nautakjötsframleiðsla. (Skýrsla BCG, bls. 43)
Eftirspurn eftir prótínum úr fiski til manneldis mun aukast á næstu árum. Framleiðsla í sjávarútvegi á heimsvísu er stöðug og því verður aukinni eftirspurn fyrst og fremst mætt með fiskeldi. Í samanburði við landbúnað er laxeldi tiltölulega sjálfbær aðferð til framleiðslu dýraprótína. Fóðurnýting er hagstæð, losun er hlutfallslega lág og lítil þörf er fyrir jarðnæði. Umhverfisáhrif laxeldis eru þó enn talsverð og mikil vinna framundan við að lágmarka þau til framtíðar. (Skýrsla BCG, bls. 43)
Í skýrslunni eru dregnar upp þrjár sviðsmyndir um vænta þróun í fiskeldi næsta áratuginn: (1) óbreytt ástand, (2) grunnsviðsmynd og (3) framsækin sviðsmynd. Líklegust er grunnsviðsmynd og fylgir henni mikil verðmætasköpun, sem nemur 6% af landsframleiðslu, störfum fjölgi um 3% og skatttekjur aukist um 3%. Gangi grunnsviðsmyndin eftir myndu árleg framleiðsluverðmæti aukast um 200 milljarða króna og verða 242 milljarðar króna. Til samanburðar voru útflutningsverðmæti þorskstofnsins 141 milljarðar króna í fyrra. Umrædd sviðsmynd Boston Consulting Group gerir ráð fyrir að störfum muni fjölda um nærri 5000 á tímabilinu og að skattar og gjöld aukist úr 8 milljörðum króna upp í 47 milljarða króna.