7. júlí 2021

Uppfærð skýrsla — skaðsemi innköllunar og uppboðs aflaheimilda er staðreynd

Að undanförnu hefur borið á skrifum um það, að gera þurfi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Og þá er innköllun veiðiheimilda og uppboð á þeim í framhaldinu nefnt til sögunnar. Skemmst er frá því að segja að uppboð á aflaheimildum hafa undantekningalítið verið hætt, þar sem þau hafa verið reynd. Varla af ástæðulausu. Íslenskir fræðimenn hafa skrifað um innköllun aflaheimilda og áhrifanna sem af því gæti leitt. Daði Már Kristófersson, prófessor og varaformaður Viðreisnar, skrifaði til dæmis ágæta skýrslu árið 2010. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að tækifæri ríkisins til þess að auka gjaldtöku á útgerðinni, án þess að það feli í sér eignaupptöku, séu mjög takmörkuð, auk þess sem aukin gjaldtaka myndi hafa mjög neikvæð áhrif á rekstur og efnahag sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrning fékk falleinkunn í skýrslunni, en fram kemur að óveruleg fyrning gæti haft mikil neikvæð áhrif enda væri með henni verið að svipta fyrirtækin lykileignum.

Skýrsla Daða Más var skrifuð árið 2010, þá voru vissulega aðrir tímar. En skyldi niðurstaða hennar eiga við í dag? Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fengu Ragnar Árnason, prófessor emeritus, til þess að uppfæra skýrslu Daða Más frá árinu 2010. Í grófum dráttur er niðurstaða Ragnars sú, að 1-3% fyrning og 20-30 ára eignarhaldstími lækki markaðsvirði aflaheimilda svo mikið þegar í upphafi, að það þurrki út bókfært eigið fé útgerðarfyrirtækja, miðað við efnahag sjávarútvegs í dag. Þar sem eignaskerðingin heldur áfram með fyrningu (innköllun) hvers árs og tekjuflæðið minnkar sömuleiðis fer svona fyrning nærri því að gera fyrirtækin gjaldþrota.

Þá telur Ragnar, að auk beinna áhrifa á sjávarútvegsfyrirtæki, megi ætla að áhrifin af fyrningu verði verulega neikvæð á efnahagslíf í landinu og hagvöxt. Upphaflega eignaskerðingin muni fela í sér verulegt högg fyrir íslenskt fjármálakerfi, sem mun krefjast umfangsmikillar aðlögunar alls hagkerfisins. Í framhaldinu telur hann að eigna- og tekjuskerðingin muni draga úr hagkvæmni sjávarútvegsfyrirtækja og atvinnugreinarinnar í heild sinni og veikja samkeppnistöðu hennar á alþjóðamörkuðum, með langvarandi neikvæðum afleiðingum fyrir fjárfestingu og hagvöxt.
Niðurstaða Ragnars nú er því sambærileg niðurstöðu Daða Más árið 2010.

Upprunalegu skýrsluna og uppfærsluna má finna á hlekkjunum hér fyrir neðan.

Skýrsla Daða Más, 2010
Uppfærsla Ragnars Árnasonar á skýrslu Daða Más, 2021