31. desember 2024

Verðmætasköpun eða verðmætasköðun

Fram kemur í nýjum stjórnarsáttmála að rjúfa eigi kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Þrátt fyrir að svona áhersla sé almennt fagnaðarefni má hafa áhyggjur af mjög almennu og opnu orðalagi þar sem engar augljósar vörður eru festar á blað til þess að markmiði verði náð. Þá er það heldur ekki alfarið á forræði ríkisins að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Atvinnulífið sjálft, framsækið fólk á öllum sviðum, hlýtur að vera best til þess fallið að leiðbeina ríkinu um þá þætti sem kunna að vera til þess fallnir að skapa meiri verðmæti í dag en í gær. Með góðu samtali ríkis og einkaaðila eru sannanlega mikil tækifæri til þess að gera Ísland enn betra og þetta samtal verður vonandi gott á skipunartíma nýrrar ríkisstjórnar.

Íslenskur sjávarútvegur stendur vel

Eitt af tölusettum markmiðum nýrrar ríkisstjórnar er að móta auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld. Það er rétt að fara ögn yfir sjávarútveginn í þessum efnum og byrja á sjálfbærri nýtingu. Þannig háttar til að nýting fiskistofna við Ísland hefur byggst á sjálfbærri nýtingu í æði langan tíma. Meginstefið er vísindaleg nálgun við veiðar, þar sem leyfilegur hámarksafli byggist á ráðum sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar um hvað óhætt sé að veiða mikið úr hverjum stofni. Alþjóðlegar stofnanir eru einnig hafðar með í ráðum. Við stjórn fiskveiða hér á landi er stuðst við það sem heitir varúðarnálgun og náttúran er látin njóta vafans. Sala á íslenskum fiski er háð því að þessi stefna sé viðhöfð því kaupendur erlendis gera þá kröfu að nýting á stofnum sé sjálfbær. Sérstök fyrirtæki sjá um að votta að þessi háttur sé hafður á.

Þá er ekki síður mikilvægt að aflamarkskerfið hefur lagt grunn að sterkum efnahagslegum og samfélagslegum þáttum sjálfbærni. Vel rekin og arðsöm fyrirtæki skila ábata langt út fyrir hinn hefðbundna sjávarútveg og greiðslur til hins opinbera eru miklar. Sjómenn eru jafnframt sú stétt sem hefur hæstar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur allra stétta á landinu og launagreiðslur í fiskvinnslu eru hærri en meðal staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í hagkerfinu. Finna má öflug sjávarútvegsfyrirtæki í öllum landshlutum þar sem starfar fjöldi fólks með örugga og vel launaða vinnu allan ársins hring. Með skynsamlegri stefnu hefur byggð því verið treyst í landinu.

Ný ríkisstjórn þarf því í raun ekki að móta nýja auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu þegar kemur að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær og með aflamarkskerfinu hefur almennt tekist vel við endurreisn fiskistofna frá því að þeir voru við það að hrynja og sumir hrundu. Fækkun báta, skipa og útgerða hefur gerst á forsendum markaðarins og er nú svo komið að íslenskur sjávarútvegur leggur hlutfallslega mest til þjóðarbúsins meðal allra fiskveiðiþjóða. Sjávarútvegur á Íslandi er ekki ríkisstyrktur, ólíkt því sem víða gerist. Sjávarútvegurinn var, er, og mun verða ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs. Hann mun raunar verða enn sterkari ef honum verður leyft að þróast á eðlilegum viðskiptalegum forsendum.  

Óskilgreint réttlæti er dýru verði keypt

Ríkisstjórnin hyggst einnig móta réttlát auðlindagjöld. Hugsanlega hefði verið betra fyrir ríkisstjórnina að nota eitthvað annað orð en „réttlát“ í þessu samhengi. Hver sem tekur sér það orð í munn getur lagt þann skilning í það sem viðkomandi kýs. Hvað er réttlátt auðlindagjald í sjávarútvegi? Við því er ekki til hlutlægt gilt svar. Er þriðjungur af afkomu í fiskveiðum réttlát skattlagning eða vill ríkið meira og þá með öðrum og neikvæðari áhrifum? Er réttlátt að fórna blómlegri fjárfestingu í aukinni verðmætasköpun til að fá til skamms tíma hærra auðlindagjald? Er réttlátt að fjármagn í gegnum hlutabréfamarkað leiti síður í sjávarútveg vegna ónógrar arðsemi í samanburði við aðra fjárfestingakosti? Er réttlátt að verulega hægi á frekari samdrætti í olíunotkun vegna aukinnar skattlagningar? Er réttlátt að skipakostur verði eldri og tryggi þannig síður gæði og arðsemi veiða til lengri tíma vegna aukinnar skattlagningar? Væri það réttlát niðurstaða að færri nýsköpunarfyrirtæki kæmust á legg vegna minni fjárfestinga í bættri nýtingu aflans? Aukin skattheimta þýðir með öðrum orðum að minna fjármagn verður eftir til þess að skapa meiri verðmæti í framtíð en í fortíð. Minni fjárfesting mun þýða lakari samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld. Og minni fjárfesting mun þýða minni útflutningsverðmæti og þar með minni hagvöxt en ella og lakari lífskjör.

Efnahagsleg sóun við strandveiðar

Á undanförnum árum hefur verið umtalsverður samdráttur í ráðlögðum þorskafla. Fiskveiðiárið 2019/20 var ráðlagður þorskafli 272 þúsund tonn. Á yfirstandandi fiskveiðiári er hann 213 þúsund tonn. Þar munar 22%. Útgerðir aflamarksskipa og fiskvinnslur hafa þurft að mæta þessum niðurskurði. Á sama tíma og fyrirtæki sem rembast við að halda úti vinnu fyrir fólk allt árið og tryggja þar með byggðafestu og lífsafkomu fjölmargra fjölskyldna, hafa áhugamenn um strandveiðar ekki þurft að sæta slíkum takmörkunum.

Strandveiðar hafa þrefaldast frá því kerfinu var komið á. Það er einstaklega óskynsamlegt og ósanngjarnt að strandveiðar fái sífellt stærri sneið af kökunni, ekki síst í því ljósi að veiðarnar eru að sögn nýs fjármálaráðherra „efnahagsleg sóun“ og skal þeirri skoðun ekki mótmælt hér. Nú stendur til að stórfjölga dögum til strandveiða og þar með bæta í þá efnahagslegu sóun sem fyrir er. Ef litið er til reynslu liðins sumars þegar um 12.000 tonna strandveiði nægði um 750 bátum aðeins í 33 daga, þá má ætla að afli gæti aukist um 50% tonn ef sömu bátar fá 48 daga. Og það má telja varlega áætlað þar sem líkur eru til þess að þeim bátum muni fjölga sem vilja skerf af höfðinglegri þjóðargjöfinni. Og hvað þýðir þetta fyrir ríkissjóð og efnahagslíf? Gróflega má ætla að greitt veiðigjald af þorski lækki um tugi milljóna og útflutningsverðmæti verða einhverjum milljörðum minni. Það er mikilvægt að þessi verðmiði sé öllum ljós, enda hefur ekki mátt skynja umræðuna öðruvísi en að einhverjir telji að sjávarútvegur skili ekki nægum tekjum í ríkissjóð fyrir nýtingu á auðlindinni. Aukning strandveiða mun sannanlega hvorki svara því ákalli né stuðla að aukinni verðmætasköpun, sem mun vera markmið nýrrar ríkisstjórnar.

Strandveiðar eru í eðli sínu kapphlaup þeirra sem veiða um takmarkað magn af fiski. Útgerðarkostnaður eykst, umgengni um auðlindina verður verri og slysum fjölgar, svo dæmi sé tekið. Reynsla af slíkum kerfum, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, er ekki góð. Landaður afli verður alltaf meiri en ákveðið hefur verið þar sem engin stjórn er á fjölda báta og takmörkuð stjórn er á afla hvers þeirra. Af þessum sökum er rétt að gjalda mikinn varhug við strandveiðum og allri aukningu kvóta í þágu slíkra veiða.  

Óstöðugleiki í grunnatvinnuvegi

Það er rétt að hugleiða við og við hvað sjávarútvegur þarf til að hann geti verið sú stoð almannahagsmuna sem honum ber að vera. Hann þarf nefnilega fyrst og síðast fyrirsjáanleika og svigrúm til fjárfestinga. Eins og staðan blasir við í augnablikinu er verið að fórna þessu, enn einn ganginn. Og af þessum sökum verður raunar nokkuð umhugsunarverð ein fyrsta grein stjórnarsáttmálans um að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar sé að ná stöðugleika í efnahagslífi. Vonandi mun það ganga eftir. Sá stöðugleiki mun þá væntanlega byggjast að einhverju leyti á óstöðugleika í sjávarútvegi, grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Það er verðmætasköðun, en ekki verðmætasköpun.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir
framkvæmdastjóri SFS