15. apríl 2024

Íslenskur sjávarútvegur í fararbroddi

Ný umhverfisskýrsla SFS 2024, Íslenskur sjávarútvegur í fararbroddi, var kynnt á fjölsóttum fundi á Grand Hótel 15. apríl þar sem boðið var upp á fróðleg erindi um umhverfis- og orkumál í sjávarútvegi.

Hér má nálgast skýrsluna á rafrænu formi.

Upptaka af fundinum

Fróðleg erindi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði fundinn. Hann fjallaði stuttlega um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) og svo beina ábyrgð Íslands þegar kemur að losun. Ráðherra nefndi einnig gott samstarf við sjávarútveg þegar kemur að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum en sagði verkefnið vissulega krefjandi.

Það þarf að finna leiðir til að ná bæði markmiðum um minni losun en sömuleiðis sjá til þess að við séum samkeppnishæf en ég hef fulla trú á því að í íslenskum sjávarútvegi séum við með besta fólkið til að finna slíkar lausnir.” (Sjá glærur)

Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS, fór yfir helstu atriði Umhverfisskýrslu SFS 2024. Hildur greindi meðal annars frá niðurstöður könnunar um orkuskipti á hafi sem framkvæmd var nýverið en þar kom fram að yfir 90% stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja hafa íhugað alvarlega að fjárfesta að einhverju leyti í orkuskiptum í sínum flota, stefna að því við næstu endurnýjun eða hafa hafið verkefni sem snúa að því að nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti á hafi. Könnunin leiddi einnig í ljós að um 13% svarenda eru með verkefni í gangi sem tengjast orkuskiptum í fiskiskipum.

Það stendur ekki á íslenskum sjávarútvegi þegar kemur að orkuskiptum og árangri í loftslagsmálum til framtíðar. Boltinn er að miklu leyti hjá stjórnvöldum – tryggja þarf framboð grænnar orku, fjárhagslegt svigrúm í formi hóflegrar gjaldtöku, stöðugt starfsumhverfi og sterka innviði.“ (Sjá glærur)

Því næst tók Arnstein Eknes frá norska ráðgjafafyrirtækinu DNV til máls og fjallaði um orkumál í sjávarútvegi. Arnstein skipti erindi sínu í fimm hluta; sá fyrsti snéri að orku, næstu þrír að því hvað eigendur fiskiskipa geta gert og að lokum fjallaði hann um samstarf og hvað þarf til að leysa úr læðingi möguleikana sem blasa við.

Arnstein komst svo að orði við lok framsögu sinnar: „It‘s a call from action from climate. The planet needs us to do something. The planet will survive but we may struggle to find out how to do it if the weather is going in different directions behind us. To work on energy is the key to decarbonize. I think we will see governments loosing power and other big political and societal shifts if we are not able to manage this in a good manner, because this can make companies and contries bankrupt. We need as an industry to build insight and share – transparancy required. We also need collaborations to unlock the potential.“ (Sjá glærur)

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, fór yfir áskoranir í orku- og umhverfismálum í starfseminni í gegnum árin ásamt því að gera grein fyrir stöðunni við framleiðslu fiskimjöls í dag þar sem öfug orkuskipti blasa við.

Þá vakti hann sérstaka athygli á þörfinni á grænni orku og áhrifum íþyngjandi regluverks á fyrirtækin. „Umhverfismál eru fyrirtækjum ekki íþyngjandi, þetta er rekstrarmál sem fyrirtækin eru best til þess fallin að takast á við sjálf með sínum öfluga mannauði. Það má ekki ofgera hlutunum og íþyngja með regluverki og skattkerfi sem dregur athygli og getu fyrirtækjanna frá því sem skiptir máli. Við getum sett allar heimsins kröfur á fyrirtækin og skrifað allar þær skýrslur sem við viljum. En græna orkan er ekki til staðar, ef græna orkan er ekkit il staðar þá breyta orðin í skýrslunni litlu. Það má ekki láta óraunhæf markmið og samninga blinda okkur sýn. Við Íslendingar eru einfaldlega að gera mun betur í þessum málum en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við og þar viljum við vera og þar ætlum við að vera og við höldum áfram á þeirri vegferð.“ (Sjá glærur)

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, lokaði fundinum meðal annars á þessum orðum. „Við verðum að passa okkur á því að detta ekki í skyndilausnir, núna reynir á að við tökum réttar ákvarðanir. Við teljum að það sé hægt. Við höfum átt í góðu samtali við stjórnvöld um það hvað við teljum fýsilegt að gera og hvað er raunhæft að gera – þannig að okkur takist fyrir 2030 að ná 55% samdrætti í kolefnislosun.

Til þess þurfi aðallega þrennt; hvata til grænna fjárfestinga, eflingu hafnartenginga og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. (Sjá glærur)