20. júní 2024

Skeytingarleysi ráðherra gagnvart mannréttindum

Mér er minnisstætt í umræðu um stjórnarskrá og mögulegar breytingar á henni fyrir nokkrum árum þegar Sigurður Líndal lagaprófessor, einn fremsti sérfræðingur okkar Íslendinga í lögum, sagði ekki ljóst hverju þyrfti í raun að breyta. Lagði hann til að Íslendingar byrjuðu fremur á því að fara eftir stjórnarskránni áður en þeir færu að breyta henni.

Þessi skynsama athugasemd Sigurðar Líndal hefur skotið upp í huga mér þegar litið er til ákvarðana tveggja ráðherra um að tálma með ólögmætum hætti lögmæta atvinnustarfsemi tengda hvalveiðum.

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Svandís Svavarsdóttir hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti Hvals þegar hún tók fordæma- og fyrirvaralausa ákvörðun um að fresta upphafi hvalveiðivertíðar degi áður en þær áttu að hefjast fyrir ári síðan. Ráðherrann skeytti engu um hina mikilvægu stjórnarskrá. Á ríkislögmanni hvílir nú það verkefni að taka afstöðu til umfangs bótaskyldu ríkisins vegna þessarar ákvörðunar.

Nýr matvælaráðherra hefur nú fetað í spor fyrri matvælaráðherra og tálmað lögmætan atvinnurekstur Hvals. Líkt og ráðherra lét sjálfur hafa eftir sér bar honum lögum samkvæmt að gefa út leyfi til veiðanna. Löggjafinn hafði með öðrum orðum lagt á hann þá skýru athafnaskyldu að gefa út leyfi til veiða. Og það gerði og ráðherrann, en aðeins til málamynda. Leyfið var gefið út með þannig skilyrðum að það nýtist ekki leyfishafanum. Öllum má vera ljóst að þannig komast ráðherrar ekki hjá því að virða stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna. 

Um hin stjórnarskrárvörðu réttindi

Heimildir manna til að stunda áfram þau störf sem þeir hafa tekið upp og byggja fjárhagslega afkomu á njóta bæði verndar atvinnufrelsisákvæðis 75. gr. stjórnarskrár og eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár. Oft er um að ræða störf sem menn hafa fengið sérstakt leyfi stjórnvalda til að stunda eða hafa sérstaka opinbera löggildingu til. Um þetta fjallaði Björg Thorarensen, hæstaréttardómari og fyrrum lagaprófessor, meðal annars í ritinu Stjórnskipunarréttur – Mannréttindi.

Í þessu samhengi verður að hafa í huga að Hvalur uppfyllti öll skilyrði laga til þeirra veiða sem leyfisbeiðnin varðaði, fyrirtækið hafði verið með leyfi um árabil, það hafði staðist gerðar kröfur og ekkert hafði komið fram um að breyting yrði á leyfisveitingum. Fyrirtækið hafði af þessum sökum sérstaklega réttmætar væntingar til þess að fá útgefið leyfi í tæka tíð fyrir komandi veiðitímabil. Þá höfðu engar breytingar verið gerðar á lögum sem réttlættu aðra eða breytta málsmeðferð og öll gögn lágu fyrir svo unnt var að gefa út leyfið án sérstakra tafa. Að þessu meðal annars lýtur hið skýra ólögmæti ákvörðunar matvælaráðherra nú.

Um málshraða

Ekki verður hjá því komist að líta einnig til þess að tafir á afgreiðslu leyfis urðu þess valdandi að Hvalur gat ekki nýtt það leyfi sem félagið hafði væntingar um að yrði gefið út. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í þessu felst áskilnaður um að aldrei megi vera um óréttlættan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Eins og til dæmis kom fram í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2352/1998 þurfa stjórnvöld meðal annars að hafa í huga hvert sé eðli þeirra mála sem þau fjalla um og mikilvægi ákvarðana þeirra fyrir hlutaðeigandi. Þannig ber almennt að hraða meðferð mála sem varða mjög verulega fjárhagslega eða persónulega hagsmuni aðila eins og til dæmis mála sem lúta að starfsréttindum. Í nefndu áliti UA sagði jafnframt orðrétt: „Þau fyrirmæli laga og ákvarðanir um framkvæmd útflutnings á kindakjöti sem hér er fjallað um fela í sér inngrip í atvinnufrelsi manna og geta því haft veruleg áhrif á fjárhag og atvinnurekstur viðkomandi einstaklinga og félaga. Þegar svo hagar til er brýnna en ella að þau stjórnvöld sem fara með framkvæmd laganna hagi verkum sínum þannig að allar upplýsingar og ákvarðanir sem beinast að þessum aðilum og þýðingu hafa við skipulag atvinnureksturs þeirra liggi fyrir eins fljótt og kostur er.“

Engin réttaróvissa var í því máli sem hér er fjallað um. Ráðherra bar, eins og hann sjálfur hefur staðhæft, að gefa út leyfi til veiða á langreyðum. Þegar af þeim sökum er ekkert sem réttlætt getur málsmeðferð sem telur tæplega fimm mánuði.

Í þessu samhengi má hafa í huga að ríkið getur bakað sér bótaábyrgð þegar óréttmætar tafir verða á afgreiðslu mála, s.s. þegar tafir valda því að málsaðili verður sannanlega fyrir fjártjóni sem tafirnar hafa valdið. Í ritinu Stjórnsýsluréttur – Málsmeðferð ritaði Páll Hreinsson meðal annars: „Þegar óréttlættar tafir verða hjá ríkisstarfmanni við að afgreiða mál sem honum hefur löglega verið falið að leysa úr er um brot á starfsskyldum hans að ræða sem varðað geta áminningu eða brottvikningu ef sakir eru miklar eða um ítrekað brot er að ræða. Þá getur slíkt brot, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, einnig varðað refsingu skv. 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 91/1940 en samkvæmt ákvæðinu skal opinber starfsmaður sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“

Hér er að sönnu um viðurhlutamikil viðurlög að ræða þegar í hlut eiga starfsmenn ríkisins, en þau sýna þó glögglega mikilvægi þess að málshraðareglur séu virtar. Þær eru ekki hafðar til skrauts. Engu minni kröfur verða gerðar til ráðherra.

Alvarleg staða stjórnarskrárvarinna réttinda

Í ljósi þess hvernig hvalveiðimálinu hefur undið fram er til alvarlegrar umhugsunar staða stjórnarskrárvarinna réttinda borgaranna. Komist ráðherra einu sinni upp með að virða þessi réttindi að vettugi, án nokkurra afleiðinga, mun næsti ráðherra fylgja í kjölfarið. Og það hefur nýr matvælaráðherra nú gert. En hvers vegna ætti þetta skeytingarleysi að hætta þarna? Hvaða réttindi fólks eða fyrirtækja verða fótum troðin næst? Eignarrétturinn? Jafnrétti? Frjálsar skoðanir? Frelsið?

Óháð því hvort fólk sé hlynnt eða andvígt veiðum á langreyðum, þá hljóta allir að skilja mikilvægi þess að lög og stjórnarskrárvarin réttindi séu virt og að eftir þeim sé farið.