4. október 2023
Sjávarútvegsdagurinn 2023
Sjávarútvegsdagur Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins var haldinn í tíunda sinn í dag, 4. október. Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan.
Yfirskrift fundarins var Nýsköpun í sjávarútvegi og til máls tóku Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis. Þá fór Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte, yfir lykiltölur varðandi afkomu í sjávarútvegi og fiskeldi á liðnu ári. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, stýrði svo fundi og flutti lokaorðin.
Gott ár er liðið í sjávarútvegi en framundan eru áskoranir
Jónas Gestur greindi frá því að tekjur í sjávarútvegi 2022 hefðu aukist um 23,8% frá árinu áður sem má að stórum hluta rekja til loðnuveiðanna. Hagnaður í sjávarútvegi var um 67 milljarðar króna sem er á svipuðum nótum og 2021. Heildarskuldir í sjávarútvegi hækkuðu um 25 milljarða króna. Arðgreiðslur hækkuðu um fjóra milljarða en stór hluti arðgreiðslna kemur frá fyrirtækjum sem eru skráð á markað.
Bein opinber gjöld voru 27 milljarðar króna og hækkuðu um rúmlega fimm milljarða. Þar af voru veiðigjöld 7,9 milljarðar. Á yfirstandandi ári stefnir í að veiðigjöldin verði 10-11 milljarðar. Fjárfestingar hafa aukist og voru 31 milljarður í fyrra.
Þó að tekjur hafi aukist verulega í fiskeldi var 2,3 milljarða króna tap af rekstri í greininni. Starfsmönnum í greininni hefur fjölgað um 49% frá 2018. Efnahagsreikningur fiskeldisfyrirtækja er sterkur sem er nauðsynlegt í þeirri miklu uppbyggingu sem greinin er í. Bein opinber gjöld félaganna voru rúmlega 1,4 milljarðar króna.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, benti á að það væri ekki víst að sami góði gangur héldi áfram árið 2023. Sala á loðnu hafi gengið treglega það sem af er árinu og hækkun á verði sjávarafurða á fyrra ári virðist vera að ganga til baka. Sagan sýni að verð á sjávarafurðum standi í beinum tengslum við efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum okkar. Nú þegar harðnar í ári hjá þeim er verð farið að lækka. Við þetta má svo bæta hækkunum á aðföngum. Liðið ár hafi því falið í sér áskoranir.
Þá sagði Heiðrún einnig að grunnurinn að nýsköpun í sjávarútvegi væri langtímasýn sem hefur orðið til með tryggum aflaheimildum. Þannig verði til svigrúm til fjárfestinga í greininni. Varhugavert yrði því að hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Nýsköpun í sjávarútvegi er grjóthart efnahagsmál
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði nýsköpun í sjávarútvegi vera „grjóthart efnahagsmál.” Sjávarútvegurinn gæti orðið sá sjálfbærasti í heimi með nýsköpunina að vopni. Fram kom einnig í máli ráðherrans að Ísland væri í 20. sæti yfir nýsköpun í heiminum en í 87. sæti þegar kemur að útskrfit úr raungreinum (STEM). Leggja þyrfti meiri áherslu á menntakerfið og rannsóknarstarf. Hátt í þriðjungur karla væri aðeins með grunnskólapróf sem er með því versta innan OECD. Menntun væri forsenda nýsköpunar og mikilvægt væri að Íslendingar sofnuðu ekki á verðinum.
Efnahagslegt ævintýri á Vestfjörðum
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, rakti söguna á bak við fyrirtækið Kerecis og hvernig gekk að koma nýjum lausnum á markað í Bandaríkjunum. Hlutur Kerecis í verðmætasköpun af þorskveiðum Íslendinga hefði verið um 10% í fyrra og stefndi í að verða allt að 17% á þessu ári. Guðmundur lagði áherslu á að ef halda ætti „efnahagsævintýri Vestfjarða” áfram, með Kerecis, fiskeldi og hefðbundnum sjávarútvegi, yrði að treysta innviði á svæðinu, sérstaklega samgöngur og raforku.