22. febrúar 2024
Samið við SVG og VM
Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG) og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) hafa undirritað kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Líkt og í nýlega samþykktum samningum SFS við Félag skipstjórnarmanna og Sjómannasamband Íslands hefur verið unnið að bættum kjörum og réttindum, auk hnitmiðaðra aðgerða til að auka traust við skipti á verðmætum úr sjó. Greiðslur í lífeyrissjóð og kauptrygging hækka í samræmi við samninga á almennum vinnumarkaði, auk þess sem áhersla er lögð á aukið gagnsæi og upplýsingagjöf vegna fiskverðsmála.
Félagsmenn SVG og VM felldu kjarasamning við SFS í febrúar 2023, en frá þeim tíma hafa viðræður staðið yfir um gerð nýs samnings. Breytingar frá þeim samningi sem var felldur eru helstar þær, að tímakaup hefur verið hækkað, verulega hefur verið aukið við svigrúm til uppsagnar samningsins, skerpt hefur verið á réttarstöðu í tengslum við slysa- og veikindarétt þeirra sem ráðnir eru með tímabundinni ráðningu og horfið hefur verið frá skipan gerðardóms við úrlausn mögulegra breytinga á skiptaprósentu ef ný tækni eða nýjar veiði- og verkunaraðferðir eru fyrirsjáanlegar.
Í samningi VM hefur jafnframt verið samið um desemberuppbót, sem ekki hefur tíðkast í hlutaskiptakerfi, frá og með desember 2024. Í samningi SVG er einnig samið um desemberuppbót, en hún verður fyrst greidd árið 2028. Sjómenn innan SVG fá að auki greidda eingreiðslu 1. apríl nk. að fjárhæð 400.000 kr., miðað við 160 lögskráningardaga á sl. ári.
„Við höfum nú gert kjarasamninga við þau stéttarfélög sem gæta hagsmuna um 90% sjómanna á skipum fyrirtækja innan SFS. Við höfum notað tímann vel frá því síðustu samningar voru felldir og hlustað á hlutaðeigandi stéttarfélög og félagsmenn þeirra. Við teljum að við höfum komið vel til móts við helstu óánægjuraddir og lagt í töluvert meiri kostnað. Ég er ekki í vafa um að það verða skiptar skoðanir beggja vegna borðsins, en ég held að þessi samningur sé jákvætt skref á miklum óvissutímum. Með auknum fyrirsjáanleika í kjaramálum er unnt að tryggja betur sameiginlega hagsmuni sjómanna og fyrirtækjanna,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Enn er ósamið við Sjómannafélag Íslands. Engar viðræður hafa staðið yfir milli þess félags og SFS, enda hefur ekki verið eftir þeim óskað.