9. nóvember 2024
Norska leiðin í auðlindagjaldtöku
„Við erum að tala um sanngjörn, réttlát, auðlindagjöld á sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku. Þetta eru leiðir sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa farið og samfélagsleg sátt er um.“ Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2. Hún ítrekaði þetta svo í leiðtogakappræðum á RÚV á föstudagskvöldið.
Okkur, sem fylgjumst vel með sjávarútvegi og fiskeldi, finnst þetta nokkur tíðindi og fögnum því að fá skýra stefnu frá flokkum. Fyrirsjáanleiki er mikilvægur í þessum greinum. En hvernig er þetta gert í draumalandinu Noregi og hvernig er samanburðurinn við íslenska kerfið?
Staðan í Noregi
Í Noregi er ekkert auðlindagjald í sjávarútvegi. Það sem kannski meira er um vert, Norðmenn flytja nánast allan fisk úr landi óunninn, mest til láglaunalanda eins og Kína og Póllands. Þeir skapa því fá störf í landi, ólíkt því sem tíðkast hér á landi, og laun við veiðar og vinnslu eru mun lægri en á Íslandi. Verðmætasköpun – og þar með framlag til hagvaxtar og lífskjara – er því til muna minni í Noregi en á Íslandi.
Í sjókvíaeldi í Noregi var nýlega lagt á auðlindagjald, sem er 25% skattur af hagnaði. Ekkert gjald er þó greitt af tæplega fyrsta milljarðinum sem félög hagnast um. Það gerir það að verkum að áætlað er að um 70% fiskeldisfyrirtækja í Noregi greiði engan auðlindaskatt. Að auki miðast þessi skattur eingöngu við þann virðisauka sem verður þegar fiskurinn er í sjónum. Stór hluti starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna er því undanþeginn skattheimtunni, eins og fóðurframleiðsla, seiðaeldi, vinnsla, sala og flutningar. Vegna þessara víðtæku undanþága þá hefur verið áætlað að skattheimtan sé nær 10% af hagnaði stærri fyrirtækjanna. Þá eru dæmi um stór fyrirtæki sem hafa ekki þurft að greiða neinn skatt og áunnið sér yfirfæranlegt rekstrartap vegna takmarkaðs hagnaðar á framleiðslu í sjó. Þetta er þá væntanlega norska leiðin sem Samfylkingin vill fara.
Berum þetta nú saman við Ísland
Fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi greiða auðlindagjald sem er 33% af reiknuðum hagnaði við veiðar. Á meðan íslenska ríkið tekur þriðjung af hagnaði í auðlindagjald af sjávarútvegi, þá tekur norska ríkið ekkert.
Þegar kemur að sjókvíaeldinu þá greiða íslensku fyrirtækin auðlindagjald, sem kallað er fiskeldisgjald. Gjaldið er tekið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi og er þannig hlutfall af áætluðum tekjum án nokkurs tillits til raunkostnaðar. Þetta gjald hefur tuttugufaldast undanfarin fjögur ár og á eftir að hækka meira. Íslensku fyrirtækin greiða einnig umhverfisgjald, sem er ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni sem hafa það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif. Svo greiða íslensk fyrirtæki hafnargjöld, sem eru mun víðtækari og hærri en þau sem greiða þarf í Noregi.
Þegar aðeins þetta er lagt saman greiddu íslensku fyrirtækin yfir 1,2 milljarða króna í fyrra og þessi upphæð nær líklega tveimur milljörðum króna í ár. Við þetta bætist svo að sjálfsögðu kolefnisgjald, tryggingargjald, tekjuskattur og sitthvað fleira.
Stóri munurinn á íslensku og norsku leiðinni í auðlindagjaldtöku af fiskeldi er þó sá að íslensku fyrirtækin þurfa að greiða þessa skatta óháð afkomu. Í Noregi er aðeins greitt af hagnaði. Í raun er staðan sú að íslensk fiskeldisfyrirtæki greiddu átta sinnum hærri fjárhæð í auðlindagjald á árinu 2023 en þau hefðu greitt samkvæmt norsku leiðinni!
Það þarf líka að hafa í huga að fiskeldi á Íslandi er ung grein. Eftir erfið ár erum við farin að sjá til sólar. Ef greinin fær að vaxa og dafna mun hún skila miklum útflutningstekjum komandi ár og vissulega ríkulegum skatttekjum. En þá þarf að gæta hófs og sanngirni í skattheimtunni. Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í rekstri og svigrúm til víðtækra fjárfestinga til þess að leggja grunn að þessari verðmætasköpun.
Sátt um lægri auðlindagjöld?
Svo má aldrei gleyma því að Ísland og Noregur selja vörur sínar á sama alþjóðlega markaðnum. Það er erfið barátta þar sem hallar á íslensk fyrirtæki. Ekki síst núna á tímum minni afla, hærri skatta og meiri blýhúðunar. Séríslenskum sköttum verður ekki velt út í vöruverð. Áhrif þeirra eru fyrst og síðast skert samkeppnishæfni.
Miðað við þá stöðu sem hér hefur verið reifuð var áhugavert fyrir okkur að heyra að norska leiðin hafi skapað „samfélagslega sátt“. Og mögulega klórum við okkur aðeins í kollinum yfir því að norska leiðin, sem skilar færri milljónum til ríkisins en núverandi gjaldtaka hér á landi, eigi að loka gati á fjárlögum.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024