18. janúar 2023

Yfir 450 milljarðar frá fiskeldi í framtíð – Setjum markið hátt

Á nýliðnu ári fóru jarðarbúar í fyrsta sinn í sögunni yfir 8 milljarða. Horfur eru á áframhaldandi fjölgun á næstu áratugum, en samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna munu þeir verða 9,7 milljarðar árið 2050. Stöðug fólksfjölgun ýtir undir sívaxandi alþjóðlega eftirspurn eftir próteinríkri fæðu sem ómögulegt er að mæta með hefðbundnum veiðum á villtum fiski og landbúnaði. Fiskeldi hefur hins vegar burði til þess að vaxa enn frekar og verður vafalaust einn mikilvægasti hlekkurinn í að tryggja fæðu fyrir komandi kynslóðir.

Norðmenn hyggja á þreföldun

Mörg lönd hafa fyrir löngu séð þau tækifæri sem felast í fiskeldi, þar með talið Norðmenn sem eru ein fremsta fiskeldisþjóð heims. Þar hefur fiskeldi vaxið hröðum skrefum á undanförnum áratugum og er fyrir löngu farið að skila margfalt meiri verðmætum í þjóðarbú Norðmanna en veiðar á villtum fiski. Á nýliðnu ári fór útflutningsverðmæti á eldislaxi frá Noregi í fyrsta sinn umfram 100 milljarða norskra króna, sem jafngildir um 1.500 milljörðum íslenskra króna. Það jafngildir ríflega fjórföldum útflutningsverðmætum íslenskra sjávarafurða á árinu 2022 og er 50% umfram verðmæti alls vöruútflutnings frá Íslandi.

Norðmenn ætla ekki að láta staðar numið hér. Um mitt ár 2021 kynnti þáverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, Odd Emil Ingebrigtsen, nýja stefnu norskra stjórnvalda um uppbyggingu fiskeldis þar í landi undir nafninu Hafsjór tækifæra.* Í stefnunni voru sett fram metnaðarfull markmið um að auka framleiðslu á laxi og regnbogasilungi í samanlagt 5 milljón tonn fyrir árið 2050, sem jafngildir ríflega þreföldun á framleiðslu. Það skal engan undra að Norðmenn skuli setja markið hátt í þessum efnum, enda hefur fiskeldi þar í landi margsannað efnahagslegt og samfélagslegt gildi sitt.

Uppbygging fiskeldis er langhlaup

Íslendingar standa einnig frammi fyrir miklum tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar í gegnum vöxt í fiskeldi. Þessi uppbygging er raunar þegar hafin, því á undanförum árum hefur framleiðsla og verðmætasköpun í íslensku fiskeldi margfaldast, sér í lagi frá laxeldi. Þar hefur framleiðslan farið úr tæpum 1.100 tonnum árið 2011 í 45.000 tonn árið 2022. Ljóst er að uppbyggingin hefur krafist tíma, fjármagns og þrautseigju. Hin ánægjulegu tíðindi eru þó ekki síst þau, að aukið vægi útflutnings fiskeldisafurða á liðnum árum hefur aukið stöðugleika í íslensku efnahagslífi og hagkerfið hvílir nú á fleiri stoðum útflutnings en áður. 

Hálfnað er verk þá hafið er. Til að ná fram hagkvæmni í takt við það sem best gerist erlendis þarf að byggja fiskeldi enn frekar upp á komandi áratugum. Nauðsynlegt er að setja skýr markmið um umfang fiskeldis og móta stefnu um hvernig á að ná þeim markmiðum á ábyrgan hátt. Eins og staðan er í dag liggja engar áætlanir fyrir um hversu umfangsmiklu eldi stjórnvöld stefna að. Þess er þó að vænta að breyting verði þar á, því í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er boðað að á kjörtímabilinu verði mótuð heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verði lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.

Á grundvelli þessarar fyrirætlunar stjórnvalda, hefur matvælaráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur fengið ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group til þess að vinna úttekt á stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Í úttektinni á að leggja mat á áskoranir og tækifæri í eldinu, auk þess sem fjalla á um mótvægisaðgerðir vegna umhverfisþátta. Áhugavert verður að sjá niðurstöðu þessarar vinnu, en vona má að vísindaleg nálgun, vænt efnahagsleg áhrif og skynsemi verði þar látin ráða för.

Hafsvæði í kringum Ísland er kjörlendi frekari verðmætasköpunar

Aðkoma stjórnvalda er hins vegar ekki nauðsynleg til að áætla með raunhæfum hætti þau verðmæti sem skynsamleg uppbygging fiskeldis getur leitt af sér. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fengu nýlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að vinna ítarlega greiningu á meðal annars tækifærum til uppbyggingar fiskeldis við Íslandsstrendur. Við greiningarvinnuna lagði McKinsey mat á fræðilegt hámark laxeldis í sjó við Íslandsstrendur með því að draga saman þá landfræðilegu eiginleika sem einkenna góð sjókvíasvæði við Noregsstrendur og leita samsvarandi svæða við Íslandsstrendur. Greiningin byggði á yfir 40 umhverfislegum eiginleikum og notast var við gögn frá yfir 1.200 sjókvíastæðum í Noregi.

Klemens Hjartar, einn af meðeigendum McKinsey, kynnti helstu niðurstöður á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í maíbyrjun 2022. Í erindi hans kom fram að fræðilega hagnýtanleg landssvæði gætu staðið undir heildarframleiðslugetu fyrir 4,4 milljónir tonna af eldisfisk. Hér verður að leggja sérstaka áherslu á hugtakið fræðilega hagnýtanleg landssvæði, enda fer fjarri að þau svæði séu í reynd öll hagnýtanleg.

Með því að skilgreina ákveðin hliðarskilyrði taldi McKinsey unnt að nálgast það magn sjókvíaeldis sem raunhæft gæti verið að ráðast í til lengri tíma litið. Við það mat var byrjað á því að fjarlægja friðlýst náttúrusvæði og staðsetningar sem henta ekki vegna skipaumferðar, nálægðar við hafnarsvæði og nálægðar við árósa þar sem laxagengd er til staðar. Þá voru jafnframt fjarlægð svæði sem falla undir svokölluð bannsvæði, þ.e. svæði sem eru lokuð fyrir eldi frjórra laxa í sjó á grundvelli verndar villtra nytjastofna. Að teknu tilliti til þessara hliðarskilyrða var það niðurstaða McKinsey að eftir stæðu svæði sem gætu staðið undir 1,1 milljón tonna heildarframleiðslugetu. 

Þrátt fyrir að tilgreind svæði kunni að teljast hagfelld út frá fyrrgreindum viðmiðum, þá má ætla að heildarframleiðsla upp á 1,1 milljón tonna sé óraunhæft markmið ef horft er til skemmri eða meðallangs tíma. Þar spilar margt inn í, s.s. fjárfestingargeta fyrirtækja, burðir stjórnsýslu til að sinna uppbyggingu, framkvæmdaáhætta tengd hraðri uppbyggingu og mögulegur hraði þróunar þjónustugreina fiskeldis. Þá er jafnframt ljóst að taka verður tillit til mögulegra áhrifa á hrygningar- og veiðisvæði helstu nytjastofna, enda eru mikil verðmæti í húfi í uppbyggingu þeirra fiskistofna sem nýttir eru í hefðbundnum sjávarútvegi. Það má sannarlega hugsa stórt þegar markmið eru sett til framtíðar, en það þarf einnig að sýna skynsemi og þekkja hinar ýmsu hindranir.

Til frekari vísbendingar um það hversu stórt hlutfall væri raunhæft að nýta má aftur horfa til Noregs. Samkvæmt greiningu McKinsey eru Norðmenn að nýta um 9% af fræðilega mögulegum framleiðslustæðum sínum. Ef sama hlutfall væri notað hér á landi gæfu 9% af 4,4 milljónum tonna alls um 400 þúsund tonn í heildarframleiðslu í sjókvíaeldi, miðað við óbreytta tækni og afköst sjókvía. Af þessu er ljóst að hafsvæðið í kringum Ísland felur í sér mikil tækifæri til að byggja enn frekar undir góð lífskjör komandi kynslóða. Verkefnið hlýtur því að felast í því að varða leiðina í átt að þessu marki þannig að uppbygging eigi sér stað í sátt við umhverfi og samfélag. 

Áræðni í uppbyggingu landeldis

Á umliðnum árum hefur umræða um vöxt í fiskeldi verið nánast einskorðuð við sjókvíaeldi. Það á sér líklega þær skýringar að enn er hlutfallslega lítið framleitt af laxi í landeldi, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu. Áætlað er að hlutfall framleiðslu úr landeldi nemi í dag minna en 0,5% af heildarframleiðslu á eldislaxi. 

Flest bendir til þess að landeldi verði fyrirferðarmeira á næstu áratugum og gera áætlanir fyrirtækja um heim allan ráð fyrir mikilli aukningu á því sviði. Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun þar sem hvert íslenska landeldisfyrirtækið á fætur öðru hefur boðað stórtæk áform um uppbyggingu landeldis og þá fyrst og fremst á laxi. Þau áform eru mislangt á veg komin, en gangi öll verkefni eftir sem eru á teikniborðinu gæti ársframleiðsla á eldisfiski numið hátt í 160 þúsund tonnum og skapað mikil verðmæti. Þessi uppbygging mun hins vegar taka tíma því framkvæmdir eru í flestum tilvikum áfangaskiptar. Því má þó halda til haga að Ísland er þegar leiðandi í framleiðslu á bleikju á heimsvísu og landeldi á meira framandi fisktegundum hefur einnig sótt í sig veðrið síðustu ár, s.s. eldi á senegalflúru og gullinrafa.

Tækifæri til uppbyggingar landeldis grundvallast m.a. á aðgangi að tilteknum landgæðum sem munu styðja við eldið. Það er enda engum tilviljunum háð að uppbygging landeldis er að meginstefnu fyrirhuguð á suðvesturhorni landsins, þ.e. í Ölfusi og á Reykjanesi, auk uppbyggingar í Vestmannaeyjum. Á þessum svæðum er að finna gott aðgengi að jarðsjó og á Reykjanesi er jarðhiti sem gefur af sér heitt affallsvatn, bæði úr Reykjanesvirkjun og úr orkuveri í Svartsengi, sem nýta má við eldið. Aðra jákvæða þætti sem mætti nefna eru aðgangur að ferskvatni, umhverfisvæn orka og nálægð við höfnina í Þorlákshöfn og Keflavíkurflugvöll. Á þessum svæðum er einnig einstök þekking á vinnslu sjávarfangs sem nýtist vel við þessa uppbyggingu. Að mörgu leyti má því segja að aðstæður til uppbyggingar landeldis séu hvergi í heiminum ákjósanlegri en hér á landi. Mikilvægt er að stjórnvöld séu meðvituð um þetta og tryggi að öll skilyrði til þessarar uppbyggingar og rekstrar séu eins og best verður á kosið.

Af umræðu má greina að einhverjir séu þeirrar skoðunar að landeldi geti komið í stað sjókvíaeldis. Það má telja bæði óraunhæft og óskynsamlegt. Flestir sérfræðingar eru sammála um að framleiðsla úr landeldi muni ekki koma í stað framleiðslu úr sjókvíaeldi, heldur verði henni til viðbótar. Því má jafnframt halda til haga að þær aðstæður sem styðja við uppbyggingu landeldis á suðvesturhorni landsins eru ekki fyrir hendi á Austfjörðum og Vestfjörðum þar sem sjókvíaeldi er stundað í dag. 

Veruleg samfélagsleg áhrif

Að fyrrgreindu virtu er ekki óraunhæft að horfa til þess að á næstu 15-20 árum megi byggja upp stönduga og ábyrga atvinnugrein í fiskeldi, með um 550 þúsund tonna framleiðslu á landi og í sjó. Gangi slíkar áætlanir eftir gæti það þýtt útflutningsverðmæti að andvirði í kringum 450 milljarða kr. Í því samhengi má hafa í huga að á liðnu ári nam samanlagt útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða tæplega 400 milljörðum kr. Þessi mögulega aukning á laxeldi ein og sér þýðir því ríflega tvöföldun á þeim verðmætum.

Þá verður ekki framhjá því litið að frekari vöxtur fiskeldis mun skapa fjölda nýrra starfa, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslu Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis (ágúst 2017) er miðað við að 130 ársverk beinna starfa þurfi við framleiðslu á 10 þúsund tonnum af laxi. Þessi viðmiðun rímar vel við rauntölur ársins 2022 um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi. Þær sýna að rúmlega 135 störf eru fyrir hver 10 þúsund framleidd tonn í dag. Til viðbótar áætlar Byggðastofnun að til verði um 100 ársverk afleiddra starfa við sama framleiðslumagn. Lauslega má því áætla að framleiðsla um 550 þúsund tonna muni hafa í för með sér yfir 7 þúsund bein störf og yfir 5 þúsund afleidd störf. Hér er um margs konar og vel launuð störf að ræða sem krefjast sérfræðiþekkingar á ýmsum sviðum. Má þar nefna fiskeldisfræðinga, dýralækna, rafvirkja, vélfræðinga, líffræðinga, fiskvinnslufólk, bílstjóra o.fl.

Metnaðarfull uppbygging fiskeldis mun ekki eingöngu skapa aukin verðmæti í gegnum magnaukningu, heldur má samhliða auka arðsemi og virðisauka með stærðarhagkvæmni og afleiddri þjónustu. Í dag þurfa íslenskir aðilar að nálgast ýmsa þjónustu erlendis frá, s.s. leigu á brunnbátum og ýmiss konar sérhæft viðhald og eftirlit, sem unnt væri að þjónusta frá Íslandi með stækkun greinarinnar í heild. Þá eru einnig miklir möguleikar fólgnir í innlendri fóðurframleiðslu fyrir fiskeldi og aukinni vinnslu eldisafurða hérlendis. Í dag er langstærstur hluti afurðanna fluttur óunninn úr landi. Til að unnt sé að byggja upp frekari fóðurframleiðslu og vinnslustarfsemi á laxaafurðum hérlendis þarf hins vegar framleitt magn að réttlæta fjárfestingu í stórum og tæknilega burðugum vinnslum.

Það er ljóst að til mikils er að vinna með metnaðarfullri og ábyrgri uppbyggingu sjó- og landeldis hér á landi. Eins og ofangreindar tölur bera með sér geta eldisafurðir orðið hornsteinn í fiskútflutningi frá Íslandi, ásamt sjávarútvegi. Allt sem eykur fjölbreytni útflutnings og verðmæta­sköpunar er til þess fallið að draga úr sveiflum í innlendum efnahag og byggja betur undir lífskjör okkar til framtíðar. 

Hversu umfangsmikið fiskeldi á Íslandi kemur til með að verða mun að endingu ráðast af stefnumörkun stjórnvalda. Með hliðsjón af þeim miklu efnahagslegu- og samfélagslegu hagsmunum sem eru undir þá hljóta stjórnvöld að greiða leið ábyrgrar uppbyggingar í sem mestri sátt við umhverfi og samfélag. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að settar verði fram metnaðarfullar áætlanir um umfang fiskeldis til lengri tíma. Fyrrgreint sýnir að tækifærin eru svo sannarlega til staðar ef vilji stendur til. 

*https://www.regjeringen.no/no/dokumenter/havbruksstrategien-et-hav-av-muligheter/id2864482/?ch=1