23. apríl 2025

Kvótalausi ráðherrann og ólögmæt úthlutun til strandveiða

Á miðnætti leið frestur til þess að sækja um heimild til strandveiða frá og með 1. maí. Telja má ljóst að strandveiðar muni aukast verulega, með tilheyrandi efnahagslegu tjóni og sóun. Það sem gerir stöðuna enn alvarlegri er sú staðreynd að atvinnuvegaráðherra hefur ekki hlutaðeigandi tonn til umráða. Umfang úthlutunar ráðherra verður því í andstöðu við lög og mun leiða til skaðabótaábyrgðar íslenska ríkisins. Rétt er að víkja stuttlega að þessu, þannig að öllum sé ljóst í hvað stefnir.

SFS hafa löngum slegið varnagla við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að tryggja 48 daga til strandveiða og gáfu meðal annars út greiningu í febrúar sem ber heitið „Nokkrar staðreyndir um strandveiðar.“[1] Sú greining sýndi til að mynda fram á með ótvíræðum hætti að efnahagsleg sóun felst í strandveiðum, líkt og núverandi fjármálaráðherra hefur margsinnis áður bent á. Því er það áhyggjuefni að ríkisstjórnin áformi stórauknar strandveiðar með tilheyrandi tekjutapi fyrir fiskvinnslur og fiskverkafólk, sjómenn í heilsárs­störfum, ríki og sveitarfélög. Hin efnahagslegu áhrif verða ekki síst mikil sökum þess virðisauka sem fer af landi brott í formi aukins útflutnings á óunnum afla. Það gengur þvert á yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um að auka þurfi verðmætasköpun í atvinnulífinu. Þá blasir við samkvæmt greiningunni að upphafleg markmið stjórnvalda með strandveiðum um nýliðun og aukna byggðafestu hafa ekki náðst.

Umtalsverður samdráttur hefur verið í ráðlögðum þorskafla á undanförnum árum. Fiskveiðiárið 2019/20 var ráðlagður þorskafli 272 þúsund tonn en árið 2023/24 var hann 211 þúsund tonn. Það felur í sér rúmlega 22% samdrátt á ráðlögðum þorskafla. Á árinu 2024 var heimilaður strandveiðiafli tæplega tólf þúsund tonn. Strandveiðimenn hafa því ekki þurft að sæta neinum skerðingum, þrátt fyrir samdrátt í ráðlögðum þorskafla sem aflahlutdeildarhafar hafa þurft að sæta á umliðnum árum. Staðreyndin er sú að þorskafli til strandveiða hefur aukist um 19% frá fiskveiðiárinu 2019/20.

Í fyrra voru 756 bátar á strandveiðum og voru veiðar stöðvaðar um miðjan júlí. Hver bátur náði þar með að jafnaði 23 veiðidögum yfir tímabilið, sem jafngildir um 70% nýtingu á þeim dögum sem þeir höfðu til ráðstöfunar yfir sumarið, og landaði hver bátur að jafnaði um 680 kílóum af óslægðum þorski í hverri veiðiferð, samanber myndina hér fyrir neðan. Því má ljóst vera að auka þarf verulega við þann afla sem ráðstafa skal til strandveiða nú í sumar.

Nýverið var gerð breyting á reglugerð um strandveiðar í þeim tilgangi að reyna að draga úr fjölda báta sem myndu stunda strandveiðar í sumar. Breytingar voru gerðar á umsóknartíma og að auki voru reglur um eignarhald á strandveiðibátum hertar. Samtökin settu sig ekki upp á móti þeim breytingum sem gerðar voru á reglugerðinni en voru og eru enn þeirrar skoðunar að þær dugi engan veginn til. Í því skyni að koma á raunverulegum girðingum þyrfti að koma til lagabreytinga.

Í framangreindri greiningu samtakanna voru metin áhrif af loforði ríkisstjórnarinnar um 48 daga til strandveiða. Þar voru metin áhrif með tilliti til fjölda báta, meðalfjölda daga á bát og meðalvigt afla í veiðiferð, samanber töfluna hér fyrir neðan.

Miðað við 48 strandveiðidaga og óbreyttan fjölda báta, nýtingu á dögum og meðallöndun á þorski á milli ára, þá þarf 17,3 þúsund tonna þorskafla. Þetta má sjá á sviðsmynd A í töflunni hér fyrir ofan. Sú staða getur þó hæglega breyst með fjölgun báta, aukningu í meðallöndun og nýtingu á dögum eins og fram kemur í töflunni.

Í minnisblaði matvælaráðuneytisins (nú atvinnuvegaráðuneytið) til forsætisráðuneytisins, dagsett 16. desember 2024, sem útbúið var í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður núverandi ríkisstjórnar, voru áhrifin af loforði ríkisstjórnarinnar um 48 daga til strandveiða metin. Þar var að finna næmnigreiningu þar sem kom meðal annars fram að 750 bátar gætu borið að landi tæplega 28 þúsund tonn, miðað við 770 kílóa strandveiðiafla á dag, og 650 bátar gætu borið að landi um 24 þúsund tonn, miðað við sömu forsendur.

Nú liggur fyrir að fjöldi strandveiðibáta fyrir komandi strandveiðitímabil er alls 684 samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu. Í því felst að miðað við næmnigreiningu ráðuneytisins má ætla að strandveiðiafli ársins verði um 25 þúsund tonn, miðað við 770 kílóa strandveiðiafla á dag. Miðað við 670 kílóa strandveiðiafla á dag má ætla að um 21 þúsund tonn komi að landi. Verði nýtingin á dögum um 70% má gera ráð fyrir að aflinn verði á bilinu 15 til 18 þúsund tonn. Ljóst er að hér verður um gríðarlega aukningu að ræða.

Atvinnuvegaráðherra hefur verið tíðrætt um loforð ríkisstjórnarinnar um að tryggja 48 daga til strandveiða og tilgreint að fyrirsjáanleg aukning á afla til strandveiða verði tekin innan 5,3% aflahlutdeildarinnar sem ríkið hefur forræði yfir. Að öðru leyti hefur ráðherra ekki skýrt nánar opinberlega hversu mikil aukning til strandveiða er áætluð fyrir komandi strandveiðitímabil og heldur ekki hvaðan sækja skuli heimildir fyrir þeim þorskafla sem vænta má að muni berast að landi. Þrátt fyrir að vera ítrekað spurð.

Á þessu er sá hængur að samkvæmt sama minnisblaði og vísað er til hér að framan mátti ríkisstjórninni vera ljós ómöguleg staða gagnvart ráðstöfun afla innan 5,3% hlutdeildarinnar strax þann 16. desember síðastliðinn. Í minnisblaðinu segir meðal annars:

„Þannig hefur verið skuld í þorski sem þýðir að meiri þorski hefur verið ráðstafað í potta en inneign hefur verið fyrir. Eina undantekningin er árið 2020/2021 þegar var afgangur upp á 472 tonn í þorski. Engu að síður ef framangreint tímabil í þorski er tekið saman þá er uppsöfnuð skuld alls 19.224 tonn á tímabilinu 2019/2020-2024/2025. Þetta þýðir að í raun hefur verið ráðstafað umfram inneign og því hefur verið farið fram úr veiðiráðgjöf með aukinni ráðstöfun þ.m.t. strandveiða. Á síðasta fiskveiðiári sem er lokið var ráðstöfun í þorski því 4.674 tonn umfram ráðgjöf vegna ráðstöfunar í potta.

Eins og segir hér að framan þá hefur undanfarin ár verið ráðstafað umfram það sem tilboðsmarkaðurinn hefur verið að skila, þannig að farið hefur verið umfram ráðgjöf einkum í þorski og því hefur staða tilboðsmarkaðar verið neikvæð. Skili tilboðsmarkaður­inn magni umfram skuldina er mögulegt að ráðstafa slíku til að jafna stöðu milli flokka innan 5,3% en ólíklegt er þó talið að niðurstaða tilboðsmarkaðar verði umfram væntingar og líklegt að áfram verið uppsöfnuð skuld, einkum í þorski. Við ráðstöfun innan 5,3% pottsins þarf því að huga að þeirri skuld sem er í þorski umfram það sem inneign hefur verið fyrir í kerfinu.“

Ráðuneytið bætir síðan við í minnisblaði sínu, í tengslum við yfirstandandi fiskveiðiár, að „líklegt [sé] að staðan í þorski bætist eitthvað þótt allt bendi til þess að enn þá verði um ráðstöfun umfram ráðgjöf að ræða.“

Í framangreindri tilvitnun í minnisblaðið eru sérfræðingar ráðuneytisins að lýsa því yfir að á umliðnum árum hafi þorskheimildum ítrekað verið ráðstafað umfram ráðgjöf og raunar allri þeirri aukningu verið ráðstafað innan 5,3% kerfisins. Í því felst að aflahlutdeildarhafar hafa borið skarðan hlut frá borði. Sú ráðstöfun fer beinlínis í bága við lög um stjórn fiskveiða og hefur Umboðsmaður Alþingis nú tekið til meðferðar þessa stjórnsýsluframkvæmd. Telja má auðsýnt að hin ólögmæta framkvæmd hafi bakað íslenska ríkinu bótaskyldu.

Við blasir sú staðreynd að atvinnuvegaráðherra hefur ekkert aflamagn til ráðstöfunar og lítið sem ekkert svigrúm innan 5,3% kerfisins til að bregðast við þeirri óhjákvæmilegu aukningu í aflamagni sem strandveiðar munu þurfa í sumar. Því verður að telja það ábyrgðarhluta af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa lofað 48 dögum í strandveiðar, ekki síst þegar fyrir liggur að staðan hafi verið ríkisstjórninni ljós strax í stjórnarmyndunarviðræðunum í desember. Nú getur atvinnuvegaráðherra ekki lengur skirrst við og talað sig í kringum hlutina. Það er löngu tímabært að ráðherra upplýsi hvaðan þessi aukning eigi að koma. Varla verður það raunin að ráðherra brjóti lög og baki íslenska ríkinu bótaskyldu af ásetningi.

[1] Greiningin er aðgengileg á https://sfs-web.cdn.prismic.io/sfs-web/Z6C45JbqstJ9-KVs_SFS_StadreyndirStrandveida_Vefur.pdf