19. apríl 2025
Fínt fyrir Norðmenn – afleitt fyrir Íslendinga
Er allt betra í Noregi en á Íslandi? Svarið er ekki einhlítt, en ljóst er að frændur okkar Norðmenn eru seigir á ýmsum sviðum. Á einu sviði stöndum við Íslendingar þó skör ofar og það er í þeirri list að skapa mikil verðmæti úr sjávarfangi. Ekki er þó að efa að Norðmenn gætu staðið sig betur þarna, en þeir hafa kosið að fara aðra leið í sjávarútvegi en við hér á Íslandi, það er að vera hráefnisframleiðandi.
Hluti af byggðastefnu
Það má eiginlega segja að Norðmenn líti á sjávarútveginn sem hluta af byggðastefnu. Þar í landi greiðir sjávarútvegur ekki sérstakt gjald fyrir auðlindanýtingu, veiðigjald, líkt og hinn íslenski. Auk þess nýtur sá norski ýmissa ívilnana sem sá íslenski nýtur ekki. Sá norski fær til að mynda ríkulega styrki úr sjóðum til þess að fjárfesta í skipum og búnaði, kolefnisgjald á fiskveiðar er að stórum hluta niðurgreitt af norska ríkinu og tryggingagjald er almennt lægra á svæðum í Noregi þar sem sjávarútvegsfyrirtækin eru staðsett en á öðrum svæðum þar í landi.
Þrátt fyrir að íslenskur sjávarútvegur búi ekki við svona meðgjöf þá hefur hann verið burðarás landsbyggðarinnar, enda er sjávarútvegur mun umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki er að finna í hverjum einasta landshluta. Raunar er engin atvinnugrein með jafnari dreifingu atvinnutekna um landið en sjávarútvegur.
Það sem gengur þar – gengur ekki hér
Norðmenn geta leyft sér þetta; olía og gas eru þeirra aðalauðlindir en sjávarútvegur þar í landi vegur ekki nema 2% af vöruútflutningi. Þorskurinn er meira og minna fluttur óunninn úr landi, oft til ríkisstyrktra fiskvinnslna í láglaunalöndum í Austur-Evrópu eða Kína. Þaðan er hann til dæmis fluttur á markaði í Evrópu, hvar hann keppir við íslenskan þorsk. Sökum þessa verða Norðmenn af verulegum verðmætum, sem stafa frá fullvinnslu, og fjárfesting og nýsköpun tengd fiskvinnslu verða þar af leiðandi einnig mjög takmörkuð. Við Íslendingar höfum kosið að fara aðra leið og að flestra mati betri. Jafnvel Norðmenn eru þeirrar skoðunar sjálfir.
Galdurinn liggur í samþættingu
Hér á Íslandi eru veiðar og vinnsla á fiski oft á sömu hendi. Það þýðir að skip í eigu sjávarútvegsfyrirtækis landar afla í eigin vinnslu í landi. Hinu endanlega söluverði frá kaupanda úti í heimi er því skipt á milli þeirra sem skapa verðmætin með bæði veiðum og fullvinnslu. Með þessu kerfi stöndum við Íslendingar vörð um verulegan virðisauka sem myndast við fullvinnslu á afla í íslenskri fiskvinnslu. Þetta tryggir líka ágæt rekstrarskilyrði fiskvinnslu, þannig að fyrirtækin geta skapað örugg og góð störf og fjárfest í nýjustu tækni. Slík fjárfesting er nauðsynleg til þess að þau geti staðið sig í alþjóðlegri samkeppni, aukið skilvirkni, hámarkað nýtingu og enn bætt gæði og ferskleika afurða.
Hvar eru gögnin?
Það getur verið gott að grípa til talna til að styðja mál sitt. Ef borin eru saman tvö nokkuð sambærileg fyrirtæki, annað á Íslandi og hitt í Noregi, kemur í ljós að það íslenska stendur því norska framar á flestum sviðum. Útflutningsverðmæti á hvert kíló af þorski árið 2023 var 617 krónur hjá því íslenska en 533 krónur hjá því norska. Næstum 100 krónum lægra. Þar réð fullvinnsla hér á landi miklu. Skattspor þess íslenska á árinu 2023 var tæpir 5,0 milljarðar króna en rúmir 2,5 milljarðar hjá því norska. Þar munar hátt í 100%.
Það má fjölmargt læra af Norðmönnum en eitt af því er ekki hvernig skal hámarka verðmætasköpun úr takmarkaðri auðlind eins og fiskurinn í sjónum er. Norska leiðin kann að henta Norðmönnum en er afleit fyrir Ísland. Hér er sjávarútvegur nefnilega ein af grunnstoðum þjóðarbúsins, ólíkt því sem hann er í Noregi. Þetta mætti sitjandi ríkisstjórn hugleiða áður en hún leggur til við Alþingi að miða skattheimtu í sjávarútvegi við hinn norska veruleika.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
framkvæmdastjóri SFS
Greining birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2025