1. júlí 2024

Enn er aukið við óskynsamlegar og óarðbærar strandveiðar

Nú hefur sá árlegi viðburður átt sér stað að aukið hefur verið við strandveiðiheimildir. Aukningin nemur tvö þúsund tonnum í þorski að þessu sinni og er því heildarráðstöfun í þorski til strandveiða þetta árið alls tólf þúsund tonn. Það er því ljóst að sneið strandveiðimanna af kökunni stækkar enn eitt árið því aldrei fyrr hafa strandveiðar verið hærra hlutfall af heildarafla þorsks en á yfirstandandi fiskveiðiári.

Samtökin hafa löngum á það bent að í samdrætti umliðinna ára í þorski hefur hlutfall strandveiða farið sífellt hækkandi. Í því samhengi má benda á að ráðlagður þorskafli hefur dregist saman um 23% frá fiskveiðiárinu 2019/2020, en þá var ráðlagður afli rúm 272 þúsund tonn. Nú er úthlutaður þorskafli rúm 209 þúsund tonn og því ljóst að tólf þúsund tonna hlutdeild til strandveiða nemur 5,7%. Í fyrra var hlutfallið tæplega 4,8% og árið 2022 var hlutfallið 4,5% af heildarafla. Við upphaf strandveiða fiskveiðiárið 2008/09 var hlutfallið 1,8% af ráðlögðum þorskafla og því er ljóst að hlutfall strandveiða í þorskheimildum hefur margfaldast á undanförnum árum. Samhliða hefur verðmætatap þjóðarbúsins aukist þar sem ljóst er að afkoma af strandveiðum er óviðunandi og skilar vart jákvæðri afkomu samkvæmt gögnum Hagstofu í gegnum tíðina.

Ljóst er að verðmætasköpun af hefðbundinni samþættingu veiða og vinnslu, sem er hryggjarstykkið í árangri og orðspori íslenskrar fiskveiðistjórnunar, er umtalsvert meiri en af strandveiðum þar sem afla er að miklu leyti landað á markað og fluttur óunninn úr landi. Því blasir við að mikilvæg verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi takmarkast að verulegu leyti vegna síaukins hlutar sem fellur til strandveiða.

Rétt er að víkja að upphafsorðum lokaskýrslu Auðlindarinnar okkar þar sem segir að „íslenskur fiskur er þekktur fyrir gæði og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru alþjóðlega samkeppnishæf. Veiðum er stýrt þannig að fiskur er veiddur á þeim árstíma og svæðum þar sem gæði hans eru mest og markaðsaðstæður hagstæðastar.“ Þessi orð sér Matís sérstaka ástæðu til að vitna til í umsögn sinni um frumvarpsdrög fyrrum matvælaráðherra til nýrra heildarlaga um sjávarútveg, sem sett voru í samráð undir lok síðasta árs. Matís taldi nefnilega að sumt í frumvarpsdrögum ráðherra ynni beinlínis gegn þessum upphafsorðum lokaskýrslu Auðlindarinnar okkar.

Matís rifjar upp í umsögn sinni að upphaf fiskveiðiárs, miðað við 1. september, feli í sér innbyggða hvata til að stýra sókn í fiskistofna á þá árstíma sem aflagæði væru af náttúrulegum ástæðum best. Í tilviki helstu botnfiskstegunda, sem hrygna á tímabilinu mars til maí, er ljóst að strandveiðitímabilið nær yfir þann tíma þar sem aflinn er hvað sístur að gæðum af náttúrulegum ástæðum. Því skýtur það skökku við að setja síaukið hlutfall af okkar verðmætustu fisktegund í strandveiðar með tilheyrandi orðsporsáhættu á hátt borgandi erlendum mörkuðum. Þessa óumdeildu staðreynd, sem samtökin hafa ítrekað haldið á lofti við litla hrifningu strandveiðimanna, verður að hafa í huga þegar heildarmyndin er skoðuð.

Þrátt fyrir þessa staðreynd er látið undan græðgi strandveiðimanna sem kunna sér vart hóf í þeim ólympísku veiðum sem strandveiðar vissulega eru. Verulegur umframafli þetta tímabilið við heimilan dagskammt ber til að mynda vott um slíkt. Að þessu sinni er haft eftir matvælaráðherra að aukningin á heimild til strandveiða sé til þess fallin að „rétta af þann halla sem er afleiðing þess fyrirkomulags sem hefur verið á strandveiðum“ og ráðherra bætir síðan við að „þar hafa sum byggðarlög borið skarðan hlut frá borði.“ Rétt er að taka fram að hér er matvælaráðherra að vísa til gjörða sinna eigin flokksfélaga í Vinstri grænum sem höfðu forystu um að afnema svæðaskiptingu við stjórn strandveiða þannig að ákveðinn lágmarksafli kæmi í hlut hvers landshluta. Sú breyting átti sér stað fyrst 2018, til bráðabirgða, og síðan árið 2019 sem varanleg breyting. Samtökin vöruðu sterklega við breytingunni á sínum tíma og hafa varnaðarorð samtakanna raungerst.

Aukinn afli á svæði A (Snæfellsnes, Breiðafjörður og Vestfirðir) á kostnað annarra svæða leiðir í sífellu til aukins þrýstings um aflaaukningu með tilheyrandi áhættu á lausatökum við stjórn fiskveiða. Enda er staðan sú, miðað við aflastöðu þann 28. júní síðastliðinn, að ríflega 53% af heildarafla strandveiða sem af er tímabilinu hefur komið að landi á svæði A, eða ríflega 5.100 tonn af ríflega 9.600 tonna heildarafla. Því hafa 355 strandveiðibátar áorkað á svæði A, en til samanburðar má nefna að á árinu 2017 voru 228 strandveiðibátar á svæði A og lönduðu þeir samtals 3.692 tonnum það árið. Augljóst er að hér er ekki rétt skipt og miður að sífellt er látið undan auknum þrýstingi strandveiðimanna um auknar heimildir.

Um þorskinn og aðrar tegundir gildir nýtingarstefna og aflaregla sem settar eru samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. Þær eru afar mikilvægar, bæði út frá sjónarmiðum fiskveiðistjórnunar með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi og vegna samskipta við erlenda kaupendur sjávarafurða og vottunaraðila á því sviði. Allar stjórnunarráðstafanir sem eru til þess fallnar að auka líkur á afla umfram ákvörðun eða valda óvissu fela því í sér afturför. Það er því mikilvægt að ráðherra spyrni við fótum og auki ekki enn frekar við strandveiðiheimildir en orðið er.

Ekki má missa sjónar á markmiðum fiskveiðistjórnunarkerfisins og þeim ábata sem það hefur fært þjóðinni með hagkvæmum og arðbærum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Augljóst er að hagkvæmara væri, og hagstæðara út frá sjónarmiðum byggðafestu, að nýta aflaheimildir sem mestar í atvinnuveiðar sem stundaðar eru á ársgrundvelli í stað þess að auka í sífellu við strandveiðar.