27. júní 2023
Ákvörðun ráðherra í bága við lög
Nýtt lögfræðilegt álit LEX lögmannsstofu leiðir í ljós með rökstuddum hætti að sú ákvörðun matvælaráðherra að banna tímabundið veiðar á langreyðum hafi farið í bága við lög og ekki verið reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli.
Hinn 21. júní sl. leituðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) eftir lögfræðilegu áliti frá LEX lögmannsstofu á lögmæti ákvörðunar matvælaráðherra þess efnis að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum. Niðurstaðan er skýr: „Í minnisblaði þessu hefur með rökstuddum hætti verið komist að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun ráðherra að banna tímabundið veiðar á langreyðum við Ísland árið 2023 hafi farið í bága við lög og ekki verið reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli.“
Álitið í heild má lesa hér.
Helstu ályktanir og niðurstöður eru eftirfarandi:
- Afar hæpið verður að teljast að ákvæði 4. gr. laga nr. 26/1949 um hvalveiðar færi ráðherra heimild til að setja reglugerð sem stöðvar í reynd veiðar á langreyðum fyrirvaralaust eða kemur beinlínis í veg fyrir að veiðirétthafar geti nýtt réttindi sín. Ákvörðun ráðherra var því ekki reist á viðhlítandi lagaheimild sem stenst kröfur 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 72. gr. stjórnarskrár.
- Fyrirmæli ráðherra, í formi reglugerðar, um tímabundið hvalveiðibann, sem útilokar nær alfarið starfsemi leyfishafa á árinu 2023, án fyrirvara eða aðlögunartíma, stenst vart þær kröfur sem leiða af meginreglunni um stjórnskipulegt meðalhóf.
- Sú aðferð ráðherra að setja reglugerð um bannið í stað þess að fylgja málsmeðferð stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tæplega í samræmi við svonefnda stjórnarfarsreglu en hún felur í sér að stjórnvaldi er bannað að misbeita valdi við val á leiðum til úrlausnar á máli.
- Með því að óska ekki eftir sjónarmiðum Hvals hf., m.a. um álit þeirra sérfræðinga sem kallaðir voru fyrir fagráð skv. 5. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, gætti ráðið ekki að andmælarétti þeim, sem mælt er fyrir um í 13. gr. stjórnsýslulaga, né rannsóknarreglu 10. gr. laganna. Er þetta annmarki á málsmeðferð fagráðs en fyrir liggur að ráðherra reisti reglugerðarsetningu sína um tímabundið bann við veiðum á langreyði á niðurstöðu fagráðs. Af framangreindu leiðir sjálfstætt að reglugerðin var ekki reist á nægilega traustum grundvelli.
- Það að kollvarpa stjórnsýsluframkvæmd í einu vetfangi, svo sem ráðherra gerði með banninu, með afar skömmum fyrirvara og án tilkynningar fyrirfram þar sem aðilanum, sem ákvörðunin beindist að, var gefið færi á að bregðast við og gæta hagsmuna sinna, fer í bága við viðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í stjórnsýslurétti í réttarframkvæmd, svo sem að framan er rakið.