8. júní 2023

Sjávarútvegur leiðandi í loftslagsmálum

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa nú gefið út loftslagsvegvísi í félagi við níu aðrar atvinngreinar á Íslandi en vegvísirinn kveður á um fjölmargar tillögur til úrbóta þegar kemur að auknum samdrætti í losun gróðuhúsalofttegunda. Loftslagsvegvísirinn var afhentur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í Hörpu á miðvikudag en í kjölfarið fóru fram líflegar umræður á meðal gesta um árangur atvinnugreinanna og verkefnin framundan.

Hér má nálgast loftslagvegvísa sjávarútvegs og fiskeldis.

Þá fékk SFS norska ráðgjafafyrirtækið DNV til að greina hvernig markmiðum í samdrætti olíunotkunar verði náð hjá fiskiskipum á Íslandi fyrir árið 2030. Greininguna má lesa hér.

Minni olíunotkun og rafvæðing

Vel hefur tekist til við að draga úr allri olíunotkun í sjávarútvegi á undanförnum árum. Ef horft er til viðmiðunarárs Parísarsamkomulagsins svokallaða þá hefur olíunotkun í íslenskum sjávarútvegi dregist saman um rúm 40% á tímabilinu 1990-2021. Á meðan hefur olíunotkun í heild vaxið á Íslandi.

Til þess að áfram megi draga úr olíunotkun þarf að tryggja svigrúm til fjárfestinga í nýjum skipum svo endurnýja megi flota sem kominn er á aldur með bætta orkunýtingu að leiðarljósi. Þá þarf líka að treysta innviðina um land allt svo landtengingar við rafmagn í höfnum landsins virki og nýtist í stað olíu við löndun. Styrkja þarf stoðir hafrannsókna svo vakta megi með öflugum hætti helstu nytjastofnana. Þá er einna mikilvægast að standa vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið sem hefur leitt til framþróunar í sjávarútvegi og á grundvelli þess kerfis hefur tekist að stækka fiskistofna sem hefur mikil áhrif á eldsneytisnotkun.

Fiskimjölsverksmiðjur hér á landi eru svo nær allar rafvæddar. Til að viðhalda þeim árangri þurfa stjórnvöld að tryggja að raforka sé til staðar en árið 2022 var til dæmis ekki unnt að tryggja næga raforku svo fiskimjölsverksmiðjurnar gætu sagt alfarið skilið við olíuna.

Fiskeldi er ný og vaxandi atvinnugrein hér á landi og með réttum hvötum má flýta árangri í loftslagsmálum. Tryggja þarf aukið svigrúm til fjárfestinga í orkuskiptum, rafvæðingu smærri vinnubáta, setja rafhlöðukerfi í þjónustubáta og landtengja stærri báta og fóðurpramma. Undirstaða þess eru styrkari innviðir og raforka.

Hægt að draga vagninn í mark

Það dylst engum sem á horfir að sjávarútvegurinn hefur dregið vagninn þegar kemur að samdrætti í kolefnislosun og mun halda því áfram, fái hann svigrúm til þess. Frekari gjaldheimta, hvort sem er í formi hækkunar veiðigjalds eða kolefnisgjalds, dregur úr því svigrúmi og minnkar möguleikann á því að sjávarútvegurinn dragi vagninn í mark þegar kemur að háleitum lofstlagsmarkmiðum stjórnvalda fyrir næstu árin.

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins er lifandi skjal og verður uppfært eftir því sem fram líða stundir og ástæða er til. Vegvísinn má lesa í heild hér.

Mynd tekin við afhendingu loftslagsvegvísis atvinnulífsins í Hörpu.
Guðlaugur Þór Þórðarson ,umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt leiðtogum atvinnugreinanna: Gylfa Gíslasyni, Katrínu Georgsdóttur, Kristrúnu Tinnu Gunnarsdóttur, Steinunni Dögg Steinsen, Álfheiði Ágústsdóttur, Ólafi Marteinssyni, Jens Garðari Helgasyni, Kristínu Lindu Árnadóttur, Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur, Birgi Guðmundssyni og Agli Jóhannssyni.