Vott­un fisk­veiða: Hvað er vott­að?

Málefnið og grunnurinn

Krafan um vottun á sér 20 ára sögu og snýst um að sýnt sé fram á að vottaðar afurðir séu ekki unnar úr afla sem fenginn er með ofveiði. Vottunin á því fyrst og fremst að snúast um vandaða fiskveiðistjórnun.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN-FAO) samþykkti alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um starfsemi á þessu sviði árið 2005, sem voru síðan auknar og uppfærðar árið 2009. Reglur þessar fjalla um ýmsa þætti sem tengjast vottunarstarfsemi, svo sem staðlasetningu, faggildingu og margt fleira. Kjarninn í reglum FAO er sá, að vottunin skal snúast um staðfestingu á því að fiskveiðum sé vel stjórnað á grundvelli sjálfbærrar nýtingar viðkomandi fiskistofna. Flestir þeirra sem bjóða upp á vottun á þessu sviði segjast fara eftir reglum FAO.

Leiðbeiningarreglur FAO um vottun byggja á Siðareglum FAO í fiskimálum frá árinu 1995 og þá alveg sérstaklega á varúðarleið við stjórn fiskveiða sem þar er sett fram og skilgreind. Varúðarleiðin er sýn alþjóðasamfélagsins á það hvað telst vera ábyrg og vönduð fiskveiðistjórnun. Veiðum þarf að vera stjórnað samkvæmt varúðarleið til þess að þær megi votta eftir alþjóðlegum reglum.

Kjarninn í varúðarleiðinni er að um viðkomandi fiskistofn gildi nýtingarstefna stjórnvalda með skýr markmið um ábyrga nýtingu, en í því felst að veiðihlutfall (leyfilegur hámarksafli sem hlutfall af stofnstærð) skuli vera hóflegt og hrygningarstofn nægilega stór til að tryggja getu stofnsins til að endurnýja sig. Jafnframt skulu sett varúðarmörk fyrir bæði hámarks veiðihlutfall og lágmarks stofnstærð og ákveða skal fyrirfram til hvaða ráðstafana verði gripið ef og þegar mælingar sýna að mörkin nálgast. Er það jafnan með þeim hætti að við tiltekna (litla) stofnstærð skal veiðihlutfallið lækkað til að tryggja að stofninn stækki aftur og sé því ekki stefnt í átt að hruni með veiðunum. Í okkar heimshluta er þessum kröfum jafnan mætt með setningu svokallaðra aflareglna; einfaldar viðmiðunar- eða ráðgjafarreglur, án formlegra varúðarsjónarmiða, duga ekki til.

Vönduð vottun er verðmæti

Meginnálgunin að vottun á þessu sviði, sem á öðrum sviðum, er sú, að þeir einir fá vottun sem uppfylla viðurkenndar kröfur. Eru þá viðurkenndar kröfur Sameinuðu þjóðanna teknar upp í staðla og óháðum vottunarstofum síðan falið það verkefni að meta hvort viðkomandi fiskveiðar uppfylla kröfurnar. Með þessum hætti myndast hvati til að standa vel að stjórn fiskveiða: Aðeins þeir bestu—þeir sem uppfylla alþjóðlegar kröfur—fá vottun. Þeir sem ekki uppfylla alþjóðlegar kröfur fá þá eðlilega ekki vottun. Vottun með þessum hætti getur verið mikils virði.

Ekki má slaka á kröfunum

Á seinni árum gætir þess viðhorfs á erlendum mörkuðum að allar sjávarafurðir þurfi að vera vottaðar til að fá hillupláss í stórmörkuðum.  Við þessar aðstæður er viðbúið að þrýstingur skapist á vottunaraðila að veita afslátt af alþjóðlega viðurkenndum kröfum. Afar mikilvægt er að ekki sé látið undan slíkum þrýstingi.

Ekki dugir að tjalda til einnar nætur í þessum efnum. Ef vottun er veitt án þess að alþjóðlegar kröfur séu uppfylltar, í nafni þess að allt verði að vera vottað, er tekin áhætta. Afleiðingin getur orðið sú að vottun fiskveiða glati trúverðugleika sínum. Fari svo, þá þarf að finna aðrar leiðir til að sýna fólki fram á ágæti fiskveiðanna og það getur orðið bæði dýrt og erfitt.

Hvað íslenskan sjávarútveg varðar er það frammistaða okkar sjálfra sem mestu máli skiptir. Það stendur upp á okkur sjálf að efla hafrannsóknir og greiningar svo að stjórnvöld séu í sterkri stöðu til að setja sér nýtingarstefnu og aflareglu sem stenst skoðun fyrir sem flestar tegundir nytjafiska. Með því móti má styrkja stöðu íslenskra sjávarafurða í samkeppni á erlendum mörkuðum.

Greinin birtist fyrst í Fiskifréttum 5. maí 2016.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px