Verð­mæti koma ekki af sjálfu sér

Margir kunna að halda að fiskur upp úr sjó sé stöðluð vara og að verðmætin komi af sjálfu sér eftir að hann hefur verið veiddur. Staðreyndin er hins vegar sú að fiskur í sjó felur ekki í sér verðmæti í sjálfu sér, heldur þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis. Þar ríkir hörð samkeppni þar sem kröfurnar eru sífellt að aukast um gæði, hraða, rekjanleika og í tilliti til umhverfissjónarmiða, svo fátt eitt sé nefnt.

Nærtækast er að nefna þorskinn, en verðmæti þorskafurða hefur verið vel yfir 40% af útflutningsverðmæti sjávarafurða alls á undanförnum árum. Hefur útflutningsverðmæti þorskafurða jafnframt aukist töluvert síðasta áratuginn, bæði í krónum talið og í erlendri mynt. Á árinu 2019 nam það tæplega 118 milljörðum króna, sem er tæplega 8% aukning frá fyrra ári að teknu tilliti til gengisbreytinga. Á sama tímabili stóð útflutt magn nánast í stað. Er því ljóst að þessa aukningu í útflutningsverðmæti má að öllu leyti rekja til hærra afurðaverðs, það er að meira fékkst fyrir hvert útflutt kíló árið 2019 en árið á undan. Vissulega gegnir staða efnahagsmála og þar með ástand á mörkuðum víða um heim veigamiklu hlutverki, auk framboðs á þorski sem er mismikið á milli ára. Hér kemur þó fleira til sögunnar.

Vinnslutækni breytist
Hin íslenska virðiskeðja fyrir þorskafurðir er að öllu leyti markaðsdrifin þar sem kröfur neytandans ráða ferðinni. Þar má því hvergi slaka á enda eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki í þrotlausri vinnu við að bæta virðiskeðjuna, allt frá skipulagi veiða til lokasölu, til þess að mæta kröfum markaðarins og við að hámarka verðmæti afurða. Þó er erfitt að festa fingur á hversu miklu slík vinna skilar þegar á heildina er litið, enda er hún falin í verði útfluttra sjávarafurða þar sem ástand á mörkuðum erlendis gegnir vitaskuld einnig veigamiklu hlutverki.

Breyttar kröfur á markaði hafa leitt til þess að vinnsla á þorski og þar með samsetning þorskafurða í útflutningi hefur breyst mikið á undanförnum árum. Vinnslan hefur þróast í að verða mun flóknari og í átt að meiri ferskleika. Til þess að mæta þessum áskorunum hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í verulegar fjárfestingar í hátæknibúnaði fyrir vinnslu og kælingu. Kemur sú staðreynd heim og saman við að fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í tækjabúnaði fyrir vinnslu hafa ekki verið meiri en á undanförnum árum í að minnsta kosti þrjátíu ár.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig samsetning útfluttra þorskafurða hefur breyst frá árinu 2007. Hlutdeild ferskra afurða hefur aukist verulega, sem að miklu leyti hefur verið á kostnað saltaðra afurða. Slík vinnsla krefst hátæknibúnaðar við framleiðslu og má geta þess að inn í ferskum afurðum er ekki ísaður heill fiskur. Jafnframt má sjá að vægi ferskra þorskafurða er mun meira þegar kemur að verðmætum en magni, sem endurspeglar að slíkar afurðir eru mun verðmætari en aðrar þorskafurðir.

Viðskiptalönd breytast
Samfara breytingum í vinnslu hafa miklar breytingar orðið á hlutdeild einstakra viðskiptalanda með þorskafurðir. Þannig hefur franski markaðurinn orðið æ mikilvægari á síðustu árum og er orðinn stærsti markaðurinn fyrir íslenskar þorskafurðir. Það kemur heim og saman við þá miklu aukningu sem orðið hefur í framleiðslu á ferskum afurðum. Miðað við útflutningsverðmæti þorskafurða á árinu 2019 var hlutdeild franska markaðarins um 20% en miðað við magn var hlutdeildin rúm 14%. Það endurspeglar að verðmætari þorskafurðir eru fluttar út til Frakklands.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá vægi tíu stærstu viðskiptalanda Íslendinga með þorskafurðir á árinu 2019 og þróunina frá árinu 2007. Vægi landanna miðast við útflutningsverðmæti en ekki magn. Þar má jafnframt sjá aukinn útflutning til Bandaríkjanna, sem aftur má rekja til áherslu á ferskar afurðir. Á hinn bóginn hefur hlutdeild Spánar og Portúgals dregist saman, sem endurspeglar að dregið hefur úr framleiðslu á söltuðum afurðum.

Af ofangreindri umfjöllun ætti að vera nokkuð skýrt að verðmæti spretta ekki af sjálfu sér við það eitt að fiskur hafi verið dreginn úr sjó. Það eru í raun ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni sem koma bersýnilega í ljós þegar litið er á hvernig málum er háttað í einu helsta samkeppnislandi Íslendinga í framleiðslu á þorskafurðum. En nánar verður fjallað um það í pistli á morgun.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px