Vél­stjór­ar sömdu en sjó­menn slitu við­ræð­um

Kjarasamningur SFS og VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna undirritaður – sjómenn slitu samningaviðræðum

SFS og VM-Félag vélstjóra og málmtæknimanna hafa undirritað nýjan kjarasamning, sem mun gilda til ársloka 2018.

Að kvöldi 10. nóvember sleit samninganefnd sjómanna viðræðum við SFS. Viðræðum hafði miðað vel fram liðna daga og sjómönnum hafði mikil sanngirni verið sýnd þegar kom að einstökum kröfum þeirra. Fiskverðsmálefni, sem hafa verið ágreiningsefni um árabil, höfðu verið leidd í jörð, samhljómur var orðinn um aukinn orlofsrétt og auknar greiðslur vegna hlífðarfatnaðar, auk þess sem aðilar höfðu komist að samkomulagi um að láta framkvæma óháða athugun á öryggis- og hvíldarmálum sjómanna. Það er sameiginlegt hagsmunamál bæði sjómanna og útgerða að reglur þessa efnis séu virtar í hvívetna.

Þá skal þess getið að kominn var samhljómur um að þak yrði sett á gildistíma nýsmíðaákvæðis. Við svo búið hefði mátt ætla að aðilar næðu saman um ásættanlegan kjarasamning. Svo var hins vegar ekki og síðdegis gerðu sjómenn það meðal annars að ófrávíkjanlegri kröfu að matsveini á uppsjávarskipum yrði óheimilt að ganga í starf háseta og því yrði fjölgað um einn háseta á uppsjávarskipum. Þessu var hafnað. Mönnun skipa er öryggismál. Ef misbrestur er á mönnun uppsjávarskipa, þá má ætla að hin óháða athugun hefði leitt hann í ljós.

Kjarasamningur SFS og VM er í samræmi við það sem rætt hafði verið við sjómenn. Það er fagnaðarefni að aðilar hafi náð saman um kjaramál. Það er hins vegar miður að til verkfalls hafi þurft að koma vegna afstöðu sjómanna.

Frekari upplýsingar veitir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í síma 6933531

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px