Upp úr auð­linda­skot­gröf­um

Á fimmtudag birti forsætisráðherra grein í þessu blaði undir yfirskriftinni, Nýtum tækifærið. Vék hún þar að frumvarpi sínu til breytinga á stjórnarskrá, þá helst svokölluðu auðlindaákvæði frumvarpsins og þeim ólíku sjónarmiðum sem fram hefðu komið í umsögnum ýmissa aðila til Alþingis. Þar á meðal var umsögn SFS. Um leið og forsætisráðherra telur frumvarpið hafa átt að skapa tækifæri til að ná raunverulegri umræðu um efnisatriði málsins, þá er umsagnaraðilum á hálsi legið fyrir að ástunda hefðbundna skotgrafarpólitík, líkt og það er orðað, og að þeir hinir sömu geti að líkindum unað vel við að halda rifrildinu áfram að eilífu.

Í ljósi þess að vitnað er til umsagnar SFS í nefndri grein forsætisráðherra má ætla að hin vægðarlausa gagnrýni beinist meðal annars að henni. Erfitt er hins vegar að átta sig á hvernig þetta getur komið heim og saman við efni umsagnar SFS.

 

Samfélagslegt mikilvægi auðlindaákvæðis
Í fyrsta lagi kemur fram í umsögn SFS áhersla á mikilvægi þess að ná og viðhalda samfélagslegri sátt og samstöðu um sjávarútveg enda um að ræða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Sjálfbær nýting, skynsamleg stjórnun veiða og nýsköpun í sjávarútvegi eru hagur bæði þeirra sem við atvinnugreina starfa og þjóðarinnar allrar. Stöðugt og fyrirsjáanlegt lagaumhverfi, þar sem hvati ríkir til þess að gera sem mest verðmæti úr sameiginlegri auðlind, öllum til hagsbóta, án þess að gengið sé á rétt komandi kynslóða til hins sama, er nauðsynlegt. Það hafa Íslendingar lagt áherslu á til þessa við fiskveiðistjórn og margar þjóðir líta til Íslands þegar kemur að skipulagi bæði veiða og vinnslu.

Meðal annars í þessu samhengi tóku samtökin í umsögn sinni undir samfélagslegt mikilvægi þess að festa í stjórnarskrá Íslands ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands, þ.m.t. nytjastofna sjávar, tilheyri íslensku þjóðinni og beri að nýta á sjálfbæran hátt landsmönnum öllum til hagsbóta. Í þessari skýru afstöðu SFS felst engin skotgrafarpólitík eða vilji til að halda ósættinu áfram inn í alla framtíð. Raunar mjög fjarri lagi, enda er tekið undir 1. málsgrein í nefndu auðlindaákvæði forsætisráðherra.

 

Þögn um áhrif
Í öðru lagi var í umsögn SFS vikið að því, með málefnalegum rökum, að í 2. málsgrein auðlindaákvæðisins skorti á að skýrt væri hvað átt væri við með einstökum hugtökum, auk þess sem ekki var lagt mat á líkleg áhrif breytinganna, yrðu þær leiddar í stjórnarskrá. Í tilviki sjávarútvegs, þá hlýtur að mega álíta það sanngjarna lágmarkskröfu, að skýr afstaða sé tekin til þess í frumvarpinu hvort það muni, verði það samþykkt, leiða til breytinga á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem kveðið er á um í gildandi lögum. Í fyrirliggjandi frumvarpi er því miður ýmist slegið í eða úr, meðal annars með eftirfarandi orðalagi: „Tekið skal fram að með ákvæðinu er ekki sjálfkrafa raskað þeim óbeinu eignarréttindum sem kunna að felast í afnota- eða hagnýtingarrétti sem þegar hefur verið stofnað til gagnvart auðlindum og landsréttindum í þjóðareign.“ Þá segir síðar: „Verði frumvarp þetta að stjórnarskipunarlögum er líklegt að breyta þurfi einstökum lögum til að tryggja að þau uppfylli áskilnað ákvæðisins um tímabindingu, þ.e. ákvæðum sem lúta að heimildum til nýtingar auðlinda og landsréttinda í þjóðareign.“

Hvað er átt við með því að óbeinum eignarréttindum sé ekki sjálfkrafa raskað? Verður óbeinum eignarréttindum raskað ósjálfkrafa? Hvaða lögum þarf að breyta til að þau uppfylli það auðlindaákvæði sem lagt er til? Vera kann að einhverjum þyki þessar ábendingar SFS léttvægar eða að þær hafi ekki uppfyllt væntingar forsætisráðherra til umræðunnar. Það hlýtur þó hver að sjá, að við fyrirhugaðar breytingar á lögum eða stjórnarskrá, þá getur enginn tekið afstöðu til þess hvort þær séu jákvæðar eða neikvæðar, hvort þær hafi einhver eða meiriháttar áhrif á líf þeirra eða starfsemi, nema ljóst sé hvað löggjafinn raunverulega á við. Í tilviki sjávarútvegs eru ekki aðeins möguleg áhrif á aflaheimildir útgerða til umræðu, ekki síður eru það möguleg áhrif á störf í sjávarútvegi, tekjur sveitarfélaga og ríkis, fjárfestingar og frekari verðmætasköpun, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta verða varla taldir léttvægir hagsmunir.

 

Ákall um skýran vilja
Í umsögn SFS fólst því fyrst og síðast ákall um, að frumvarpið lýsi því hver vilji stjórnarskrárgjafans sé. Þegar sá vilji liggur fyrir getur atvinnugreinin með upplýstum hætti tekið afstöðu til síðari hluta þess auðlindaákvæðis sem forsætisráðherra leggur til.

Ég er sammála forsætisráðherra um mikilvægi raunverulegrar efnislegrar umræðu um þetta stóra mál. Undir þeirri kröfu tel ég að afstaða SFS hafi staðið. Ég leyfi mér hins vegar að hafa efasemdir um að þögnin um raunverulegan vilja stjórnarskrárgjafans sé af sama meiði. Vera kann að einmitt þar liggi orsök þess að í meginþorra fram kominna umsagna séu aðilar að fálma í myrkrinu eftir þessum vilja.

 

eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra SFS

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjávarútvegurinn og umhverfið

Sjá fleiri Greinar 3px