Tveir lyk­il­þætt­ir var­úð­ar­leið­ar

Árið 1995 voru gerðir tveir merkir alþjóðasamningar á sviði fiskveiða. Samningar þessir eru siðareglur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN-FAO) í fiskimálum og úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna. Í þessum samningum er að finna ákvæði sem marka sýn alþjóðasamfélagsins á hvað felst í ábyrgri og vandaðri fiskveiðistjórnun og er kjarninn svonefnd varúðarleið við stjórn fiskveiða.

Varúðarleiðin byggir á vísindalegri ráðgjöf. Aflareglur eru sú aðferð sem notuð er við framkvæmd varúðarleiðar í okkar heimshluta.

Tveir lykilþættir

Tveir lykilþættir varúðarleiðar eru þeir, að

  1. stjórnvöld setji sér markmið ásamt varúðarmörkum við stjórnun fiskveiða og
  2. ákveði jafnframt fyrirfram til hvaða aðgerða verði gripið ef stofnstærðin nálgast varúðarmörk. Miða skal að hóflegu veiðiálagi, sem getur gefið af sér hámarks afrakstur til lengri tíma litið, og takmarka líkur á verulegri stofnminnkun. Þessum ráðstöfunum er ætlað að stuðla að sjálfbærni veiðanna og tryggja endurnýjunargetu fiskistofna.

Hér á eftir mun ég fjalla stuttlega um tvö dæmi sem geta gefið innsýn í virkni aflareglna.

Fyrirfram ákveðin mörk og aðgerðir

Fyrra dæmið er af þorskveiðum Íslendinga. Hægfara stækkun þorskstofnsins og aflaaukning undanfarin ár er gott dæmi um árangur af beitingu varúðarleiðar.  Þannig hefur viðmiðunarstofninn nærri tvöfaldast og aflamarkið aukist umtalsvert frá árinu 2007. Á hverju ári kom fram það sjónarmið að aflaaukningin væri of lítil og að unnt væri að auka aflann mun meira. Hefði það verið gert væri stofninn þó varla eins stór í dag og raun ber vitni né heldur aflinn eins mikill eða veiðarnar eins hagkvæmar. Hagkvæmni veiðanna helst í hendur við stofnstærðina, en mun ódýrara er að sækja tiltekið aflamagn úr stórum stofni en litlum.

Það er raunar visst afrek að okkur skuli hafa tekist að endurreisa hrygningarstofn þorsksins á þessum árum og leyft honum að vaxa um nálægt 150% þrátt fyrir langa röð tiltölulega lélegra árganga sem bættust nýir í stofninn á þessum tíma. Erfitt hefði verið að ná þessum árangri án fyrirfram ákveðinnar nýtingarstefnu og aflareglu sem byggði á varúðarleið.

Seinna dæmið er af loðnuveiðum okkar. Sérstaða loðnunnar í íslensku samhengi felst í því að uppistaða hrygningarstofns hvers árs er aðeins einn árgangur. Veiðar leiða því til þess flest árin að hrygningarstofninn minnkar og getur því nálgast varúðarmörk. Nýtingarstefnan ásamt stjórnunaraðgerðum er ákveðin fyrirfram með aflareglu stjórnvalda, sem segir til um hversu mikið magn loðnu skuli skilið eftir árlega til hrygningar með yfirgnæfandi líkum.  Framkvæmdin byggir síðan á loðnumælingum. Aflareglunni er ekki breytt á miðri vertíð. Án þessa væri hætt við að stjórnvöld tækju illa ígrundaðar ákvarðanir þegar leikurinn stendur sem hæst og pressan er hvað mest á auknar veiðar.

Sömu sjónarmið og eiga við um loðnuna eiga einnig við um stofna langlífra fiska. Þar er aðdragandinn að vísu jafnan lengri, en vandinn er þó ekki minni þegar á reynir. Er þá jafnan gert ráð fyrir því fyrirfram að dregið verði úr veiðiálagi þegar varúðarmörk hrygningarstofns nálgast þannig að stofninn nái að stækka umtalsvert umfram varúðarmörkin.

Endurskoðun aflareglna í ljósi reynslunnar þarf að fara fram á nokkurra ára fresti. Ekki er gott að slík endurskoðun fari fram á sama tíma og þörf er á að taka erfiðar ákvarðanir um heildarafla.

Mikilvægi aflareglna

Aflareglur eru mikilvægur þáttur í verðmætasköpun og trúverðugleika nútíma sjávarútvegs. Þær kröfur sem til okkar eru gerðar varðandi varúðarleið byggja á ákvæðum í 20 ára gömlum alþjóðasamningum sem íslensk stjórnvöld áttu þátt í að móta og Ísland er aðili að. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld vinni með skipulegum hætti að setningu aflareglna fyrir veiðar á sem flestum stofnum nytjafiska á Íslandsmiðum.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px