Þró­un geng­is­ins og áhrif á tekj­ur fyr­ir­tækja og afla­hlut sjó­manna

Íslenska hagkerfið er lítið og háð útflutningi. Eðli máls samkvæmt hefur gengisþróun því áhrif á fyrirtæki í útflutningi. Fyrirtæki sem að selja vörur nánast eingöngu á erlenda markaði, og þar af leiðandi fá greitt fyrir vörur í erlendum gjaldmiðlum, verða fyrir breytingum í rekstri eftir því sem gengið breytist. Ógleymanlega féll íslenska krónan í lok árs 2008 og allt hagkerfið varð fyrir verulegri röskun. Skilyrði til útflutnings urðu hins vegar verulega betri. Nú er staðan önnur. Frá byrjun árs 2014 hefur gengið verið í samfelldu styrkingarferli og raungengi er komið á sama stað og það var árið 2007, líkt og greina má af neðangreindri mynd.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Í raungengi er tekið tillit til verðlagsbreytinga. Það endurspeglar kaupmátt innflutrar vara og því hærra sem raungengið er, því ódýrara er að flytja inn vörur. Raungengið endurspeglar einnig kaupmátt erlendra aðila til að kaupa vörur frá Íslandi. Ef horft er aðeins á gengið eru aðstæður til útflutnings nú þær sömu og voru árið 2007.

Heimild: Seðlabanki Íslands

Sjávarútvegur framleiðir fiskafurðir sem rata nánast alfarið á erlenda markaði. Tekjur sjávarútvegsins eru því nær eingöngu í erlendum gjaldmiðlum. Líkt og áður hefur verið bent á þá hefur gengið áhrif á tekjur sjávarútvegsins vegna þess að þær eru til útflutnings. Þróunin helstu gjaldmiðla á stærstu markaði fyrir sjávarafurði hefur þróast á einn veg það sem af er þessu ári, sbr. ofangreinda mynd, og það til verri vegar fyrir fyrirtæki í útflutningi. Gengi Bandaríkjadollars gagnvart íslensku krónunni hefur fallið um 14% frá byrjun árs til dagsins í dag. Bandaríkjamarkaður er stór markaður, en gjaldmiðillinn er einnig leiðandi mynt í heiminum. Viðskipti með dollara eiga sér t.a.m. stað á öðrum stórum mörkuðum. Má þar m.a. nefna Nígeríu og Austur-Evrópu. Gengi Evru hefur þróast í sömu átt en Evrusvæðið er stærsta markaðsvæði íslenskra sjávarafurða og stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir er Bretlandsmarkaður. Pundið hefur fallið gagnavart helstu myntum í heiminum frá því Bretland tók ákvörðun um útgöngu úr Evrópusambandinu. Á sama tíma hefur íslenska krónan styrkst. Því hefur pundið fallið um 25% gangvart íslensku krónunni á þessu ári. Þessi þróun hefur veruleg áhrif á tekjur í sjávarútvegi.

Aflahlutur og afkoma sveiflast með gengi

Gengið er einn meginþáttur í afkomu sjávarútvegsins. Gengið hefur ekki aðeins áhrif á afkomu heldur einnig á aflahlut sjómanna. Launakerfi sjómanna byggja á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða. Það þýðir að sjómenn fá hlut í þeim verðmætum sem veiðast. Hlutur þeirra minnkar ekki heldur tekur verðmæti hans breytingum í samræmi við verðbreytingar á mörkuðum.  Af því leiðir að  þegar gengi íslensku krónunnar sveiflast þá hefur það áhrif á bæði sjómenn og afkomu í sjávarútvegi.

Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Áætlun SFS*

Á ofangreindri mynd má á hægri ás sjá þróun XDR, þ.e. samsetningu erlendra gjaldmiðla sem stunduð eru viðskipti með. Á vinstri ás má sjá þróun á aflahlut sjómanna og framlegð í fiskveiðum. Líkt og greina má þá þróast aflahlutur og framlegð í takt við gengið. Þegar gengið er veikt þá er hærri framlegð og stærri aflahlutur en þegar gengið er sterkt þá er farið öfuga leið. Frá 2011-2015 hafa skilyrði í sjávarútvegi verið hagstæð, verð á sjávarafurðum hefur verið hátt og gengið var hagstætt til útflutnings. Bæði fyrirtæki og sjómenn hafa notið góðs af þeirri þróun. En eins og áður hefur verið bent á, þá hefur orðið veruleg styrking á gengi íslensku krónunnar og skilyrði til útflutnings eru nú sambærileg þeim sem voru árið 2007. Það veldur áhyggjum þar sem tekjur fyrirtækja og verðmæti hlutar sjómanna dragast saman. Ekkert bendir til þess að þróun þessi sé að breytast, heldur mun krónan enn styrkjast árið 2017 samkvæmt spá Seðlabankans.

*2015 og 2016: Aflahlutur og framlegð áætluð m.v. upplýsingar um aflaverðmæti

Öfug þróun í landi og á sjó

Laun í landi og aflahlutur sjómanna þróast ekki í sömu átt. Sjómenn fá hlutdeild í aflaverðmæti og þeir fylgja ekki almennri kaupmáttar- og launaþróun á Íslandi. Þetta má bersýnilega greina af neðangreindri mynd. Á árinu 2008 fellur vísitala kaupmáttar launa en aflahlutur sjómanna eykst verulega á sama tíma. Það var fyrst og fremst vegna gengisþróunar. Frá árinu 2007 til ársins 2011 féll vísitala kaupmáttar launa um 9%, en á sama tímabili jókst aflahlutur sjómanna um 34%. Laun sjómanna hækkuðu þannig verulega á nefndu tímabili.

Frá árinu 2014 hefur vísitala kaupmáttar launa aukist um 15%. Áætlað er að á sama tímabili hafi aflahlutur sjómanna dregist saman um 14%%. Laun í landinu hafa því hækkað á meðan að aflahlutur sjómanna hefur dregist saman. Með áframhaldandi styrkingu á gengi íslensku krónunnar verður  erfiðara  að fá sjómenn til starfa við veiðar. Sjómenn fá greidd há laun, samanborið við aðrar starfsstéttir. Ef bilið á milli launa á sjó og launa í landi hins vegar minnkar þá verður sjávarútvegurinn síður samkeppnishæfur um vinnuafl. Eðli máls samkvæmt má því hafa áhyggjur af þessari þróun.

Heimild: Hagstofa Íslands, áætlun SFS*

*2015 og 2016: Aflahlutur áætlaður m.v. upplýsingar um aflaverðmæti

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px