Tæp­lega millj­arð­ur á mán­uði

Á Íslandi greiðir ein atvinnugrein gjald fyrir notkun á auðlind; sjávarútvegurinn. Hann er einn af burðarásunum í íslensku efnahagslífi, og verður það um ókomna tíð. Hóflegt auðlindagjald er því eðlilegt. Frá því að fiskveiðiárið hófst í byrjun september í fyrra, hefur álagt veiðigjald numið 8,6 milljörðum króna.  Á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári var álagt veiðigjald komið upp í rúma 3,3 milljarða króna. Fari svo fram sem horfir verður álagt veiðigjald á sjávarútveginn um 11 til 12 milljarðar króna á yfirstandandi fiskveiðiári, samanborið við 4,6 milljarða á því síðasta.

Til grundvallar álagningu gjaldsins er afkoma ársins 2015 en frá þeim tíma hafa orðið verulega breytingar á rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja. Talsverðar kostnaðarhækkanir hafa orðið innanlands og gengi krónunnar styrkst umtalsvert. Hefur það að jafnaði verið 24% sterkara á yfirstandandi fiskveiðiári en það var á árinu 2015. Það er afar óheppileg samsetning að miða gjaldið núna við ár sem var verulega gott í sjávarútvegi. Nú er gengi krónunnar miklu sterkara og tekjur sjávarútvegsfyrirtækja í íslenskum krónum mun lægri af þeim sökum. Það má því telja sanngjarna og rökrétta kröfu að gjaldið verði fært nær í tíma. Það yrði allra hagur.

Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd hefur álagt veiðigjald á sjávarútvegsfyrirtæki, á yfirstandandi fiskveiðiári, numið um milljarði króna eða meira í fimm mánuði af níu. Hæst varð gjaldið í mars (1.137 milljónir) en lægst í desember (714 milljónir króna).

Það má lengi takast á um það hvort veiðigjald sé hátt eða lágt. Þar virðist pólitísk sannfæring ráða för. Framhjá hinu verður ekki litið, að íslenskur sjávarútvegur er einn afar fárra í heiminum öllum sem greiðir auðlindagjald. Langflest ríki heims styðja við útgerðir fjárhagslega, hvort sem það er beint eða óbeint, með einhvers konar undanþágum frá sköttum og gjöldum umfram aðrar atvinnugreinar. Svo er ekki hér á landi. Þegar svo er haft í huga að 98% af íslensku sjávarfangi er selt á erlendum markaði, er augljóst að heimatilbúin gjöld skerða verulega samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Án fótfestu á alþjóðlegum markaði er tóm mál að tala um arðbæran íslenskan sjávarútveg sem leggur tugi milljarða til samneyslunnar á hverju ári, bæði beint og óbeint.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px