Súr­ir pung­ar og sam­keppn­is­hæfni

All­ar vör­ur sem fram­leidd­ar eru, sama hvaða nafni þær nefn­ast, þarf að selja vilji maður hafa eitt­hvað upp úr fram­leiðslunni. Það þarf að vera markaður fyr­ir þær. Markaður­inn bygg­ist á því að ein­hverj­ir vilji kaupa vör­una á því verði sem fram­leiðand­inn er til­bú­inn að selja á. Sam­hengið er nokkuð aug­ljóst.

Íslensk­an fisk þarf alltaf að flytja á markað; annaðhvort með flugi eða skipi, fryst­an eða fersk­an. Því fylg­ir óhjá­kvæmi­lega kostnaður sem ekki verður hjá kom­ist. Sam­keppn­is­staða ís­lensks sjáv­ar­út­vegs er lak­ari, því lengra sem flytja þarf fisk­inn. Nefna má að flutn­ings­kostnaður er um­tals­vert hærri hjá ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um en norsk­um, en Norðmenn eru okk­ar helsta sam­keppn­isþjóð í sjáv­ar­út­vegi.

Alþjóðleg­ir og staðbundn­ir
Markaðir geta verið alþjóðleg­ir eða staðbundn­ir. Markaður fyr­ir súra ís­lenska hrút­spunga er nokkuð staðbund­inn á Íslandi. Öðru máli gegn­ir um ís­lenskt sjáv­ar­fang. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Hag­stof­unni eru um 98% af ís­lensk­um fiski seld á alþjóðleg­um markaði. Þar fer bar­átt­an um hylli neyt­enda fram, þar er víg­lína ís­lensks sjáv­ar­út­vegs. Sá sem sit­ur eft­ir í sam­keppn­inni er fljótt af­skrifaður. Íslensk­um sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­um hef­ur tek­ist vel í sölu á sinni fram­leiðslu. Sem bet­ur fer. Það eru þó blik­ur á lofti sem ber að taka al­var­lega. Hverj­ar eru þær?

Sam­keppni og vinnu­afl
Sam­keppn­in á mörkuðum þar sem ís­lensk fyr­ir­tæki hafa komið ár sinni fyr­ir borð miðast ekki ein­göngu við það að ís­lensk­ur þorsk­ur keppi við þorsk frá öðrum þjóðum, eða ýsa við ýsu. Markaðssetn­ing á fiski snýst öðrum þræði um að fá fólk til að borða fisk, síðan er hægt að reyna að fá fólk til að kaupa ákveðnar teg­und­ir af fiski frá ákveðnum lönd­um. Íslenskt sjáv­ar­fang kepp­ir við sjáv­ar­fang frá öll­um heims­horn­um. Einnig frá lönd­um þar sem vinnu­afl er marg­falt ódýr­ara en hér á landi. Segja má að þarna séu í upp­sigl­ingu tvær áskor­an­ir sem tengj­ast.

Fyrst er að nefna hið aug­ljósa að ódýrt vinnu­afl í út­lönd­um verði til þess að unn­inn fisk­ur frá Íslandi miss­ir að nokkru leyti sam­keppn­is­hæfni. Við það fær­ist virðis­auki vinnsl­unn­ar og að lok­um vinnsl­an úr landi. Hið síðara er að þegar hall­ar und­an fæti hjá fisk­vinnsl­unni minnk­ar get­an til fjár­fest­inga. En það er ein­mitt með auk­inni fjár­fest­ingu í nýj­ustu tækni sem hægt er að mæta sam­keppni. Þarna leiðir eitt af öðru.

Önnur áhrif – tæknifyr­ir­tæki
Fleiri áskor­an­ir munu þó fylgja, sem eru kannski ekki eins aug­ljós­ar. Mikið af þeirri tækni, sem notuð er í ís­lenskri fisk­vinnslu og ís­lensk­um skip­um, er hannað og fram­leitt af ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um. Þessi iðn- og tæknifyr­ir­tæki hafa á und­an­förn­um árum flutt út tæki og tól fyr­ir tugi millj­arða króna. Til­vist margra þeirra og til­urð er vegna ís­lensks sjáv­ar­út­vegs. Án öfl­ugs sjáv­ar­út­vegs og getu til fjár­fest­inga hefðu mörg þess­ara fyr­ir­tækja ekki kom­ist á legg. Inn­an iðn- og tæknifyr­ir­tækja vinn­ur vel menntað fólk úr ýms­um geir­um og störf­in eru vel borguð. Þarna hef­ur orðið til raun­veru­leg auðlind við hlið hinn­ar hefðbundnu í sjón­um. Þessi þróun er afar já­kvæð og þjóðhags­lega mik­il­væg. Skert sam­keppn­is­hæfni ís­lensks sjáv­ar­út­vegs mun hafa nei­kvæð áhrif á hana. Æxl­ist hlut­ir á þann veg væri það afar dap­ur­legt og í raun ábyrgðar­hluti að láta svo fara.

Heima­til­bún­ar hindr­an­ir – hætta
Þá ber að nefna að ís­lensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki njóta í engu rík­is­styrkja eins og sjáv­ar­út­veg­ur víða um heim. Einnig eru gjöld á ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg þau hæstu í heimi og ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er einn ör­fárra sem greiðir auðlinda­gjald. Allt þetta verður til þess að draga úr sam­keppn­is­hæfn­inni. Eitt lítið dæmi um skatt­lagn­ingu sem er um­fram það sem ger­ist í okk­ar helsta sam­keppn­islandi. Á Íslandi er lagt á kol­efn­is­gjald, eins og í Nor­egi. Hér á landi er það tæp­ar 10 krón­ur á hvern lítra olíu, en í Nor­egi 4 krón­ur. Þarna mun­ar um minna, því eldsneyt­is­kostnaður er að jafnaði ann­ar stærsti kostnaðarliður í út­gerð.

Eitt er það að ákv­arðanir til heima­brúks dragi tenn­urn­ar úr sam­keppn­is­hæfni sjáv­ar­út­vegs á alþjóðleg­um vett­vangi. Annað er að vinna upp stöðu á mörkuðum, tap­ist hún á annað borð. Þótt marg­ir vilji fisk á sinn disk, eru ákveðin fyr­ir­tæki úti í hinum stóra heimi sem hafa mikið um það að segja hvaða fisk­ur end­ar í hvaða búðum. Traust og viðvar­andi viðskipta­sam­bönd hafa verið fléttuð milli ís­lenskra sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja og út­lendra kaup­enda. Þar skipt­ir af­hend­ingarör­yggi mestu máli. Það er, að kaup­end­ur fái sinn fisk þegar þeir vilja og það með reglu­bundn­um hætti.

Ábyrgð á upp­námi
Álög­ur á ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg og óró­leiki í starfs­um­hverfi hans heima fyr­ir skemma fyr­ir og draga úr sam­keppn­is­hæfni sjáv­ar­út­vegs­ins og hætt­an við þær aðstæður er sú að tengsl­in við kaup­end­ur trosna. Slitni þau al­veg er hæg­ara sagt en gert að koma þeim á, á nýj­an leik. Þar með væri þurrkað út ára­tuga sam­starf á milli er­lendra kaup­enda og ís­lenskra fram­leiðenda. Því skyld­um við, að ástæðulausu, setja þann góða ár­ang­ur sem náðst hef­ur í markaðssetn­ingu á fiski í upp­nám; hver ætl­ar að taka ábyrgðina á því að ís­lensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki missi sam­keppn­is­hæfni og þar með fót­festu á alþjóðleg­um markaði?

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px