Skynj­un og veru­leiki

Ytri rekstrarskilyrði íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru mun óhagstæðari nú en þau voru á árinu 2015, árinu sem veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári tekur mið af. Um það er ekki hægt að deila, það er staðreynd. Verður hér greint frá helstu atriðum hvað þau snerta og er hér stuðst við opinberar upplýsingar sem liggja fyrir, ekki áætlanir. Áður en lengra er haldið er þó rétt að árétta að sjávarútvegsfyrirtæki, eða önnur útflutningsfyrirtæki hér á landi, geta ekki skellt kostnaðarhækkun sem bundin er við Ísland út í verð afurða sinna eða þjónustu, líkt og fyrirtæki í samkeppni innanlands geta gert. Rúmlega 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á alþjóðlegum markaði og þar eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekki verðmyndandi.

Veruleg tekjurýrnun vegna gengisins

Árið 2017 nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 197 milljörðum króna samanborið við tæpa 265 milljarða króna á árinu 2015. Jafngildir þetta samdrætti upp á 26%, eða sem nemur 68 milljörðum króna. Hátt í 80% þessarar fjárhæðar má rekja til gengi krónunnar sem styrktist nánast linnulaust frá ársbyrjun 2015 fram á mitt árið 2017. Var gengi krónunnar að jafnaði 25% sterkara í fyrra en það var á árinu 2015, miðað við gengisvísitölu krónunnar. Óhætt er að fullyrða hér að enginn sá þessa miklu styrkingu fyrir á árinu 2015, þó svo að menn töldu almennt líkur á að þróunin yrði í átt til styrkingar. Fyrir utan áhrif gengisins var einnig talsverður samdráttur í útfluttu magni, meðal annars vegna sjómannverkfallsins, og lítilsháttar lækkun á verði sjávarafurða í erlendri mynt. Þessir tveir þættir höfðu þó augljóslega mun minni áhrif en gengið.

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið minna í krónum talið síðan á árinu 2008. Þetta ætti jafnframt að gefa góða mynd af því hvernig tekjur sjávarútvegsfyrirtækja hafa þróast á þessu tímabili, auk þess að varpa ljósi á hversu mikla þýðingu gengi íslensku krónunnar hefur fyrir þá þróun.

Hin séríslenska launaþróun

Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og þar hefur þróunin verið síður en svo hagstæð fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki. Launakerfi sjómanna byggist á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða og haldast laun þeirra þar með í hendur við tekjur sjávarútvegsfyrirtækja. Hið sama á ekki við um önnur laun í sjávarútvegi sem vega ríflega þriðjung launakostnaðar. Á Íslandi hefur verið regla, fremur en undantekning, að laun hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum. Þessi þróun kemur bersýnilega fram í þróun raungengis á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar en sá mælikvarði endurspeglar hvernig launakostnaður hér á landi þróast í samanburði við viðskiptalöndin mælt í erlendri mynt. Raungengi miðað við hlutfallslegan launakostnað er um þessar mundir nálægt sínum hæstu hæðum og er nú um 32% hærra en það var að jafnaði á árinu 2015. Það er alveg ljóst að þetta skerðir verulega samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Heimatilbúnar hindranir

Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og munar talsvert um hverja prósentu til hækkunar eða lækkunar. Olíuverð náði lágmarki í ársbyrjun 2016 en hefur hækkað talsvert frá þeim tíma, sér í lagi frá miðju ári 2017. Verð á lítra af skipagasolíu (án VSK) er nú um 121,5 krónur hér á landi og hefur hækkað um tæp 19% bara frá áramótum. Hefur skipagasolían ekki verið dýrari hér á landi síðan í byrjun desember 2014. Hluti þessarar hækkunar á árinu á rætur að rekja til 50% hækkunar á kolefnisgjaldi hér á landi um síðustu áramót. Það eitt og sér gerir stöðuna enn verri þar sem helstu samkeppnisaðilar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja búa ekki við slíka gjaldtöku.

Bústinn eftirlitsmaður um borð

Fyrir utan ofangreind gjöld eru hin ýmsu gjöld sem leggjast á sjávarútvegsfyrirtæki að hækka langt umfram það sem gerist og gengur í samkeppnislöndum. Er hér nærtækast að nefna þau gjöld sem eru tengd launaþróun hér á landi sem fyrirtækjum er skylt að greiða, eins og gjald vegna eftirlitsmanna um borð sem fylgir nú orðið launavísitölu Hagstofu Íslands. Sá kostnaður er orðinn æði drjúgur enda hefur hann hækkað um 181% frá árinu 2015. Þessi kostnaður getur numið allt að tvennum hásetalaunum.

Afar óheppilegt viðmiðunarár

Ofangreind yfirferð ætti að gefa mynd af stöðu sjávarútvegsfyrirtækja nú um stundir. Sem og hversu óvenju harkaleg hún var, sú tvöföldun sem varð á veiðigjaldinu í september síðastliðnum þegar yfirstandandi fiskveiðiár hófst. Sú hækkun vegur þyngst í versnandi rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja. Þessi yfirferð staðfestir jafnframt hversu óheppilegt er að taka mið af afkomu ársins 2015 þegar veiðigjald er lagt á 2017/2018. Upphlaup núna á Alþingi þegar færa á greiðslu veiðigjaldsins nær í tíma, er því óskiljanlegt. Þar virðast margir styðjast við skynjun sína á því hvernig hlutirnir eru og ættu að vera, frekar en staðreyndir.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px