Skatt­ar og sam­keppni, Ísland og Nor­eg­ur

Auðlindagjöld í haftengdri starfsemi hafa verið til umræðu í Noregi um nokkurt skeið. Hefur þar bæði verið hugað að gjaldtöku í fiskveiðum og fiskeldi. Nú berast fréttir af því að Høyre, flokkur Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefði ályktað á þann veg að Noregur ætti að leitast við að laða í auknum mæli að fjárfestingar í þessum atvinnugreinum og að flokkurinn væri gagnrýninn á álagningu auðlindaskatts. Í ályktun flokksins segir jafnframt að bæði samfélagið og atvinnulífið væru betur sett ef grunnrentunni væri ráðstafað í formi fjárfestinga fyrirtækja við strendur landsins. Tveir aðrir flokkar í ríkisstjórn Ernu Solberg, Venstre og Fremskrittspartiet, hafa einnig tekið sambærilega afstöðu. Norðmenn hafa einnig sett sér það markmið að tvöfalda útflutningsverðmæti frá haftengdri starfsemi fyrir árið 2030 og fimmfalda verðmætin fyrir árið 2050! Hér er metnaðarfullt markmið á ferðinni.

Í ljósi þess að sjávarafurðir hér á landi eiga í harðri samkeppni við norskar sjávarafurðir, ber okkur eyjaskeggjum á Íslandi að gefa þessum fréttum frá Noregi sérstakan gaum. Nýlega mælti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra fyrir frumvarpi til laga um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó. Fyrir nokkru mælti hann einnig fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fiskeldi. Bæði þessi frumvörp kveða á um aukna gjaldtöku fyrir fiskeldi. Markmið boðaðrar skattheimtu er meðal annars að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Það má sannanlega taka undir mikilvægi uppbyggingar á samfélagi og atvinnulífi á landsbyggðinni. Hér er um sama markmið að ræða og frændur okkar í Noregi stefna að. Stjórnvöld hér á landi hafa hins vegar kosið að fara allt aðra leið að þessu markmiði en Norðmenn – og því miður er nokkuð fyrirsjáanlegt að leið íslenskra stjórnvalda mun ólíklega skila okkur á leiðarenda.

50 ára samkeppnisforskot
Í fyrsta lagi er mikilvægt að tryggja samkeppnishæfni íslenskra sjávarafurða í harðri erlendri samkeppni. Skattlagning á fiskeldi, umfram það sem þekkist hjá samkeppnisaðilum okkar, mun binda hendur fyrirtækja í kapphlaupinu. Sjókvíaeldi er að hefja vegferð sína hér á landi. Í þeim efnum hafa Norðmenn meira en 50 ára forskot. Framleiðslukostnaður þeirra er líklega um 30% lægri en framleiðslukostnaður íslenskra fiskeldisfyrirtækja. Hér á landi er framundan mikil fjárfesting í tækjum, búnaði og markaðsstarfi, svo fátt eitt sé nefnt. Hvað sem þessu líður ætla stjórnvöld að leggja á atvinnugreinina verulega skatta umfram það sem þekkist í Noregi. Verði frumvörpin tvö að lögum ber að greiða sérstakt gjald í fiskeldissjóð, hækkað gjald í umhverfissjóð, sérstakt gjald vegna fiskeldis í sjó og mögulega gjald gegn veitingu leyfis í útboði. Er þá ótalið hið séríslenska aflagjald sem fyrirtækin greiða nú þegar. Með svo umfangsmikilli gjaldtöku hægja stjórnvöld verulega á nauðsynlegum fjárfestingum og draga úr samkeppnishæfni greinarinnar. Á því tapa allir.

Einkaframtak tryggir byggðafestu
Í öðru lagi má segja að sporin hræði. Líkt og áður var vikið að kann markmiðið um nýtingu skatttekna til uppbyggingar atvinnulífs að vera göfugt. Ef litið er til sögunnar má hins vegar segja að stjórnvöldum hefur ekki tekist sérstaklega vel til við uppbyggingu atvinnulífs. Vestfirðir eru þar gott dæmi. Samdráttur í atvinnutekjum og fólksfækkun hefur verið viðvarandi um margra ára skeið. Nú horfir hins vegar öðruvísi við – og ráðstöfun hins opinbera á skattfé hafði þar engin áhrif. Uppbygging fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum hefur leitt til þess að fólki hefur fjölgað, sér í lagi ungu fólki, og atvinnutekjur hafa aukist. Það hafa með öðrum orðum verið fjárfestingar einkaaðila, eldisfyrirtækja í þessu tilviki, sem hafa blómgað byggðir. Dæmi sem þessi ættu að öllu jöfnu að leiða íslensk stjórnvöld að sömu niðurstöðu og norsk stjórnvöld. Aukið svigrúm einkaaðila til fjárfestinga er lykillinn að sjálfbærri byggðastefnu. Á því græða allir.

Auknar álögur á landsbyggð
Í þriðja lagi ætti það að vera landsbyggðinni sérstakt áhyggjuefni að leggja þurfi sérstaka skatta á fyrirtæki, sem loks ákveða að skjóta þar rótum, til þess að unnt sé að byggja þar upp nauðsynlega innviði. Skilaboð stjórnvalda með þess háttar ákvörðun eru þau að landsbyggðin hafi ekki lagt nægilega mikið til samneyslunnar til þess að hún eigi inneign hjá stjórnvöldum fyrir nauðsynlegum innviðum – innviðum sem við höfuðborgarbúar teljum sjálfsagða!

Það er grundvallarskylda stjórnvalda að tryggja að innviðir mæti þörfum atvinnulífs. Stjórnvöldum ber að tryggja að jarðvegur sé til staðar, þannig að fyrirtæki geti skotið rótum og skapað verðmæti fyrir samfélagið. Auk þess eru það ekki bara Vestfirðingar og Austfirðingar sem græða á því að fiskeldi blómgist á þeim svæðum. Samfélagið allt nýtur ábatans í auknum útflutningsverðmætum og skatttekjum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. Af þessum sökum er sú hugsun varhugaverð að láta atvinnulíf á tilteknum svæðum greiða fyrir uppbyggingu innviða sem samfélagið í heild nýtur góðs af.

Þegar fiskeldi vex fiskur um hrygg
Í sáttmála sitjandi ríkisstjórnar er að því vikið að fiskeldi sé vaxandi atvinnugrein sem feli í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar, en hana þurfi að byggja upp með ýtrustu varúð. Þá segir jafnframt að eftir því sem fiskeldinu vaxi fiskur um hrygg þurfi að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga. Orðatiltækið „að vaxa fiskur um hrygg“ þýðir að eitthvað dafni vel og eflist. Samkvæmt þessu átti því að ræða, en ekki ákveða, framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku þegar fiskeldið hefði dafnað.

Sjókvíaeldi hér á landi er á byrjunarreit. Fá fyrirtæki höfðu tekjur á liðnu ári af sölu á laxi úr sjóeldi, ekkert fyrirtækjanna hefur enn trygg rekstrarleyfi og uppsafnað rekstrartap á tímabilinu 2013-2017 er 5,1 milljarður króna. Það telst varla ósanngjarnt að biðla til stjórnvalda að leyfa atvinnugreininni að taka nokkra andardrætti við upphaf æviskeiðs áður en verulegar álögur eru lagðar á hana. Slíkt væri enda í samræmi við fyrrgreint orðalag stjórnarsáttmálans.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px