Sjó­manna­skól­inn“ kynnt­ur á Fiski­deg­in­um mikla

Á Fiskideginum mikla á Dalvík verður „Sjómannaskólinn“ – Gagnvirkt námsefni fyrir framhaldsskóla um sjálfbærar fiskveiðar, sýnt opinberlega í fyrsta sinn. Við framleiðsluna nýtti Árni sér kvikmyndaupptökur til sjós og útbjó kennsluefni sem ætlað er nemendum í lífsleikni og líffræði í framhaldsskólum.

„Þegar ég áttaði mig á því að börnin mín höfðu ekki neina þekkingu á því hvernig fiskur er veiddur áttaði ég mig á því hvað það var mikil þörf á því að útbúa fræðsluefni um sjávarútveg sem ætlað er ungu fólki,“ segir Árni Gunnarsson, framleiðandi hjá kvikmyndagerðarfyritækinu Skottu á Sauðárkrókim sen útbjó efnið. Þá útbjó Árni spurningalista og ítarefni um veiðar og vinnslu fiskistofna á Íslandsmiðum, sem nýtast við umræður í kennslustundum eftir sýningu efnisins. Við gerð þessa námsefnis naut hann leiðsagnar kennara og leiðbeininga frá börnum sínum sem hann segir afar gagnrýna samstarfsmenn sem komi með góðar og gagnlegar leiðbeiningar. Þættirnir verða frumsýndir á Fiskideginum mikla á Dalvík. 

Notaði frívaktir til að mynda sjómennskuna

Sjómannaskólinn er meðal fjölda verkefna sem Rannsóknarsjóður síldarútvegsins hefur styrkt frá árinu 2008. Markmið sjóðsins er að efla vöruþróun og markaðsöflun á sjávarfangi, einkum síldarafurðum eins og nafn sjóðsins gefur til kynna. Jafnframt því að efla nýsköpun, rannsóknir, fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Gerð er krafa um að fræðslu- og kynningarefni styrkt af sjóðnum verði öllum aðgengilegt á netinu án gjalds.

Árni segir að við gerð námsefnisins hafi hann notað efni úr kvikmyndabanka sem hann hefur viðað að sér undanfarin sex ár. Það segir sig þó sjálft að það er ekki hlaupið að því að fá að mynda efni sem aðeins verður náð með því að mynda út á reginhafi og ekki hlaupið að því að komast í land næstu daga. Árni segist því hafa ráðið sig sem háseta um borð á tveimur skipum sjávarútvegsfyrirtækisins Fisk Seafood. Skipverjar hafi meðal annars verið með GoPro-vélar á hjálmunum og sjálfur hafi hann notað frívaktir til að afla myndefnis, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Hluti af sögu og sál þjóðarinnar

„Mér finnst þetta málefni bara svo mikilvægt fyrir íslenska þjóð. Sjávarútvegur er svo stór hluti af sögu og sál þjóðarinnar. Þetta er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar og keppir á alþjóðlegum mörkuðum. Mér þykir nauðsynlegt að ungmenni hafi þekkingu á þessu málefni en til þess þarf að afla gagna og fá myndefni,“ segir Árni. Hann segir styrkveitingu úr Rannsóknarsjóði síldarútvegsins hafa skipt sköpum enda sé ekki á vísan að róa þegar kemur að tekjustreymi frá kennsluefni.

Spennandi heimur hafsins

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir mikilvægt að hugað sé vel að því að styðja við rannsóknir og kynningarefni á efni sem tengist sjávarútvegi. Sjávarútvegur sé ein helsta undirstaða efnahagslífs landsins og tengist  flestum þáttum samfélagsins með einum eða öðrum hætti. „Í raun þykir mér sjávarútvegur virka eins og æðakerfi fyrir íslenskt samfélag. Frá honum fáum við kraft til að byggja upp nýja sprota og með tekjum af honum byggjum við hagsæld okkar á. Því þykir mér mikilvægt að laða hæft fólk að atvinnugreininni og að vandað sé til allra verkefa með því markmiði að viðhalda heilbrigði hafsins og góðra afurða sem standast alþjóða samkeppni“. Hann minnir á að handtökin sem þarf til þess að koma vöru úr hafi og til neytenda séu afskaplega mörg og margvísleg. Þetta segir hann meðal annars sjást vel þegar litið er til þeirra verkefna sem Rannsóknarsjóður síldarútvegsins hefur styrkt. Þar séu dæmi um kröftugar vísindarannsóknir í bland við áhugavert kennsluefni.

„Hafið við Ísland er spennandi heimur. Við Íslendingar eigum að leggja mikið upp úr vísindalegum rannsóknum og þekkingu sem við grundvöllum ábyrga nýtingu auðlindarinnar á og greina ný og spennandi tækifæri sem í því felast,“ segir Kolbeinn.

 

 

 

Styrkúthlutun 2015


Nánar má lesa um Rannsóknasjóð síldarútvegsins undir Menntun og samfélag hér á heimasíðu SFS eða með því að smella hér.

Þar má einnig nálgast úthlutanir fyrri ára, leiðbeiningar um umsókn styrks og fræðsluefni.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins skiptir styrkjum í tvo flokka:

Sigurjónsstyrkur - doktorsverkefni

Styrkurinn heitir Sigurjónsstyrkur eftir prófessor Sigurjóni Arasyni.

Styrkurinn er til rannsókna á líffræði síldar, veiðum, vinnslu og markaðssetningu afurða og annarra uppsjávarfiska.

Hámarksstyrkur er 5 milljónir króna á ári í þrjú ár.

Fræðslu- og kynningarefni í sjávarútvegi

Sjóðurinn styrkir námsefnisgerð í grunnskólum og fyrir sjávarútvegstengt nám á framhaldskólastigi.

Gerð er krafa um að fræðslu- og kynningarefni styrkt af sjóðnum verði öllum aðgengilegt á netinu án gjalds.

Hámarksstyrkur 3 milljónir króna.

Sigurjónsstyrkur 2015

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkir doktorsverkefni um 5 milljónir króna og samtals yfir þriggja ára tímabil 15 milljónir króna. Styrkurinn er til rannsókna á líffræði síldar, veiðum, vinnslu og markaðssetningu afurða og annarra uppsjávarfiska.

Heiti verkefnis: Áhrif rauðátu á gæði uppsjávarfiska og stýring vinnsluferla.

Verkefnisstjóri og aðalleiðbeinandi: María Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands.

Doktorsnemi: Stefán Þór Eysteinsson.

Samstarfsaðilar: Háskóli Íslands, Síldarvinnslan, Skinney - Þinganes og Matís.

Markmið verkefnis: Skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska verður metin og hvernig best sé að stýra vinnslu og geymslu afurða. Einnig verða áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu rannsökuð. Þess utan verða eiginleikar átunnar rannsakaðir og hvort nýta megi hana á einhvern hátt

Fræðslu- og kynningarverkefni í sjávarútvegi

Hvert verkefni fær 3 milljónir króna í styrk og er því heildarstyrkupphæð nýrra verkefna samtals 9 milljónir króna. Eftirtalin verkefni eru styrkt að þessu sinni:

Handbók um frystingu og þíðingu sjávarafurða.

Verkefnisstjóri: Páll Gunnar Pálsson, Matís.

Markmið verkefnis: Taka saman hagnýtar upplýsingar um frystingu og þíðingu sjávarafurða, með svipuðum hætti og gert hefur verið í Saltfiskhandbókinni, Þurrkhandbókinni og Ferskfiskhandbókinni. 

„Sjómannaskólinn“ – Gagnvirkt námsefni fyrir framhaldsskóla um sjálfbærar fiskveiðar. Verkefnisstjóri: Árni Gunnarsson, Skotta ehf.

Samstarfsaðilar: Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra og Fisk Seafood.

Markmið verkefnis: Að nýta kvikmyndaupptökur til sjós til að gera gagnvirkt kennsluefni fyrir nemendur í lífsleikni og líffræði í framhaldsskólum.

Myndbönd um störf í uppsjávariðnaði – Verðmætasköpun með hátækni búnaði.

Verkefnisstjóri: Hörður Sævaldsson, Háskólinn á Akureyri.

Samstarfsaðilar: Sjávarútvegsmiðstöðin við Háskólann á Akureyri og N4.

Markmið verkefnis: Verkefnið gengur út á það að gera 8-10 áhugaverð myndbönd um störf í uppsjávariðnaði á Íslandi. Kynnt verða flest störf í ferlinu frá veiðum og vinnslu, auk starfa sem tengjast rekstri, stjórnun og markaðssetningu. Þannig er dregið fram hversu spennandi vettvangur iðnaðurinn er og vekja þannig áhuga á þeim fjölbreyttu störfum sem unnin eru í sjávarútvegi.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px