Sjáv­ar­út­veg­ur og sam­fé­lag­ið

Framferði fólks í nútímanum verður oft og tíðum að sæta því að vera í opinberri umræðu. Margt af því sem áður var hulið, jafnvel falið, er nú á allra vörum. Tímarnir breytast og viðmiðin líka. Þetta á ekki síður við um fyrirtæki en fólk. Samtal við samfélagið sem fyrirtækin starfa í er orðið mikilvægara en áður. Fyrirtæki sem láta hjá líða að hegða sér með forsvaranlegum hætti eiga á hættu að baka sér óvild og verða undir í samkeppni, ekki aðeins í sölu á vöru eða þjónustu heldur einnig í samkeppni um mannauð.

Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa nú komið sér saman um stefnu í samfélagsmálum. Fyrirtæki sem undirrita stefnuna hyggjast því birta ófjárhagslegar upplýsingar um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, þar sem stuðst er við alþjóðlega viðurkennd viðmið. Ábyrg og góð umgengni um náttúruna er skilyrði fyrir því að fiskistofnar við Ísland verði áfram nýttir með sjálfbærum hætti. Umhverfismál skipa af þeim sökum stóran sess í stefnunni. Mikið hefur áunnist í þeim efnum á umliðnum árum, en markmiðið er að gera enn betur. Þá er einnig stefnt að því að birta upplýsingar um skattspor, hvar skattar eru greiddir og viðskipti við tengda aðila. Nánari upplýsingar um stefnuna má nálgast á vefsíðunni samfelag.sfs.is.

Trúverðug stefna
Til að greina áhrif fyrirtækja á umhverfi, samfélag og efnahag þarf að eiga sér stað samtal við helstu hagaðila. Það þarf að hlusta og leitast við að skilja og ræða mismunandi skoðanir; samtalið skerpir skilninginn. Með þeim hætti tekst vonandi að draga fram hvað megi gera betur og hvernig. Sem hluti af samfélaginu ber fyrirtækjum að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum og auka þau jákvæðu. Hluti af þeirri vinnu grundvallast á stefnu sem sækir fyrirmyndir í alþjóðlega viðurkennd viðmið, lög og venjur. Það verður með öðrum orðum að vera trúverðug stefna sem menn hyggjast fylgja.

Vegferðin
Til undirbúnings við setningu stefnunnar voru haldnir fjórir opnir fundir síðari hluta vetrar undir yfirskriftinni »Samtal um sjávarútveg« og var þar fjallað um hvernig sjávarútvegur gæti gert betur í umhverfismálum, hvernig auka mætti gagnsæi, hvernig stuðla mætti að aukinni nýsköpun og hvernig væri unnt að auka verðmæti sjávarauðlindarinnar. Þá var haldin vinnustofa um áherslur í samfélagsábyrgð, þar sem öllum félagsmönnum SFS var boðið að taka þátt. Því næst fóru starfsmenn SFS um landið og áttu fundi með félagsmönnum til að ræða samfélagsábyrgð og leita eftir ábendingum og hugmyndum. Niðurstaðan af þessari vinnu var síðan höfð til hliðsjónar við gerð heildstæðrar samfélagsstefnu sjávarútvegsins, sem nú hefur verið birt.

Jákvætt afl í samfélagi til framtíðar
Það er von mín að með þeim aðgerðum sem ráðist verður í á grundvelli þessarar stefnu verði sjávarútvegur leiðandi afl jákvæðra breytinga í samfélaginu. Stefnan, ein og sér, mun duga skammt ef fyrirtæki í greininni gera sér ekki far um að innleiða hana í allar sínar athafnir. Fyrirtæki innan SFS eru mörg og mismunandi að stærð og því mun það taka mislangan tíma og mismikla vinnu fyrir þau að ná settu marki. Það er að sjálfsögðu vel þegar einstök fyrirtæki einsetja sér að verða drifkraftur jákvæðra breytinga í samfélaginu, en ég er ekki í nokkrum vafa um að sameiginlegur taktur heillar atvinnugreinar í þessum efnum mun leysa úr læðingi eitthvað miklu meira og stærra.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px