Sjáv­ar­út­vegs­dag­ur­inn 2020

Rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja gekk vel í fyrra. Þetta kom fram í kynningu frá Deloitte á Sjávarútvegsdeginum 2020, sem var í dag. Sjávarútvegsdagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins, Deloitte og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Niðurstaðan byggist á ársuppgjörum fyrirtækja sem hafa yfir að ráða tæplega 90% af úthlutuðu aflamarki og er skalað upp í 100%.

Heildartekjur í sjávarútvegi námu 280 milljörðum króna í fyrra og jókst framlegð hlutfallslega úr 22% í 26%.  Hagnaður eykst einnig, úr 27 milljörðum króna í rúma 43 milljarða króna. Fjárhæð veiðigjalds fór úr 11,3 milljörðum króna í 6,6 milljarða króna, enda var afkoma í fiskveiðum árið 2017 óviðunandi  sem var viðmiðunarár við veiðigjald ársins 2019. Það ár námu heildartekjur í sjávarútvegi aðeins 235 milljörðum króna. Reiknaður tekjuskattur hækkar um 50%, úr 6 milljörðum króna í 9 milljarða króna. Arðgreiðslur námu 10,7 milljörðum króna, borið saman við 12,3 milljarða króna árið 2018. Rétt er að taka fram að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði hafa að meðaltali  verið lægri í sjávarútvegi en í viðskiptahagkerfinu almennt á undanörnum árum. Þá má að lokum nefna að fjárfestingar í sjávarútvegi hafa undanfarin fimm ár numið 110 milljörðum króna, eða að meðaltali 22 milljörðum króna á ári hverju.

Góður gangur var í fiskeldi á Íslandi í fyrra. Tekjur námu þar tæpum 30 milljörðum króna og framleitt magn jókst úr rúmum 19 þúsund tonnum í 34 þúsund tonn. Útflutningsverðmæti nánast tvöfaldaðist, jókst frá fyrra ári úr rúmum 13 milljörðum króna í 25 milljarða.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði á fundinum af þessu tilefni: „Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað íslenskur sjávarútvegur stendur traustum fótum í þeim ólgusjó sem þjóðarskútan nú siglir. Það er ýmislegt sem skýrir þessa niðurstöðu, en stærstan þátt eiga íslensku sjávarútvegsfyrirtækin sjálf sem eru vakin og sofin við að auka verðmæti afurða með ýmsu móti og í þrotlausri vinnu við að bæta virðiskeðjuna, allt frá skipulagi veiða til lokasölu. Tekjur sjávarútvegs í fyrra markast af þessum staðreyndum og er ljóst að sú mikla fjárfesting sem fyrirtækin hafa ráðist í á undanförnum árum er að leiða til verðmætari afurða og auðveldar þeim að mæta breyttum aðstæðum á mörkuðum. Þá er að sama skapi mjög ánægjulegt að sjá að fiskeldið er að festa sig í sessi sem traust útflutningsgrein og afkoman í fyrra gefur góð fyrirheit. Hér á landi þurfa að þrífast fjölbreyttar, gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar og eitt útilokar ekki annað í þeim efnum.“

Dagskrá:
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte
Glærur: Gagnagrunnur Deloitte

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð
Glærur: Áhrif fiskeldis á nærumhverfi

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

 

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px