Sam­tal um sjáv­ar­út­veg – gagn­legt og upp­byggi­legt

Fundaröð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtal um sjávarútveg, er nú hálfnuð. Viðbrögð og þátttaka hefur verið með ágætum; húsfyllir á báðum fundum sem búnir eru. Samtal um sjávarútveg snýst um að ræða málefni tengd sjávarútveginum með uppbyggilegum hætti og leiða fram mismunandi sjónarmið. Framsögumenn hafa viðrað ólíka sýn á hvaða áskoranir eru framundan og einnig hvernig beri að takast á við þær.

Fjallað var um það á fyrsta fundi hvernig auka megi upplýsingagjöf og gagnsæi í sjávarútvegi. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, benti á að það taki tíma að auka traust og horfa þurfi á það sem langtíma verkefni. Sjávarútvegurinn þurfi að setja meiri kraft í að veita upplýsingar um jákvæð verkefni sem greinin stendur að.

Á næsta fundi var spurt hvernig íslenskur sjávarútvegur getur gert betur í umhverfismálum. Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og ein af frummælendum, benti á að sjávarútvegurinn eigi að tileinka sér þá ferla að segja meira frá starfsemi sinni út á við. Bæði því sem vel fer og hinu sem miður fer. Það sé alltaf skref í rétta átt að ræða tilraunir og mistök til þess að læra af þeim.

Andri Snær Magnason rithöfundur benti í sínu erindi á að mikilvægt sé að auka áhuga unga fólksins á málefnum hafsins. „Það er stóra málið að börn okkar eiga að hafa æði fyr¬ir fiskum. Þau eiga að afla sér þekkingar á því sem er að gerast í hafinu, hafa áhuga á hafinu, rækta hafið, tala máli hafsins, veiða, flaka og selja þessar afurðir,“ sagði hann.

Markmiðinu með fundunum er ekki náð með því einu að halda þá og tala saman. Vinna er þegar hafin við að greina niðurstöður fundanna sem haldnir hafa verið og móta tillögur að aðgerðum þar sem við á. Stefnt er að því að kynna niðurstöðurnar á ársfundi í byrjun maí.

Næstu fundir verða 11. og 18. mars í Messanum á Granda og hefjast klukkan 9:00. Fyrst verður fjallað um það hvernig greinin skilar mestum ábata til samfélagsins og síðan hvernig hægt er að auka nýsköpun í sjávarútvegi.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px