Opinn fund­ur um auð­lind­ina og ábat­ann

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) boða til opins fundar, miðvikudaginn 11. mars, undir yfirskriftinni, Hvernig skilar sjávarútvegur mestum ábata til samfélagsins? Fundurinn verður í veitingahúsinu Messanum í húsi Sjóminjasafnsins á Granda og hefst kl. 9:00 og stendur til kl. 11:00. Húsið verður opnað kl. 8:30 og boðið er upp á morgunverð.

Fyrir streymi af fundinum. Smelltu hér.

Frummælendur eru Svanfríður Jónasdóttir ráðgjafi og fyrrverandi þingmaður, Sveinn Agnarsson prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, Pétur H. Pálsson framkvæmdastjóri Vísis hf., og Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs SA. Að því loknu fara fram pallborðsumræður með þátttöku Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS. Fundarstjóri er Þórlindur Kjartansson, pistlahöfundur á Fréttablaðinu.

Fundurinn á miðvikudag er sá þriðji í fundaröð SFS sem nefnist Samtal um sjávarútveg, en alls verða fundirnir fjórir. Markmiðið er að leiða saman fólk úr ólíkum áttum til þess að ræða málefni sjávarútvegsins á breiðum grunni. Til stendur að kynna niðurstöðuna af samtölunum á ársfundi samtakanna í byrjun maí.

„Íslenskur sjávarútvegur hefur á undanförnum áratugum gengið í gegnum miklar breytingar. Skipum og fyrirtækjum hefur fækkað, tækni hefur fleygt fram, framlegð hefur aukist og skattspor sjávarútvegs hefur stækkað verulega. Þessari þróun hafa, eðli máls samkvæmt, fylgt ýmis konar samfélagslegar áskoranir. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim, finna leiðir til að takast á við þær og tryggja að breytingar til framtíðar hámarki virði sjávarútvegs fyrir samfélagið allt. En hvernig skilar sjávarútvegur mestum ábata til samfélagsins? Það er sú spurning sem við spyrjum að þessu sinni og um það viljum við eiga samtal“, segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Samtal um sjávarútveg, fundir:
26. febrúar – Hvernig getum við aukið gagnsæi í sjávarútvegi?
4. mars – Hvernig getur sjávarútvegur gert betur í umhverfismálum?
11. mars – Hvernig skilar sjávarútvegur mestum ábata til samfélagsins?
18. mars – Hvernig aukum við nýsköpun í sjávarútvegi?

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px