Öfl­ug fjár­fest­ing er eitt stærsta umhverf­is­mál­ið

Tækniframfarir hafa reynst lykilforsenda þess að ástand loftslagmála er ekki verra en það er. Ef horft er til bíla, skipa eða flugvéla, eða hvers sem vera skal og brennir jarðefnaeldsneyti, þá hafa tækniframfarir oft orðið til þess að draga úr eldsneytisnotkun. Þær tækniframfarir eru þó ekki nægar til að bæta þann skaða sem brennslan veldur.

Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur dregist saman á undanförnum árum. Ýmislegt veldur því, en tækniframfarir eru einmitt hluti af skýringunni. Á liðnum árum hafa verið smíðuð ný skip fyrir íslensk fyrirtæki og enn fleiri eru í smíðum. Nútíma vélar í skipum eru búnar þeim eiginleikum að þær nýta eldsneytið miklu betur en hinar eldri. Það þýðir einfaldlega að hægt er að veiða meira, eða í það minnsta jafn mikið, með minni notkun á olíu. Auk þess hafa verið aðrar framfarir, eins og stærri skrúfur sem aukið hafa kraftinn, án þess að vélarnar hafi verið stækkaðar, og breytt hönnun á skipum. Reyndar er það svo að vélar í skipum hafa farið minnkandi á liðnum árum. Samkvæmt útreikningum má búast við því, að öðru óbreyttu, að íslenski flotinn dragi enn frekar úr olíunotkun fram til ársins 2030 og þá muni heildarlosun flotans vegna olíu hafa dregist saman um rúm 50% frá árinu 1990. Þar munu tækniframfarir spila stórt hlutverk. Það er hins vegar getan til að nýta tækniframfarirnar sem skiptir öllu máli.

Á Íslandi eru, samkvæmt skipaskrá, 1.628 fiskiskip og er þá allt með talið. Af þeim eru togararnir 43 og eitt fjölveiðiskip er í flotanum, samtals 44 skip. Á árinu 2017 voru 14 ný fiskiskip skráð, en 31 skip afskráð. Af nýjum skipum sem eru á leið til landsins má nefna 7 lítil togveiðiskip,  tvö stór uppsjávarskip og eitt línuveiðiskip. Það er því von á 10 nýjum skipum, auk þess sem minni bátar úr trefjaplasti munu bætast við. Öll verða búin nýjustu tækni.

Það er hins vegar til lítils að standa til boða nýjasta tækni, ef enginn hefur ráð á að nýta sér hana. Þessi staðreynd þarf að vera til staðar hjá stjórnvöldum þegar kemur að álögum á atvinnugreinar. Geta fyrirtækjanna til fjárfestinga þarf að vera næg og með því móti verður dregið úr áhrifum af brennslu jarðefnaeldsneytis. Þeir tímar munu hugsanlega koma að hægt verði að knýja fiskiskip og báta með umhverfisvænni orkugjöfum, en eins og staðan er í dag, er sú þróun komin heldur skammt á veg svo hún dugi öllum skipum og bátum. Sérstaklega þeim sem eru marga daga á sjó. Á meðan þarf sjávarútvegur við Ísland, og reyndar um allan heim, að fjárfesta í nýjustu og umhverfisvænstu tækni sem völ er á. Margt af því sem vel er gert á vettvangi nýsköpunar til orkusparnaðar byggist á íslensku hugviti. Því má segja að fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í nýrri tækni, styðji við nýsköpun hér á landi með áþreifanlegum hætti. Dæmi um þetta má nefna nýja og gríðarstóra skrúfu sem systurskipin Breki frá Vestmannaeyjum og Páll Pálsson í Hnífsdal eru búin. Forsvarsmenn Breka segja að togarinn veiði á við tvo en eyði þriðjungi minni olíu. Þetta eru góðar fréttir og rétt er að halda áfram á þessari braut.

Hvatning til að beina fólki í átt að umhverfisvænni lausnum eru ekki nýjar af nálinni. Hana má til dæmis finna þegar kemur að innflutningi á bílum. Til dæmis er vörugjald af bílum og öðrum vélknúnum ökutækjum breytilegt eftir skráðri losun koltvísýrings. Eftir miklu meiru er að slægjast þegar skip eru annars vegar. Samdráttur í losun um nokkur þúsund tonn á ári hjá fiskiskipaflotanum jafnast á við ansi marga umhverfisvæna bíla. Fjárfesting í dag er ekki bara góð fyrir útgerð og áhöfn, hún er nauðsynleg fyrir umhverfið. Yfirvöld ættu að gera vel í því að hvetja til fjárfestinga svo draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda, en ekki leggja stein í götu þeirra fyrirtækja sem vilja fjárfesta.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px