Net­fund­ur um nýsköp­un og sjáv­ar­út­veg

Streymi: https://youtu.be/uz88UH1PehM

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) boða til fundar, sem eingöngu verður sendur út á netinu, miðvikudaginn 18. mars, undir yfirskriftinni, Hvernig aukum við nýsköpun í sjávarútvegi? Fundurinn verður sendur út frá veitingahúsinu Messanum í húsi Sjóminjasafnsins á Granda og hefst kl. 9:00 og stendur til kl. 11:00.

Frummælendur eru Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis, Guðmundur Hafsteinsson sérfræðingur í nýsköpun, Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans 3x og Berta Daníelsdóttir framkvæmdastjóri Sjávarklasans. Að því loknu fara fram pallborðsumræður með þátttöku Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS. Fundarstjóri er Þórlindur Kjartansson, pistlahöfundur á Fréttablaðinu.

Fundurinn á miðvikudag er sá fjórði og síðasti í fundaröð SFS sem nefnist Samtal um sjávarútveg. Markmiðið með fundunum var að leiða saman fólk úr ólíkum áttum til þess að ræða málefni sjávarútvegsins á breiðum grunni. Óhætt er að segja að markmiðið hafi náðst og verða niðurstöðurnar af samtalinu kynntar á ársfundi samtakanna í byrjun maí. Fyrstu þrír fundirnir voru mjög vel sóttir en vegna samkomubanns yfirvalda verður fundurinn eingöngu á netinu. „Fjórða iðnbyltingin er ekki nýyrði í sjávarútvegi. Þar hefur orðið tæknibylting á undanförnum árum, bæði til sjós og lands, sem ekki sér fyrir endann á. Það ánægjulega við þróunina er að oftar en ekki er notast við íslenskt handverk og hugvit. Það má segja að þar hafi auðlind sprottið af auðlind, enda eru lausnir sem hafa orðið til í samstarfi sjávarútvegs og íslenskra fyrirtækja, flutt út fyrir milljarða á ári hverju. Þetta samstarf er afar verðmætt. Þá hafa einnig verið að gerast mjög spennandi hlutir í framleiðslu á svo kölluðum hliðarafurðum og mörg framsækin fyrirtæki orðið til á þeim vettvangi“, segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Samtal um sjávarútveg, fundir:

26. febrúar – Hvernig getum við aukið gagnsæi í sjávarútvegi?

4. mars – Hvernig getur sjávarútvegur gert betur í umhverfismálum?

11. mars – Hvernig skilar sjávarútvegur mestum ábata til samfélagsins?

18. mars – Hvernig aukum við nýsköpun í sjávarútvegi?

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px