Mikl­ar von­ir bundn­ar við önd­veg­is­set­ur um vernd­un hafs­ins

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru meðal stofnaðila Oceana öndvegisseturs sem ætlað er að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins. Samningur um stofnun Oceana var undirritaður á Alþjóðlegu norðurslóðaráðstefnunni Arctic Circle sem fram fór í Hörpu um mánaðarmótin.

„Fáar þjóðir eru eins háðar hreinu hafi og sjálfbærri nýtingu auðlinda þess og Íslendingar, enda hefur sjávarútvegur verið undirstaða velferðar og framfara hér á landi. Íslendingar ættu því að vera í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum á ástandi hafsins, setningu reglna til verndar því og í þróun tækni sem verndar umhverfi og auðlindir þess, meðal annars með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa,“ segir Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Með víðtæku samstarfi fyrirtækja og stofnanna á að nýta þekkingu sem þegar er til staðar til að auka vitund á breytingum sem gera má ráð fyrir vegna loftslagsbreytinga og vegna vaxandi skipaumferðar í íslenskri landhelgi. Stefnt er að því að starf Oceana geti meðal annars orðið til þess Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum, stuðlað verði að verndun lífríkisins í kringum landið og sjálfbærri nýtingu vistkerfa hafsins, hægt verði að fjölga verðmætum störfum í tækni- og hugverkagreinum og að hægt verði auka almennan skilning á þekkingu á hafinu og mikilvægi þess.

Verkefnið er stutt af fjölmörgum aðilum, svo sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Landsbankanum, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Hafrannsóknarstofnun, Orkustofnun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Granda hf. og Clean Tech Iceland sem eru samtök fyrirtækja í grænni tækni, og fjölda tæknifyrirtækja.

Á myndinni má sjá Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi næstan en auk hans undirrituðu samninginn: Steinþór Pálsson, forstjóri Landsbankans , Jón Ágúst Þorsteinsson, stjórnarformaður ARK Technology/Marorku, K-C Tran, forstjóri Carbon Recycling International og formaður CTI – Clean Tech Iceland eða Samtaka fyrirtækja í grænni tækni, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Ari Jónsson, rektor Háskóla Reykjavíkur. Aðrir, sem rituðu undir en eru ekki á myndinni, voru Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Svavar Svavarsson, yfirmaður viðskiptaþróunar HB Granda, Ágústa Loftsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px