Mak­ríl­sag­an og sam­heng­ið

„Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um blessaðan makrílinn þessa dagana. Þar er margt skynsamlega mælt að vanda þótt stundum vanti nokkuð upp á söguna og samhengið.“ Þetta segir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem í eftirfarandi grein fer yfir útbreiðslu makríls og annarra uppsjávarfiska við Ísland frá aldamótum.

Meiri útbreiðsla eða minni?

Mér er minnisstæð ráðstefna sem ég sat í Þórshöfn í Færeyjum haustið 2010. Þar steig fram vísindamaður sunnan úr álfu og sagði viðstöddum að vegna hnattrænnar hlýnunar hefðu fiskistofnar meðfram vesturströnd Evrópu flutt sig um set sífellt lengra til norðurs. Hann taldi jafnframt hið sama vera að gerast varðandi stóru uppsjávarstofnana í NA-Atlantshafi – síld, kolmunna og makríl – og af sömu ástæðu: þeir færðu sig nú sífellt norðar og vestar vegna hnattrænnar hlýnunar og svo yrði áfram um langa framtíð.

Á eftir honum kom svo norskur vísindamaður með gjörólíka sýn á þessa hluti. Sá norski sagði að hvað sem liði meðalhitanum á jörðinni þá hefði hitafar sjávar á norðurslóðum sýnt 70 ára sveiflu um aldir. Í uppsveiflunni stækkuðu uppsjávarstofnarnir hver af öðrum – fyrst síld, svo kolmunni og loks makríll – og héldu í fæðuleit lengra til vesturs og norðurs. Nú væri sveiflan nálægt hámarki og stofnarnir stórir og útbreiddir, en brátt færi þessi sveifla að ganga til baka, stofnarnir að minnka og útbreiðslan að skreppa saman á minna svæði.

Auðvitað veit enginn með vissu hvað mun reynast rétt í þessum efnum. Mér sýnist þó að þeir vísindamenn sem best þekkja til á norðurslóðum hallist flestir að því að sveiflan skipti verulegu máli.

Afli við Ísland

Við Íslendingar þekkjum vel hvernig þessir stofnar uppsjávarfiska stækkuðu og juku útbreiðslu sína og tóku að ganga á Íslandsmið á umliðnum árum eftir langt hlé. Þá bjuggum við okkur út til veiða og vinnslu á þessum fiski og jukum afla okkar af þessum tegundum, einni af annarri. Óvissan um framhaldið hefur þó alltaf verið mikil. Í ljósi þess sem að ofan greinir gæti jafnvel svo farið að makríllinn hyrfi af Íslandsmiðum jafn snögglega og hann birtist.

Heildarafli íslenskra skipa úr þessum fiskistofnum frá árinu 2001 sést á meðfylgjandi mynd. Athygli vekur hversu miklar sveiflurnar eru og að þegar minna veiðist af einni tegund getur veiðst meira af annarri.

Óviss þekking

Því skal haldið til haga að vitneskjan um stærð þessara stofna á hverjum tíma er takmörkuð. Óvissa um stofnstærð og nýtingarmöguleika næstu árin er því jafnframt mikil.

Nú í vor sat ég aðra ráðstefnu um uppsjávarfisk og var sú haldin hér í Reykjavík. Þar voru kynnt ýmis sjónarmið tengd yfirstandandi rannsóknum, en meðal frummælenda voru bæði íslenskir og erlendir vísindamenn. Sagt var frá vísbendingum um minnkandi fæðuframboð og vaxandi samkeppni milli þessara fisktegunda. Einnig kom fram að afrán makríls á ungsíld gæti átt þátt í minnkun síldarstofnsins undanfarið. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig rannsóknir og veiðar fylla upp í gloppurnar í þekkingunni á komandi árum.

Greinin birtist upphaflega 11. júní 2015 í Fiskifréttum.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px