Lang­hlaup að sjálf­bær­um sjáv­ar­út­vegi

Sjósókn á Íslandsmiðum hefur sjaldnast verið dans á rósum. Lengi vel var viðvarandi tap á veiðum og vinnslu og á tímabili stefndi í algert hrun þorskstofnsins, sem var og er enn mikilvægasta útflutningsafurðin. Það var ekki fyrr en fiskveiðistjórnunarkerfi var komið á að forsendur fyrir sjálfbærri atvinnugrein tóku að styrkjast. Upptaka þess olli víða vandkvæðum, en það var nauðsynlegt þjóðarhag að koma böndum á sóknina og snúa við óhagkvæmum rekstri. Það voru einfaldlega of mörg skip að reyna að veiða úr síminnkandi stofnum. Afkoman var léleg og stofnarnir í slæmu ástandi og þessu varð að breyta. Þegar kvóta var upphaflega úthlutað var miðað við veiðireynslu þeirra sem gert höfðu út.

Fiskveiðistjórnunarkerfið var sannarlega ekki fullskapað á fyrsta degi. Það er langhlaup að byggja upp sjálfbærni í auðlindanýtingu. Þrátt fyrir gjöful fiskimið hefur flestum þjóðum reynst hlaupið erfitt. Það er mikilvægt að gleyma ekki langri vegferð okkar Íslendinga, hvar hún hófst og að hvaða markmiðum var stefnt - sjálfbærni og hagkvæmni.

Á meðfylgjandi mynd sést afkoman í sjávarútvegi frá árinu 1980. Viðvarandi tap var í greininni en heldur fer að rofa til þegar stjórnvöld, upp úr 1980, feta sig inn á slóð veiðitakmarkana með kvótakerfi. Önnur tímamót verða upp úr 1990 þegar framsal á kvóta er heimilað. Þá hefst nauðsynleg hagræðing og öflugri fyrirtæki stækkuðu. Segja má að með þessu móti hafi atvinnugreinin sjálf greitt fyrir hagræðinguna. Fyrirtæki sem tóku við keflinu lögðu til verulegt fjármagn til áframhaldandi vegferðar.

Það var þó ekki fyrr en um aldamótin sem hilla fór undir betri afkomu. Það var ekki tilviljun, heldur afrakstur þess sem á undan var gengið, innleiðing kvótakerfis og framsals. Í þessu fólst meiri fyrirsjáanleiki, sem nauðsynlegur var til þess að tryggja fjárfestingar í atvinnugreininni til lengri framtíðar. Eins og áður var vikið að var hagræðingin ekki án sársauka, en hún var nauðsynleg. Þrátt fyrir að fyrirtækjum hafi fækkað byggðust upp öflugri fyrirtæki sem hafa skapað betur launuð og tryggari störf um allt land og lagt verulegt fjármagn til ríkissjóðs.

Það sem hins vegar tókst ekki eins vel framan af var að endurreisa þorskstofninn. Þar hefur nú orðið breyting á. Hún hófst árið 2007, þegar sett var ný aflaregla sem tók gildi árið 2009. Með henni var veiðihlutfall þorsks lækkað úr 25% í 20% af viðmiðunarstofni fiska sem eru fjögurra ára og eldri. Reglan miðaði að vernd og sjálfbærri nýtingu þorskstofnsins, þar sem byggt væri á bestu fáanlegu vísindaráðgjöf.

Það er gagnlegt að hafa þessa mynd til hliðsjónar þegar sjávarútvegur er ræddur. Hún sýnir að vegferðin hefur verið löng og það er ekki langt síðan aðstæður voru með allt öðrum og verri hætti. Áhrif einstakra ákvarðana koma jafnvel ekki fram fyrr en árum eða áratugum síðar. Þær ákvarðanir sem teknar eru í dag verða því að vera vel ígrundaðar og markmið þeirra skýr. Við erum komin í eftirsóknarverða stöðu og verkefnið er að varðveita hana og treysta enn frekar. Áskoranir í þeim efnum liggja ekki í því að breyta fortíð, heldur að byggja undir framtíð.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px