Hvatn­ing­ar­verð­laun og áminn­ing um mik­il­vægi haf­rann­sókna

Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, hlaut í dag Hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrir rannsóknir sínar á áhrifum súrnunar sjávar á kalkmyndandi lífríki í hafinu við Ísland. Hrönn er frumkvöðull í rannsóknum af þessu tagi við strendur Íslands og hefur unnið ötullega að því að gera grein fyrir alvöru málsins hér á landi. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ástæðu til að heiðra Hrönn fyrir starf sitt og hvetja hana áfram á sömu braut. Rannsóknir hennar vekji fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að ganga vel um auðlindina sem hafið er, að hugsa þurfi um umhverfismál út frá hnattrænu samhengi og að efnahagsmál og umhverfismál verða ekki aðskilin. Góð og víðtæk þekking á ástandi sjávar væri mikilvæg fyrir sjávarútveg. Íslenskt samfélag þyrfti að setja kraft í hafrannsóknir ef ætlunin væri að byggja áfram hagkerfi Íslands á sjálfbærum veiðum.

„Því miður vitum við ekki nógu mikið þar sem það liggja ekki fyrir nægar rannsóknir varðandi þetta málefni og því er þörf á að rannsaka það frekar til að geta brugðist rétt við og tilkynnt alþjóðasamfélaginu um ástand mála,“ segir Hrönn. Hún segir að málið snerti Íslendinga sérstaklega því mælingar á vegum Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt að sjórinn norður af Íslandi súrnar talsvert hraðar en sjór sunnar í Atlantshafinu.

„Hafið er að breytast og það er bæði hagur náttúrunnar og þeirra sem nýta auðlindina að skilja hvaða breytingar eru að eiga sér stað, hverjar framtíðarhorfur auðlindarinnar eru og hvernig hægt sé að bregðast við þessum breytingum. Þessi hvatningarverðlaun eru mér raunveruleg hvatning til þess að halda áfram rannsóknum á þeim breytingum sem eru að verða í hafinu við Ísland, og þá sér í lagi súrnun sjávar,“ segir Hrönn. Hún segist einnig vonast til þess að viðurkenningin ýti undir áframhaldandi uppbyggingu rannsóknastarfs á þessu sviði til framtíðar.

Hrönn lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 2007, meistaraprófi í sjávarlíffræði frá Háskólanum í Plymouth 2008 en hefur stundað doktorsnám við Háskóla Íslands.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px