Hér skal verða sam­tal

Við upphaf kirkjustríðs í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness kemur vígreifur Ólafur bóndi á Hrísbrú með orf sitt reitt um öxl til prestsins á Mosfelli eldsnemma morguns. Knýr fast dyra og vekur heimilisfólkið: „Hér skal verða barist. Blóð skal mæta blóði,“ sagði Ólafur bóndi allæstur. Eftir nokkra bolla af kaffi, „nærbuxnaskólpi“ og samræður var loft úr mönnum lekið og gengu þeir til daglegra verka sinna. Það er víst að sameiginleg kaffidrykkja og samtal sjávarútvegs og þjóðar eina morgunstund mun ekki leysa öll mál, en einhvers staðar verður að byrja. Því samtalið - sambandið - verður að bæta.

Til þess að grafast fyrir um hvað gera má betur í sjávarútvegi og auka skilning á því sem þar er að gerast hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ákveðið að halda fjóra fundi um málefni sjávarútvegs og ræða þau með uppbyggilegum hætti. Efni fundanna er; gagnsæi, umhverfismál, samfélagslegur ábati og nýsköpun. Fyrsti fundur var síðastliðinn miðvikudagsmorgun í Messanum á Granda. Húsfyllir var og rúmlega það. Frummælendur voru fjórir; Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Umræðuefnið var gagnsæi.

Án þess að gera sérstaka grein fyrir áherslum hvers og eins má halda því fram að margt sé hægt að gera betur til þess að auka gagnsæi í sjávarútvegi og komu margar gagnlegar ábendingar fram á fundinum. Sumum þykir gagnsæið nú þegar vera ágætt og í samræmi við lög og reglur en aðrir halda því fram að vegna sérstöðu sjávarútvegs eigi að gilda um hann sérstakar reglur sem kveða á um aukið gagnsæi. Þá var augljóst að traust milli útgerða og sjómanna verður að aukast.

Nú að þessum fundi loknum munu samtökin fara vandlega í gegnum það sem fram kom og nýta sér umræður og tillögur til þess að auka gagnsæi í sjávarútvegi og reyna að auka traust milli manna. Það gerist ekki í einu vetfangi en ég vil leyfa mér að halda því fram að sú vegferð sé hafin. Sjávarútvegur er grundvallarstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi og mikilvæg undirstaða í menningu okkar. Skiljanlegt er að margir hafi skoðanir á svo mikilvægri atvinnugrein og verðmætri náttúruauðlind. Þótt ekki sé víst að nokkru sinni takist að sætta öll sjónarmið er mikilvægt að koma í veg fyrir að tortryggni og illindi verði ráðandi í sambandinu milli sjávarútvegs og þjóðarinnar. Ég tel að opið og hreinskiptið samtal um sjávarútveginn sé leiðin fram á við. Gjarnan yfir kaffibolla.

Næst ætlum við að tala saman um sjávarútveg og umhverfismál. Fundurinn verður á miðvikudag 4. mars klukkan 9.00 á sama stað; Messanum á Granda.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px