Hag­stæð verð­þró­un veg­ur upp sam­drátt í magni

Hagstæð verðþróun vegur upp samdrátt í magni
Þrátt fyrir samdrátt í magni útfluttra sjávarafurða, sem einna helst má rekja til loðnubrests, jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu 11 mánuðum nýliðins, miðað við sama tíma árið 2018. Vitaskuld spilar gengi krónunnar stóra rullu í aukningunni í krónum talið, en að teknu tillit til þess var aukning engu að síður, eða sem nemur tæpum 2%. Ástæðan er hagstæð verðþróun á sjávarafurðum erlendis en verðið hefur hækkað nær samfellt frá ársbyrjun 2018. Var verð útfluttra sjávarurða rúmlega 7% hærra í erlendri mynt á fyrstu 11 mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil 2018. Hækkunin náði yfir nær allar tegundir en einna mest hækkaði verð á ferskum afurðum og einnig skreiðaafurðum. Þetta má sjá á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir áhrif magns, gengis og svo afurðaverðs á útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Ekki sjálfgefið
Margir kunna að halda að eftir að fiskurinn er veiddur þá sé restin sjálfgefin, hann einfaldlega selji sig sjálfur. Staðreyndin er hins vegar sú að fiskur í sjó felur ekki í sér verðmæti í sjálfu sér, það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis þar sem hörð samkeppni ríkir og kröfurnar eru stöðugt meiri. Sem endranær er ekkert gefið í þeim efnum og gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning. Íslenskur sjávarútvegur er stöðugt á vaktinni við að auka verðmæti afurða með ýmsu móti og í þrotlausri vinnu við að bæta virðiskeðjuna, allt frá skipulagi veiða til lokasölu. Þó er ljóst að erfitt er að festa fingur á hversu miklu slík vinna skilar á heildina litið. Hún er falin í verði útfluttra sjávarafurða þar sem ástand á mörkuðum erlendis gegnir stóru hlutverki.

Ólík aðferðafræði, önnur útkoma
Í ofangreindri greiningu er stuðst við verðvísitölu útfluttra sjávarafurða (VÚS) sem Hagstofan tekur saman, en ekki verðvísitölu sjávarafurða (VS) sem Hagstofan heldur einnig utan um og birtir mánaðarlega. Báðar þessar vísitölur mæla verðþróun á íslenskum sjávarafurðum, en með ólíkri aðferðafræði og mismunandi gögnum og gefa því mismunandi niðurstöðu. Oftast nær hafa þær þó fylgst ágætlega að, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar er miðað við verð sjávarafurða í erlendri mynt enda er um 98% sjávarafurða flutt út. Nánari umfjöllun um verðvísitölur má sjá á Radarinn.is þar sem umfjöllun um verðvísitölurnar hefur nýlega verið bætt inn. Þar er tekið mið af árstölum og verða tölurnar fyrir árið 2019 ekki uppfærðar fyrr en þær liggja fyrir árið í heild.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px